Góð þátttaka á Rótarýdaginn
Fólk á öllum aldri mætti á fjölbreytta dagskrá
Góð þátttaka var á Rótarýdaginn sem var haldinn laugardaginn 28. febrúar. Byrjað var á því að fara í gönguferð um gamla bæinn undir leiðsögn Brynjars Pálssonar fyrrum bóksala á Króknum.
Veðrið var með betra móti, en gengið var m.a. um Skógargötu, Lindargötu og Aðalgötuna og fengu gestir að heyra sögur af tilurð gamalla húsa sem og einstaklinga sem þar bjuggu. Eftir gönguferðina var farið inn á Kaffi Krók þar sem gestir gátu fengið sér kaffi og meðlæti og hlustað á fróðleg erindi.
Gestur Þorsteinsson og Árni Ragnarsson ræddu um sögu Rótarýklúbb Sauðárkrók, en klúbburinn var stofnaður 4. september 1948, og er því að verða 67 ára gamall. Fjölluðu þeir m.a. um þau fjölmörgu verkefni sem klúbburinn hefur staðið fyrir gegnum tíðina, en má þar nefna útsýnisskífuna á Nöfum, minnismerkið um Fjölnismanninn Konráð Gíslason, jólahlaðborðið og stofnun Golfsklúbbs Sauðárkróks. Ingvi Hrannar Ómarsson sagði frá kynnum sínum af Rótarý og Rótarýact, en Ingvi fór á sínum tíma til Bandaríkjanna sem skiptinemi á vegum Rótarýklúbbs Sauðárkróks. Magnús Barðdal upplýsti síðan fundargesti um nýjustu hugmynd Rótarýfélaga, en hún gengur út á það að fara í miklar endurbætur og uppbyggingu á útivistarsvæðinu í Litla Skóg. Þetta yrði gert í samstarf við sveitarfélagið og hugsanlega önnur félagasamtök og verður gaman að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér varðandi þau málefni.