Konukvöld 2016.
Föstudaginn 27. maí fóru félagar ásamt mökum heim að Hólum í Hjaltadal. Þarna var um að ræða hið árlega konukvöld og að venju var það klúbbnefndin sem sá um að skipuleggja dagskrána. Farið var með rútu frá Króknum og komið við hjá mynnisvarða um Jón Ósmann ferjumann. Það fengu menn smá andlega næringu, en Árni Ragnarsson rótarýfélagi fór þar yfir sögu ferjumannsins sem og tilurð þess að reistur var glæsilegur mynnisvarði um þennan mikla kappa. Eftir það var haldið heim að Hólum og við það tækifæri fræddi Hjalti Pálsson gesti um eitt og annað úr sinni heimasveit. Þegar þangað var komið tók Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdsarstjóri Landsmóts Íslenskra Hestamanna við og fór yfir ýmis málefni er varðar komandi landsmót. Greinilegt á öllu að aðstaðan er að verða hin glæsilegasta og ekki vafi að Hólar í Hjaltadal eru að verða eitt glæsilegasta svæði landsins til að halda stórmót í hestaíþróttum. Eftir þetta var sest niður og formlegur fundur haldinn. Það var Pétur Bjarnason sem stjórnaði fundi í fjarveru starfandi forseta og fengu félagar Ólaf Sigurgeirsson kennara á Hólum til að flytja rafpóst. Eftir fundahöld var síðan haldið heim á leið og menn sáttir við góða kvöldstund.