Nokkrar endurminningar
Nokkrar endurminningar frá stofnun og úr sögu klúbbsins fyrstu árin
Eftir Steingrím Jónsson
Mér undirrituðum var boðin þátttaka í Rótarýklúbbi Reykjavíkur snemma árs 1935, og var ég eini meðlimurinn. sem tekinn var inn í klúbbinn eftir stofnun hans, þar til klúbburinn fékk stofnbréf sitt afhent haustið 1935, en þá var liðið nærfellt ár frá því klúbburinn var stofnaður haustið 1934. K. Zimsen, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, var fenginn til að beita sér fyrir stofnun klúbbsins, og hefir hann sjálfur rakið þá sögu eins og hún kom honum fyrir sjónir. Verður hún því eigi endurtekin hér nema að nokkru leyti samhengisins vegna.
Fyrstu tilraunir til stofnunar rótarýklúbbs hér á landi munu hafa verið gerðar árið 1920 eða 1921 frá Rótarýklúbbnum í Hull í En!}landi. Voru tilmæli um það borin upp við Asgrím Sigfússon útgerðarmann í Hafnarfirði. En hvorttveggja var, að því var lítt fylgt eftir frá Hull og Ásgrímur taldi öll tormerki á að stofna klúbb í Hafnarfirði. Þar voru hvorki samkomuhús né veitingastaðir til.
Fórst því málaleitun þessi fyrir, og það var ekki fyrr en 1933 eða snemma árs 1934, að Ludvig Storr, núverandi danskur ræðismaður í Reykjavík, fékk fyrirspurn frá félögum í Rótarýklúbbi Kaupmannahafnar um möguleikana á að stofna rótarýklúbb á Íslandi. Benti hann á að fá Knud Zimsen, er hætt hafði borgarstjórastörfum í árslok 1932 og hafði því lítið fyrir stafni, til að taka að sér stofnun Rótarýklúbbs í Reykjavík. Það var sérstaklega K. Mikkelsen lyfsali og meðlimur í Rótarýklúbbi Kaupmannahafnar, sem tók að sér að gangast í málið fyrir hönd Kaupmannahafnarklúbbsins. Hann frétti, að tveir rótarýfélagar frá klúbbnum í Hannover í Þýzkalandi höfðu tekið sér far með skemmtiferðaskipi til Íslands sumarið 1934. Sneri Mikkelsen sér til þeirra og bað þá að heimsækja Zimsen og fá hann til að takast á hendur stofnun rótarýklúbbs, og myndi þá Mikkelsen koma á eftir og aðstoða við stofnunina. Þjóðverjarnir komu hingað til Reykjavíkur, eins og gert hafði verið ráð fyrir. Stóð skip þeirra við eina dagstund, en þeir notuðu tímann til að heimsækja Zimsen, sem hafði áður fengið tilkynningu um komu þeirra. Var Zimsen í fyrstu mjög tregur til að takast þetta á hendur, en lofaði þó að athuga málið. Þjóðverjarnir létu sér það ekki nægja og fóru ekki fyrr frá honum en þeir höfðu samið símskeyti til Mikkelsens, er þeir báru undir Zimsen. Var skeytið um, að Mikkelsen mætti koma um haustið til viðræðna við Zimsen um stofnun Rótarýklúbbs í Reykjavík. Þjóðverjarnir kvöddu Zimsen með kærleikum, fóru beint á símstöðina með skeytið og síðan um borð í skip sitt. Mikkelsen lét ekki á sér standa. Hann skrifaði Storr og Zimsen og tilkynnti komu sína snemma í september. Storr setti sig í samband við Zimsen og bauð fram aðstoð sína, og tóku þeir síðan þriðja mann Ragnar H. Blöndal kaupmann sér til aðstoðar í e.k. undirbúningsnefnd. Mikkelsen kom svo við 3. mann, og var fljótlega efnt til veizlufagnaðar þ.ll. september að Hótel Borg, þar sem boðnir voru einir 30 menn, er þeir þremenningarnir höfðu valið til að kynna þeim rótarýfélagsskapinn og til athugunar um stofnun klúbbs í Reykjavík. Zimsen var veizlustjóri, en þeir Danirnir kynntu mönnum rótarýfélagsskapinn. Tveim dögum síðar var efnt til stofnfundar. Varð mem hluti þeirra manna, sem í veizlunni höfðu verið, hlynntir stofnuninni. Var klúbburinn þannig stofnaður 13. september 1934 með rúmlega 20 félögum. Fannst undirbúningsnefndinni sá ljóður helzt á, að tiltölulega fátt framsóknarmanna og jafnaðar-manna, þeirra er boðnir höfðu verið á kynningarkvöldið, gerðust þátttakendur. Á stofnfundinum voru samþykkt lög klúbbsins, er Zimsen hafði aðallega undirbúið, og kosin fyrsta stjórn klúbbsins með Zimsen sem formanni. Fyrstu fundirnir voru haldnir í Hótel Borg, en síðan flutti klúbburinn fljótlega yfir í Tjarnarkaffi og hafði fundi sína þar mörg fyrstu árin.
Meðal stofnenda klúbbsins var Ludvig Kaaber bankastjóri. Hann skýrði frá því, að það hefði verið nefnt við sig nokkrum árum áður að taka að sér stofnun Rótarýklúbbs í Reykjavík, en að hann hefði ekki treyst sér til þess.
Fyrsta veturinn eftir stofnun klúbbsins var mjög rætt um starfsemi hans, hvernig henni yrði bezt hagað, og var mjög rætt um að taka upp eitthvert áhugamál eða starf handa klúbbnum að vinna fyrir út á við. Zimsen vann mikið starf fyrir klúbbinn í upphafi og mótaði mjög fundarhöldin. Um veturinn komu oft bréf frá Rótarýklúbbi Kaupmannahafnar með leiðbeiningum, prentuðum og rituðum og margs konar eyðublöðum. Þar á meðal var um-sóknareyðublað um stofnbréf handa klúbbnum. Var það afgreitt fljótlega og sent til Kaupmannahafnar. Þegar kom fram í apríl og kjósa skyldi nýja stjórn, var talið sjálfsagt, að stjórnin, sem hafði verið fyrsta veturinn, yrði áfram næsta ár og tæki á móti stofnbréfi klúbbsins.
Um sumarið kom svo tilkynning frá Kaupmannahafnarklúbbnum um, að stofnbréf handa Reykjavíkurklúbbnum hefði verið samþykkt í Chicago þ. 31. maí 1935 og væri tölusett 3842, í 75. rótarýumdæminu, Dan-mörku. Yrði stofnbréfið sent til Kaup-mannahafnar og myndu koma menn þaðan úr klúbbnum til að afhenda það. Stjórn klúbbsins hóf nú undirbúning til þess að geta tekið við stofnbréfinu með nokkurri viðhöfn, svo sem venja hefur verið innan rótarýs. Var kosin nefnd manna til að gera tillögur um þann undirbúning. Þá stóð svo á, að 1. ágúst þetta sumar var opnað talsamband í lofti milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar annars vegar og Reykjavíkur og New York hins vegar. Nefndin sneri sér því til póst- og símamálastjóra og framkvæmdastjóra Eimskipafélagsins um aðstoð þeirra til að koma á framfæri auglýsingu, sem nefndin hefði hugsað sér í sambandi við afhendingu stofnbréfsins, að bjóða öllum rótarýklúbbunum til hátíðarhalds í september. Á boðsbréfinu var landabréf, þar sem Ísland var miðsvæðis, og sýnt hvernig skipasamgöngur lægju til og frá landinu og tal-og símsamband við landið. Þeir forstjórarnir brugðust vel við. Boðskortið var prentað og sent út til 3841 klúbbs, og vísað var til ýmissa manna innan klúbbsins, er gætu talað margs konar erlend tungumál, og annar viðbúnaður var hafður til að taka á móti boðsgestum. Þeir urðu þó færri en búizt hafði verið við. Aðeins 3 félagar úr Rótarýklúbbi Kaupmannahafnar komu með stofnbréfið. Þakkir komu frá fjölda klúbba fyrir boðið og heillaóskir, og talsvert margir klúbbar sendu fána sína. Eignaðist klúbburinn þegar í upphafi þannig allmikið fánasafn.
Stofnbréf klúbbsins var afhent með virðulegri athöfn þ. 7. september 1935. Hafði Zimsen undirbúið athöfnina, fengið lánað húsnæði uppi í heimkynnum OddfelIowa og hljómsveit til aðstoðar. Viðstaddir afhendinguna voru allir íslenzku rótarýfélagarnir ásamt þeim þremenningum frá Kaupmannahöfn. Umdæmisstjórinn danski hafði orð fyrir þeim og afhenti Zimsen stofnbréfið með mjög vinsamlegu ávarpi, en Zimsen þakkaði. Eftir þessa athöfn var haldið samsæti í Tjarnarkaffi með konum félaganna. Umdæmisstjórinn Gregersen verkfræðingur var mjög tímabundinn og varð því að fara úr veizlunni þegar að borðhaldi loknu áleiðis til útlanda. Zimsen stjórnaði nú fundarhöldunum með auknum krafti. Komu fram ýmsar hugmyndir um starfsemi klúbbsins, og voru umræður oft fjörugar, svo að ekki vannst tími til að ljúka þeim á venjulegum fundartíma, kom það því fyrir þenna næsta vetur, að sérstakur umræðufundur var haldinn að kvöldi til. Það bar og til þenna vetur, að Rotary International hafði efnt til samkeppni um beztu smágrein um rótarýfélagsskapinn. Tóku margir þátt í þeirri samkeppni víða um lönd. Þegar til úrskurðar kom, varð dr. Guðmundur Finnbogason hlutskarpastur. Vakti það að vonum nokkra athygli á klúbbnum. Dr. Guðmundur var mjög áhugasamur félagi, ávallt reiðubúinn til aðstoðar með ræðum, upplestrum og ritum og var allra manna hugkvæmastur. Stallara heitið var valið að hans tillögu. Árni Friðriksson magister kom fram með þá hugmynd, að allir rót-arýklúbbarnir semdu hver um sig smágrein um borg sína eða byggðarlag. Skyldu greinar þessar vera allar í sams konar formi, og skyldi Rotary International taka við þeim og gefa út í sameiginlegu riti, sem verða myndi eins konar landfræðisafnrit. Hugmyndinni var komið á framfæri við Rotary International, en stjórn þess treystist ekki til að takast á hendur söfnun til slíks rits. Var því ekki frekar gert í málinu, en upp úr þessu spratt hugmynd Árna um að Reykjavíkurklúbburinn gæfi út smágreinar, þannig að hver félagi lýsti sinni starfsgrein eða einhverri hlið atvinnulífs eða þjóðfélagshátta hér. Yrðu greinarnar síðan gefnar út í heild á ensku og kallaðar Points about Iceland. Var unnið nokkuð að þessu um skeið síðar.
Þegar kom til stjórnarkjörs vorið 1936, var rætt um, hvern hátt skyldi á hafa, og voru menn sammála um að láta forseta eigi sitja nema eitt ár í senn. 1. júlí 1936 tók því við næsti forseti klúbbsins Guðmundur Hlíðdal, en Zimsen lét af störfum og var að vonum vel þakkað ágætt starf hans fyrir klúbbinn.
Rótarýklúbbur Reykjavíkur tilheyrði danska rótarýumdæminu. Umdæmisstjórarnir dönsku komu því hingað í kynnisför einu sinni hver þeirra að sumarlagi, en þeir störfuðu tvö ár í senn. Sumarið 1937 kom Ipsen umdæmisstjóri, roskinn maður. Hann hafði hug á að stuðla að stofnun fleiri rótarýklúbba. Var farið með hann í bíl til Akureyrar m.a. í því skyni.
Haustið 1937 gekk þriðji forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur, dr. Helgi Tómasson, í það að stofna rótarýklúbba á Ísafirði og Siglufirði, en dráttur varð á stofnun Akureyrarklúbbsins. Sumarið 1939 kom Thomsen umdæmisstjóri með konu sinni. Fóru nokkrir félagar úr Reykjavíkurklúbbnum með þeim hjónum sjóleiðis til Akureyrar. Var komið við á Ísafirði og Siglufirði, og afhenti umdæmisstjóri klúbbunum stofnbréf þeirra á stuttum fundum, er haldnir voru meðan skipið stóð við.
Á Akureyri og Húsavík voru haldnir undirbúningsfundir að stofnun rótarýklúbba.
Svo skall á heimsstyrjöldin síðari, og sambandið við Danmörku rofnaði vorið 1940 og varð erfitt við Svissland einnig um skeið. Voru því örðugleikar á að koma fram beiðnum um stofnbréf handa fleiri klúbbum. Þegar undirritaður fór til Ameríku haustið 1941, fól Reykjavíkurklúbburinn honum að grennslast eftir því hjá Rotary International, hvernig fá mætti stofnbréf handa Akureyrar- og Húsavíkurklúbbunum. Hafði beiðnin vegna Akureyrarklúbbsins verið send, en ekkert svar komið. Við heimsókn mína í skrifstofu hjá Rotary International í Chicago í ársbyrjun 1942 kom í ljós, að umsóknin um stofnbréf vegna Akureyrar var komin fram og samþykkt þ. 20.des. 1941, en skrifstofan vissi ekki, hvernig hún ætti að afgreiða sendingu stofnbréfsins. og varð að samkomulagi, að ég skyldi taka með mér stofnbréfið um vorið til Islands og sem fulltrúi Rotary International afhenda það Akureyrarklúbbnum, en umsóknina vegna Húsavíkurklúbbsins skyldi senda beint til Chicago og leggja fyrir stjórn Kl. og yrði hún þá afgreidd síðar beint til Reykjavíkurklúbbsins. Í þessari heimsókn leitaði ég upplýsinga um, hvernig Ísland gæti orðið sérstakt rótarýumdæmi. Þegar heim kom vorið 1942, skýrði ég frá erindum mínum og afhenti Akureyrarklúbbnum stofnbréfið um sumarið, en umsókn um stofnbréfið til Húsavíkurklúbbsins var afgreidd, og þegar það kom, afhent af þáverandi forseta Rótarýklúbbs Reykjavíkur.
Þegar heimsstyrjöldinni lauk, fól stjórn Rótarýklúbbs Reykjavíkur Guðmundi Hlíðdal að undirbúa umsókn um, að Ísland yrði sérstakt rótarýumdæmi. Þurfti umsókn um það að ganga til umdæmisstjórans danska og vera borin upp í öllum rótarýklúbbum innan umdæmisins. Þurfti meirihluti klúbbanna að vera því samþykkur. Hlíðdal undirbjó málið vel og vandlega, fyrst í viðræðum við Rotary International í Chicago og síðan við danska umdæmisstjórann. Athugaði hann málið og lét síðan Hlíðdal vita, að málaleitun þessari yrði vel tekið. Var þá send umsókn frá íslenzku klúbbunum 5 um, að Ísland yrði sérstakt rótarýumdæmi. Þegar til atkvæða kom í dönsku klúbbunum, var beiðnin samþykkt með einróma samþykki allra klúbbanna og málið síðan sent til Rotary International, er lagði blessun sína yfir það. Fyrsti íslenzki umdæmisstjórinn dr. Helgi Tómasson var kosinn 1946 og starfaði í tvö ár.
Í þessu yfirliti er margs ógetið, má m.a. nefna Norðurlandaráð rótarýklúbbanna og Norðurlanda tímarit þeirra. En tilgangurinn var aðeins að lýsa helztu þáttum í stofnun Rótarýklúbbs Reykjavíkur og á hvern hátt hann stuðlaði að því að stofna nýja klúbba hér á landi í byrjun og því að gera Ísland að sérstöku rótarýumdæmi. Eins og lýsingin ber með sér, koma hér ýmsir menn við sögu, og þarf því að bera þetta undir þá og fá þeirra umsögn og leiðréttingar eða viðauka, ef eitthvað er missagt eða áfátt í frásögn þessari.