Fréttir
  • Viggó Jónsson með ferðakynningu 3. jan

4.1.2013

Fyrsti fundur ársins.

Í umsjón félaga og starfsgreinanefndar.

Fimmtudaginn 3. janúar komu Rótarýfélagar saman eftir gott jólafrí og funduðu í aðstöðu klúbbsins á Kaffi Krók. Umsjón fundarins var að þessu sinni í höndum félaga og starfsgreinanefndar, en formaður hennar,  Árni Stefánsson fór fyrir nefndinni og kynnti málefni kvöldsins.

Á fundinn var boðaður Viggó Jónsson, en hann hefur ásamt sínu fólki staðið fyrir mikilli uppbyggingu á aðstöðu fyrir ferðafólk að Reykjum á Reykjarströnd. Hélt hann greinargóða kynningu á þeirri afþreyingu sem þar er í boði, en þar má m.a. nefna, áætlunarferðir með leiðsögn út í Drangey, sjóstangaveiði og gönguferðir upp á Tindastól eða á aðra áhugaverða staði í nágrenni.  Eins kom það fram hjá Viggó að  öll aðstaða til að taka á móti ferðafólki hefur verið stórefld að Reykjum, til dæmis var keypt sérstakt húsnæði fyrir veitingasölu sem sett var upp s.l. sumar.

Viggó Jónsson með kynningu á ferðaþjónustu.

Í máli Viggós kom fram að hann teldi mikla möguleika fólgna í ferðaþjónustu að Reykjum. Svæðið hefði upp á mikið að bjóða, óvíða væri samspil náttúru og sögu tilkomumeira en einmitt í Drangey og í  nágrenni hennar. Reyndar gerði hann sér grein fyrir því, að eins og víðar á Íslandi, þá væri ferðaþjónusta að Reykjum árstíðarbundinn atvinnugrein,  drangeyjarferðir yrðu sennilega seint stundaðar yfir vetrarmánuðina.  Að loknum fyrirlestri fóru fram umræður, menn spurðu spurninga og voru  greinilega áhugasamir um málefnið. Ljóst er að þarna eru stórhuga menn á ferðinni enda Viggó og hans fólk ekki þekkt að hafa neina meðalmennsku að markmiði. Rótarýfélagar þakka Viggó fyrir áhugaverða og skemmtilega kvöldstund.