Heimsókn í Byggðastofnun.
Rótarýfélagar heimsóttu höfuðstöðvar Byggðastofnunar.
Fimmtudaginn 21. maí var haldin fundur í Rótarýklúbb Sauðárkróks, en að þessu sinni var hann haldinn í húsnæði Byggðastofnunar.
Það var forstjórinn, Aðalsteinn Þorsteinsson sem tók á móti hópnum og byrjaði hann að bjóða félögum upp á veitingar. Að því loknu hélt hann greinagóða kynningu á starfsemi stofnunarinnar. Fram kom hjá honum að skipta mætti starfseminni gróflega í tvö svið, fyrirtækjasvið og þróunarsvið. Á fyrirtækjasviði eru menn m.a. í lánastarfsemi og ráðgjöf gagnvart atvinnulífinu og hefur sá þáttur vaxið mikið síðustu árin. Eftirspurn eftir lánum hjá stofnuninni hefðu stóraukist undanfarin ár, og nefndi Aðalsteinn sérstaklega ferðaþjónustan, en mikill vöxtur hefur verið í þeirri grein undanfarin ár. Sjávarútvegurinn, sem um langt árabil hefði verið stærsti viðskiptavinur þeirra þyrfti nú að sætta sig við annað sætið. Sem dæmi um starfsemi á þróunarsviðinu, þá sér hún um byggðaráætlanir og rannsóknir tengdar byggðarþróun, ásamt því að vera tengiliður við atvinnuþróunarfélögin víðs vegar um landið. Eftir þessa kynningu fengu gestir að skoða sig um í húsnæði stofnunarinnar sem er hið glæsilegasta og þökkuðu síðan Aðalsteini fyrir heimsóknina.