Fréttir
  • Jólahlaðborð 2013.

2.12.2013

Jólaveisla 2013.

Laugardagurinn 30. nóvember 2013,  var merkisdagur í sögu Rótarýklúbbs Sauðárkróks. Þá bauð klúbburinn öllum, sem þiggja vildu, til jólahlaðborðs í hádeginu  í íþróttahúsi Árskóla. Borðhaldið  sóttu hátt í sex hundruð manns og gerðu mat og drykk góð skil og fóru glaðir og þakklátir af vettvangi. Engin þurfti að greiða fyrir máltíðina en þeir sem vildu gátu sett aura í sérstakan söfnunarkassa sem var á staðnum, en það fé  sem safnaðist verður nýtt til góðra málefna  í þeim anda sem klúbburinn starfar.

Jólahlaðborð 2013Hugmyndina að þessu uppátæki átti Ómar Bragi Stefánsson, félagi í klúbbnum til margra ára og fyrrum forseti hans. Leitað var til ýmissa fyrirtækja á Króknum um framlög til þessa verkefnis, mest í formi veitinga og hráefnis og útkoman var jafn glæsileg og raun bar vitni. Jólamatur í hæsta gæðaflokki eins og hver gat í sig látið, appelsín og malt, glæsilega skreyttur salur, tónlist bæði spiluð af hljómdiskum og flutt af tónlistamönnum á staðnum og svo kom Guðni Ágústsson og fór með gamanmál úr nýrri bók sinni. Allt hjálpaðist að til þess að gera stundina eins hátíðlega og skemmtilega og raun bar vitni. Fyrir utan gestina, sem voru ósparir á lofið, voru það glaðir Rótarýfélagar ásamt konum nokkurra þeirra, sem stóðu í því að taka til eftir að síðustu gestir yfirgáfu salinn.

Jólahlaðborð 2013. Árni, Örn, Ómar Bragi og BaldvinÞað er augljóst að það er mikið mál að bjóða sexhundurð manns í mat. Eftir að hugmyndi hafði mótast var fjölmörgum fyrirtækjum boðið að vera með og voru svörin  undantekningalaust jákvæð. Þegar ljóst var að af þessu gæti orðið hófs margháttaður undirbúningur og í fyllingu tímans voru prentaðir aðgöngumiðar og auglýst hvar þá mætti nálgast. Þeir sem áhuga höfðu á að þiggja boðið fengu síðan miða fyrir sig og sína, en þegar til veislunnar kom var það ekki ófrávíkjanlegt skilyrði að vera með miða. Enda var skipulag og þjónusta í salnum á þann veg að ekki mynduðust miklar biðraðir við matarborðið, heldu fengu allir matinn sinn fljótt og vel. Ómar Bragi stýrði svo Rótarfélögum með festu og deildi út verkefnum eftir því sem við átti og með sameiginlegu átaki tókst að gera þetta að einum eftirminnilegasta degi Rótarýklúbbs Sauðárkróks í bráðum sextíu ára sögu hans.

Rótarýklúbbur Sauðárkróks þakkar öllum gestum fyrir komuna, fyrirtækjum sem studdu verkefnið fyrir framlagið, félögum og öðrum sem tóku þátt í undirbúningi þess og öllum öðrum fyrir liðveisluna, tónlistarfólki og öðrum sem komu fram fyrir þeirra þátt. Gleðileg jól til ykkar allra.