Fréttir

25.3.2014

Ómar Bragi heiðraður með Paul Harris orðu.

Fimmtudaginn 21. mars var Ómari Braga Stefánssyni veitt Paul Harris orðan. 

Við það tækifæri flutti Heimir Þór Andrason,forseti rótarýklúbbsins eftirfarandi ræðu.  

 

 

 

Stjórn Rótarýklúbbs Sauðárkróks hefur ákveðið að útnefna Ómar Braga Stefánsson sem Paul Harris félaga fyrir vel unnin störf í þágu Rótarý. Paul Harris er, eins og þið vitið eflaust, stofnandi Rótarýhreyfingarinnar. Hann lést árið 1947 og í minningu hans ákvað Rótarýsjóðurinn að útnefna svokallaða Paul Harris félaga til að efla sjóðinn. Einstakir klúbbar geta þannig heiðrað félaga fyrir mikil og góð störf. Ómar Bragi Stefánsson er vel að þessari viðurkenningu kominn. Hann gekk í Rótarýklúbb Sauðárkróks árið 2000 og hefur allan tímann verið mjög virkur félagi. Hann var forseti klúbbsins starfsárið 2007-2008 og auk þess að sinna skyldum sínum sem félagi hefur hann unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir klúbbinn. Með drifkrafti sínum og frumkvæði hefur hann komið ýmsum góðum málum á framfæri, samfélaginu til góða, bæði hér innan klúbbsins en einnig á öðrum vettvangi hér í Skagafirði og í sínu starfi á vegum UMFÍ. Það er hægt að nefna ótal dæmi en nærtækast er auðvitað að nefna Jólahlaðborðið, verkefni sem eftir var tekið um allt land.