Sæluvikufundur
Rotaryfélagar tóku smá forskot á sæluna
Rotaryfélagar tóku smá forskot á sæluna og héldu sinn árlega sæluvikufund fimmtudaginn 26. apríl. Stjórn klúbbsins hafði umsjón með fundinum, en undanfarin ár hefur sú hefð skapast að félagar fari í gönguferð um götur og hverfi bæjarins undir leiðsögn. Það var Brynjar Pálsson sem fór fyrir göngunni, en fáir menn þekkja betur til sögu bæjarins og kunna að segja frá henni, en einmitt hann. Að þessu sinni var farið út Freyjugötuna og rölt um göturnar í kringum barnaskólann, Knarrarstíg, Sæmundargötu og Ránarstíg, og saga þeirra rakin. Sagt var frá hverjir byggðu hvaða hús og hvenær, og sögur voru sagðar af skemmtilegum atvikum sem þar áttu sér stað o.s.f.v. Það er óhætt að segja að allir sem þarna voru skemmtu sér konunglega, enda Brynjar Pálsson mikill fróðleiksmaður og með betri sagnamönnum. Ferðin tók um 1. klst. í blíðskaparveðri en af henni lokinni héldu menn til baka í fundaraðstöðu að Borgarmýri 1 og sátu sinn hefðbundna fund. Fátt er betra en skemmtileg stund með góðum félögum.