Fréttir

1.6.2015

Konukvöld 2015.

Komið við á Skagaströnd.

Föstudaginn 29. maí héldu Rótarýmenn sinn árlega konufund eða konukvöld eins og það heitir. Þá bjóða félagar mökum sínum með í óvissuferð og eiga með þeim skemmtilega kvöldstund. Það var klúbbnefndin sem bar hitann og þungann af skipulagningu og óhætt að segja að vel hafi til tekist. Farið var með rútu út á Hraun á Skaga og heimilisfólkið þar á bæ heimsótt. Það var húsmóðirin á bænum, Merete K. Rabölle sem tók á móti gestum og sagði þeim það helsta. Ýmislegt bar á góma, dúntekja og hreinsun, ísbjarnarsögur, vargur ásamt hið títtnefnda veðurfar, en frekar svalt var í veðri þegar gesti bar að garði. Að því loknu héldu menn áfram og komu síðan við á Skagaströnd þar sem stoppað var og kvöldverður snæddur. Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri Skagastrandar var gestur kvöldsins og sagði hann skemmtilegar sögur af mönnum og málefnum sem tengdust samfélaginu forðum.  Að því loknu var haldið yfir Þverárfjallið og heim á leið.