Fáeinir þættir

Fáeinir þættir úr sögu Rótarýklúbbs Reykjavíkur

Eftir Finnboga Guðmundsson

Í hinu ágæta yfirliti Steingríms Jónssonar hér að framan, [Nokkrar endurminningar] sem hann hefur dagsett 7. júní 1955, dregur hann upp í nokkrum skýrum dráttum fáein aðalatriði úr sögu Rótarýklúbbs Reykjavíkur frá stofnun hans og unz Ísland hafði verið gert að sérstöku rótarýumdæmi. Steingrímur segir í lokin, að hann hafi einungis ætlað sér að lýsa helztu þáttum og þar komi ýmsir við sögu, sem bera þurfi þetta undir, ef eitthvað kunni að vera missagt eða áfátt í frásögn hans.

Ekki verður séð, að neitt verulegt sé missagt í frásögn Steingríms, en vitaskuld er unnt að auka við og fylla út í hana eftir ýmsum þeim gögnum, er varðveitzt hafa. Er því rétt að fara fyrst fáeinum orðum um helztu gögnin og þá sérstaklega fundabækur klúbbsins, viku- og mánaðarbréf. Stofninn er fundargerð ritara, færð inn í fundabókina, en síðan voru á fyrsta skeiði klúbbsins samin, eflaust upp úr fundar-gerðinni, svokölluð vikubréf, fjölrituð á ís-lenzku, fyrstu fjögur bréfin saman, en úr því viku fyrir viku. Síðan voru gefin út fjölrituð mánaðarbréf á ensku. Mestan þátt í þeim mun hafa átt í öndverðu Árni Friðriksson, svo sjóaður sem hann varð snemma í alþjóðlegu samstarfi, sem fram fór þá eins og nú löngum á ensku.

Við þessi gögn verður nú einkum stuðzt um það, er á eftir fer, þau ýmist endursögð eða frásögn tekin orðrétt upp eftir atvikum.

Áður en horfið verður beint að nánari frásögn af stofnun klúbbsins, er rétt að drepa stuttlega á enn nokkrar eldri tilraunir til stofnunar rótarýklúbbs á Íslandi eða öllu heldur tilmæli í þá átt.

Guðmundur Hlíðdal getur þess í skýrslu um Ameríkuför sína síðla árs 1944 (er síðar verður vikið nánara að í þætti um stofnun sérstaks rótarýumdæmis á Íslandi), að hann hafi eitt sinn, er hann var að grúska í skjalasafni Alþjóðahreyfingarinnar í Chicago, fundið þar "ýmislegt varðandi stofnun R-klúbbs í Reykjavík, mig minnir allt frá 1913". Guðmundur kveðst hafa fengið afrit nokkurra þessara gagna og munu afhenda þau síðar klúbbnum til eignar. Á þessi gögn höfum við í sögu- og laganefndinni því miður ekki rekizt ennþá.

Í yfirliti Steingríms Jónssonar kom fram, eins og við sáum, að Rótarýklúbburinn í Hull stakk upp á því við Ásgrím Sigfússon útgerðarmann í Hafnarfirði, að hann beitti sér fyrir stofnun klúbbs í Hafnarfirði, en af henni varð ekki þá af ástæðum, sem Steingrímur tilgreinir.

Þegar T. C. Thomsen umdæmisstjóri var hér á ferð sumarið 1939, sat hann, eins og síðar mun rakið, fund Rótarýklúbbs Reykjavíkur 3. júlí. Á þeim fundi voru m.a. sjö Hafnfirðingar, er hvattir voru til að kanna möguleika á stofnun klúbbs í Hafnarfirði. Í fundargerðinni segir, að Ásgrímur Sigfússon hafi þakkað "fyrir hönd Hafnfirðinganna og kvaðst mundu gera sitt til að hægt yrði á næstunni að stofna klúbb í Hafnarfirði".

Ásgrímur lifði þó ekki þann atburð, því að hann lézt í febrúar 1944, en Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar var stofnaður 9. október 1946.

Á fundi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur 11. ágúst 1937 sagði Sveinn Björnsson, gestur klúbbsins og þá sendiherra Íslands í Danmörku, frá því "að sér væri kunnugt um  starf rótarýs og hefði fengið áskorun árið 1924 um að stofna rótarýklúbb í Reykjavík, en hefði af ýmsum ástæðum því miður ekki getað sinnt því þá, og óskaði hann Rótarýklúbbi Reykjavíkur allra heilla í framtíðinni" .

Um aðdraganda að stofnun Reykjavíkurklúbbsins fram yfir það, sem rakið er í yfirliti Steingríms Jónssonar, skal þess getið, að til eru í gögnum klúbbsins bréf, er H.C. Helweg-Mikkelsen, þá umdæmisstjóri, ritaði Ludvig Storr 25. nóvember 1931. Í því þakkar hann Storr fyrst fyrir bréf hans 17. nóvember "og Islands Adressebog for 1930".

Ljóst er, að Storr hefur merkt þar við ýmis nöfn, og telur Helweg-Mikkelsen, að það verði sér að liði í starfi sínu til að stofna rótarýklúbba á Íslandi. "Fyrir mestu er að finna mann, sem gegnir mikilsverðri stöðu í þjóðfélaginu þar uppi og jafnframt er fús að ganga í það af krafti að safna saman þessum mönnum, er síðan legðu grunninn. Þekkið þér slíkan mann? Mér sýnist, að fyrst verði að stofna klúbb í Reykjavík, áður en hafizt verði handa um stofnun klúbba annars staðar á Íslandi." Hann telur síðan upp ýmsar þær greinar, er eiga ættu fulltrúa í klúbbnum, en segir svo:

"Gætum við fyrst fundið umræddan áhrifamikinn og atorkusaman Reykvíking, skyldi ég með mestu ánægju brynja hann með öllum þeim rótarýgögnum, sem honum mættu að haldi koma; kannske þér viljið stinga upp á nokkrum mönnum? Helzt 3-4 úr flokki embættismanna og verzlunarinnar.

Þér sjáið, að ég nota mér hið vinsamlega tilboð yðar að verða mér áfram að liði, að því er varðar rótarý á Íslandi, og er með beztu kveðjum yðar einlægur

H. Chr.Helweg-Mikkelsen."

Þetta sýnir, að hreyfing hefur verið komin á þetta mál nokkru fyrr en Steingrímur Jónsson ætlaði í yfirliti sínu hér að framan.

Stofnfundur Rótarýklúbbs Reykjavíkur var haldinn fimmtudaginn 13.september 1934 kl. 8.15 e.h. í Oddfellowhúsinu eftir beiðni Knuds Zimsens fyrrv. borgarstjóra og Ludvigs Storr heildsala.

Fundinn sátu alls 24 menn, þar af þrír danskir rótarýfélagar, H. C. Helweg-Mikkel sen lyfsali, Kaupmannahöfn, er Rotary International hafði sent hingað til að stofna hér rótarýklúbb, August Christgau ræðismaður, Odense, og Georg E. Mathiassen aðalræðismaður. Kaupmannahöfn.

Knud Zimsen setti fundinn og bauð menn velkomna, en lagði síðan til, að Helgi Tómasson yrði kosinn fundarritari.

Helweg-Mikkelsen flutti erindi um rótarýhreyfinguna, lýsti uppruna hennar og takmarki. Að loknu erindi hans urðu nokkrar umræður, og fyrirspurnir voru gerðar, og veitti Helweg-Mikkelsen frekari upplýsingar um ýmis atriði, t.d. afstöðu hreyfingarinnar til stjórnmála, trúmála, blaða o.s.frv.

Þá var stofnskjal sent meðal fundarmanna, og undirrituðu eftirfarandi menn skjalið:

  1. Knud Zimsen fyrrv. borgarstjóri
  2. Hallgrímur Benediktsson stórkaupmaður
  3. Kjartan Thors framkvæmdastjóri
  4. Guðmundur Vilhjálmsson framkvæmdastjóri
  5. Ásgeir Ásgeirsson fræðslumálastjóri
  6. Eggert P.Briem bóksali
  7. Helgi Tómasson læknir
  8. P.L.Mogensen lyfsali
  9. Ragnar Blöndal verzlunarstjóri
  10. C. Jörgensen rjómabússtjóri
  11. Brynjólfur Stefánsson framkvæmdastjóri
  12. Tómas Tómasson framkvæmdastjóri
  13. Einar Erlendsson húsameistari
  14. Árni Friðriksson fiskifræðingur
  15. Þorsteinn Þorsteinsson skipstjóri
  16. Jón Halldórsson trésmíðameistari
  17. Carl Olsen stórkaupmaður
  18. Benedikt Gröndal verkfræðingur
  19. Ludvig Kaaber bankastjóri
  20. Ludvig Storr kaupmaður

Þá var og ákveðið, að þeir Guðmundur Ásbjörnsson, Guðmundur Hlíðdal. Guðmundur Finnbogason og Bjarni Ásgeirsson, sem boðið hafði verið til fundarins, en gátu ekki sótt hann, skyldu teljast sem stofnendur klúbbsins.

Fyrsta stjórn Rótarýklúbbs Reykjavfkur. Sitjandi f. v.: Benedikt Gröndal, Knud Zimsen, Ludvig Starr, standandi: Hallgrímur Benediktsson og Ragnar Blöndal.

Var þá kosin stjórn og voru þessir kosnir:

Forseti Knud Zimsen
Varaforseti Hallgrímur Benediktsson
Ritari Benedikt Gröndal
Gjaldkeri Ludvig Storr
Stallari Ragnar Blöndal

Var síðan rætt um fyrirkomulag fundarhalda og samþykkt, að fundir skyldu haldnir hvern miðvikudag kl. 12 1/2 e.h. Zimsen upplýsti. að húsnæði mundi fáanlegt í Oddfellowhúsinu.

Ákveðið var að efna til samsætis lS.sept-ember kl. 19 að Hótel Borg, og skyldi þangað boðið forsætisráðherra og öllum útsendum ræðismönnum. og jafnframt var samþykkt, að útsendum ræðismönnum skyldi boðin þátttaka í klúbbnum.

Að lokum þakkaði Helweg-Mikkelsen fyrir móttökurnar og lýsti gleði sinni yfir stofnun hins nýja klúbbs.

Hér fer nú á eftir orðrétt frásögn Benedikts Gröndals, ritara klúbbsins, af hátíðarfundinum IS. september, eins og hún hljóðar í fundarbók klúbbsins:

2. fundur.

Laugardaginn 15. september 1934 var haldinn hátíðarfundur í Rótarýklúbb Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Hótel Borg.

Til fundarins hafði verið boðið forsætisráðherra Íslands, sendiherra Dana, norska, sænska og þýzka ræðismanninum. Ennfremur voru hinir þrír dönsku rótarýfélagar, Helweg-Mikkelsen, Georg Mathiassen og Christgau gestir klúbbsins.

kl. 7.15 var setzt að borðum, og bauð forseti gesti og klúbbfélaga velkomna.

Undir borðum voru haldnar ræður sem hér segir:

Helweg-Mikkelsen mælti fyrir minni hins nýja Rótarýklúbbs Reykjavíkur. Skýrði hann frá, að Rotary International hefði falið honum það vandastarf að ferðast óravegu til þess að gróðursetja rótarýfrækorn í þessu norðlæga landi. Gat hann þess einnig, að Friðrik ríkiserfingi hefði átt mikinn þátt í því, að þetta skref var tekið. Kvaðst hann ánægður yfir för sinni og taldi jarðveginn fyrir hið unga rótarý-sáðkorn vera næstum betra en hann hefði búizt við að óreyndu.

Þá stóð upp forseti klúbbsins og talaði fyrir minni Rotary International, hinni miklu alheimshreyfingu. sem frá heimilum fjögurra manna í Chicago hefði teygt rætur sínar um alla jörð, þar sem nokkur vaxtarskilyrði væru fyrir hendi, og stæði nú sem voldugt risavaxið tré, sem skyggði yfir gjörvallt mannkyn með sínum laufríku greinum.

Því næst mælti Ásgeir Ásgeirsson fyrir minni erlendra ræðismanna, en sendiherra Dana þakkaði fyrir hönd ræðismannanna.

Þá mælti Helweg-Mikkelsen fyrir minni Íslands. Lofaði hann fegurð landsins og tign. Hafði honum auðnazt að sjá Þingvelli í sæmilegu veðri, og hreif sú sýn Helweg-Mikkelsen svo mjög, að hann kvað slíkt sér aldrei úr minni hverfa.

Talaði þá forsætisráðherra Íslands og flutti Rótarýklúbb Reykjavíkur árnaðaróskir. Kvað hann klúbb þennan hafa sett sér æði hátt og tor sótt takmark, en óskaði, að honum mætti auðnast að komast, þó ekki væri nema nokkur skref á þeirri braut, sem hann hefði markað sér.

Þá talaði Ludvig Kaaber fyrir minni hinna þriggja dönsku rótarýfélaga. Gat hann þess, að svo hefði viljað til, að hann á unga aldri hefði verið nemandi hjá einum þessara manna, Christgau, og að hann gæti upplýst, að starfsemi þess manns hefði þá þegar verið framkvæmd með rótarýhugarfari.

Um þetta leyti höfðu fundinum borizt mörg símskeyti víðs vegar utan úr heimi, og voru þau lesin upp. Ennfremur afhenti forseti klúbbnum tvo skrautlega fána, annan frá Magdeburg-Rotary, en hinn frá Hannover- Rotary.

Þá gat forseti þess, að fyrr um daginn hefði klúbbnum borizt hinn fagri blómvöndur, er borðið prýddi, frá HelwegMikkelsen.

Þvínæst mælti Helgi Tómasson fyrir minni 75. umdæmis Rótarý.

Árni Friðriksson talaði fagurlega um framtíðarvonir og framtíðarstarf Rótarý á Íslandi.

Að þessum ræðum loknum var orðið frjálst, og tóku þá ýmsir klúbbfélagar til máls.

Töluðu þá forseti klúbbsins, Hallgrímur Benediktsson, Carl Olsen, Georg Mathiassen og Helweg-Mikkelsen.

Þá var ákveðið að senda kveðju til Mr. Paul Harris í Chicago og ennfremur að senda stjórnanda 75. umdæmis rótarý símskeyti.

Ljósmynd var tekin af klúbbfélögum, meðan setið var undir borðum.

Síðan var staðið upp frá borðum og kaffi drukkið. Hélt þá Christgau þriggja mínútna rótarý og var þakkað fyrir með lófaklappi.

Storr mælti fyrir minni ríkiserfingjans. Meðan drukkið var kaffi, kom Kjartan Thors með nýjan gest á fundinn. Var það Dr. Pollitzer Pollenghi frá Trieste á Ítalíu, og reyndist hann vera stallari í Rótarýklúbbnum í Trieste. Var honum fagnað vel, og dvaldist hann á fundinum það sem eftir var kvöldsins.

Fleira gerðist ekki og hvarf svo hver að sínu.

 

Fróðlegt er að kanna, hver fundarefnin voru fyrsta starfsskeiðið. þ.e. frá stofnun klúbbsins í september 1934 til l.júlí 1935, en fundir á því voru alls 40, 17 á árinu 1934 og 23 1935.

Á fyrstu þremur reglulegu fundunum, 19. og 26. september og 3. október 1934 flutti Knud Zimsen, forseti klúbbsins, rækileg erindi um rótarýhreyfinguna, uppruna hennar og sögu, en jafnframt tilgang hennar og starfshætti. Er efni þeirra ekki rakið í fundargerðum, en þau eru varðveitt með hendi Zimsens í gögnum klúbbsins og sýna, hve föstum tökum hann tók þetta viðfangsefni sitt þegar í upphafi. Á öðrum fundinum, 26. september, flutti Árni Friðriksson jafnframt erindi um fiskirannsóknir.

Á fundi 10. október flutti Helgi Tómasson fyrst erindi um heilsufar manna og þjáningar, en síðan var nýi Landakotsspítalinn heimsóttur, þar sem, skoðuð var heilsufarssýning Læknafélags Íslands undir leiðsögu dr. Helga.

Á næstu tveimur fundum voru frjálsar umræður, einkum um félagsmál, án þess að sérstök erindi væru flutt, en á fundinum 31. október 1934 flutti Guðmundur Finnbogason erindi, er nefna mætti "Stéttvísþjóðvís" og birt er í heilu lagi í 8. vikubréfi klúbbsins 1934.

Á fundinum 7. nóvember las Kjartan Thors upp í íslenzkri þýðingu erindi, sem dr. Pollitzer Pollenghi hafði flutt um Ísland í heimaborg sinni Trieste, eftir að hann kom þangað úr för sinni um Ísland. Benedikt Gröndal lýsir því m.a. svo í vikubréfinu:

"Var það fjörugt og skemmtilegt, og er oft gaman að heyra, hvernig land og þjóð kemur útlendum mönnum fyrir sjónir. Erindi þetta nefndi dr.Pollenghi "Ísland, eyja elds, íss, saltfisks og fagurra mey ja", og af þessari fyrirsögn má fljótt sjá, að maðurinn hefur komið auga á aðalatriðin."

Á næstu fundum voru frjálsar umræður, en 5. desember flutti Ragnar Blöndal erindi um rótarý og markmið þess og hvatti til, að félagar flyttu fleiri erindi um hreyfinguna og hugsjónir hennar.

Þessi erindi voru enn flutt á umræddu skeiði:

12. desember 1934 Jón Halldórsson: Sjóferð. 28. desember 1934 Knud Zimsen:

Jólahugleiðing. 2. janúar 1935 Árni Friðriksson: Nýárshugleiðing. 9. janúar 1935 Ásgeir Ásgeirsson: Sambúð þjóða. 30. janúar 1935 Þorsteinn Þorsteinsson: Slysavarnafélag Íslands. 20. febrúar 1935 Knud Zimsen: Paul Harris og rótarý. 27. marz 1935 Brynjólfur Stefánsson: Vátryggingar. 24. apríl 1935 Knud Zimsen: Sumardagurinn fyrsti. 25. maí 1935 Benedikt Gröndal:

Erindi um Ísland haldið í Rótarýklúbbi í London (þýtt). 26. júní 1935 Guðmundur Hlíðdal: Gengi svissneska frankans (þýtt).

Tvö erindi frá fyrsta starfsárinu eru varðveitt í heilu lagi, erindi Guðmundar Finnbogasonar "Stéttvís-þjóðvis" 31. október 1934 í 8. vikubréfinu og erindi Knuds Zimsens "Sumardagurinn fyrsti" 24. apríl 1935 í fundabókinni frá þeim degi. Verða þau erindi nú birt hér og þá fyrst erindi Guðmundar:

Ég sá fyrir skömmu nýyrði, sem vakti umhugsun mína. Það var orðið "stéttvís" . Það var í skemmtilegri grein um Stefán frá Hvítadal eftir Halldór Kiljan Laxness. Setningin var svona: "Hann varð aldrei stéttvís einyrki. sem samkvæmt rökum veruleikans sjálfs hlýtur að eiga samleið með hinum herskáa. stéttvísa verkamanni." Hér kemur fram merkingin, sem verið er að koma inn í hið nýja orð. Hinn stéttvísi á að vera "herskár" gagnvart öðrum stéttum. En það þarf ekki að liggja í orðinu stéttvís út af fyrir sig. Stéttvís ætti sá að teljast, sem veit hvað til stéttar hans heyrir, skilur mark hennar og mið og reynir að ná því. Stéttir eru engin ný fyrirbrigði í mannlegu félagi. Þær hafa verið á öllum öldum, þó að þær hafi verið með ýmislegum hætti. Og hin mikla verkaskipting nú á tímum hefir það óhjákvæmlega í för með sér, að þeir, sem stunda sömu atvinnu, fá sameiginleg áhugamál, vinna saman að þeim og mynda þannig eins konar stétt, sem mótast af starfinu og þeim kjörum, sem því fylgja. Auðsætt ætti að vera, að hver einstaklingur fær því meiri þroska sem hver stétt í þessum skilningi skilur betur hlutverk sitt í þjóðfélaginu og hagar sér þar eftir. En hér kemur vandinn, sem stafar af því, að engin stétt er sjálfri sér nóg. Hver stétt er sem líffæri í lifandi líkama þjóðar sinnar. En af þessari líkingu leiðir það, að heilbrigði þjóðlífsins er komin undir þeirri sams tillingu allra stétta þjóðarinnar, að hver stétt njóti sín að sama skapi sem hún styður að því, að þjóðfélagið í heild sinni njóti sín. Ekkert einstakt líffæri má vaxa um of eða draga til sín úr hófi fram á kostnað annarra líffæra líkamans; það verður hans bani og þar með líffærisins sjálfs. Engin einstök stétt má draga til sín úr hófi fram á kostnað annarra stétta, það verður að lokum hennar bani. Verkefnið verður því alltaf það, að samræma stéttarhagsmuni og þjóðarhagsmuni. Til þess að vera í sannleika "stéttvís" verður maður jafnframt að vera "þjóðvís" . Þetta eru engin ný sannindi. Það er svo gamalkunnugt, að það kemur skýrt fram í hinni fornu dæmisögu um uppreisn limanna gegn maganum, sem Livius segir, að Menenius Agrippa hafi sagt alþýðunni í Rómaborg árið 494 f.Kr., þegar hún í deilunum við höfðingjana hafði flutt sig til Fjallsins helga og ætlaði að segja sig úr lögum við þá. En alþýðan þá var svo þroskuð, að hún lét sannfærast af þessari einföldu dæmisögu og sættir komust á. Ef vér lítum á það, sem gerist hér á landi og víðsvegar um heim á vorum dögum, þá sjáum vér, að þeir, sem hæst tala og gala, prédika einmitt stéttabaráttu. baráttu sinnar stéttar við aðra um hagsmuni og völd, völd og hagsmuni, í stað baráttunnar fyrir því að samrýma og samræma stéttarhagsmuni og þjóðarhagsmuni - samstilla hagsmuni stéttanna til gagns fyrir þjóðina í heild sinni. Þetta kemur ekki svo mjög af því, að hagsmunir ýmsra stétta geti ekki farið saman, sem af hinu, að stéttarhagsmunir verða leiksvið fyrir valdafýsn stjórnmálamanna. Stjórn-málamenn berjast um atkvæði kjósenda, og þá er auðsætt, að þeir hugsa mest um að ná fylgi fjölmennustu stéttarinnar, en láta sig litlu skipta hinar fámennu stéttir. Ég skal ekki hér skýra þetta nánar, en aðeins líta á afleiðingarnar. Ef ég má nota ófullkomna samlíkingu, þá vil ég líkja þjóðinni við hljóðfæri. Stéttirnar eru nót-urnar á hljóðfærinu. Hver nóta hefir sinn tón, og til þess að hljóðfærið sé í góðu lagi, verður hver nóta að vera rétt stillt í hlutfalli við aðra. Þjóðlífið er þau lög, sem leikin eru á hljóðfærið hverja líðandi stund. Það má leika góð lög og vond lög, andrík lög og andstyggilega auvirðileg lög. Við sjáum, hvernig lag það verður, sem hamrað er á einar tvær eða þrjár nótur, sem ef til vill hljóma falskt í þokkabót. Það verður ekkert lag, heldur ólag, engin lög, heldur ólög. Nei, stjórnmálamennirnir ættu að vera hinir miklu laga smiðir, er semdu frumleg lög, þar sem allir tónar hins mikla hljóðfæris fengju að óma á víxl í síbreytilegu, en fögru samræmi. Þeir, sem halda fram stéttabar-áttunni, virðast telja einrímið og óhljóminn æðsta mark tónlistarinnar.

Ég hefi því miður ekki enn haft tíma til að kynna mér nógu vel grundvallarhugsjón þessa nýja félagsskapar, sem ég hefi lent í og veit varla enn, hvort ég á heima í. En mér skilst, að hugsjónin sé sú, að fá í þennan félagsskap á hverjum stað einn góðan fulltrúa hverrar stéttar þjóðfélagsins. Þessir fulltrúar koma saman til þess að kynnast hver annars áhugamálum, vekja áhuga hver annars á því sem þeir bera fyrir brjósti, en þessum fulltrúum er svo ætlað að flytja þessi áhugamál hver í sinni stétt, eftir að þau hafa skýrzt við þá meðferð, er þau fá innan félagsins. Mér virðist hugsjónin góð, og ég vil óska þess, að þessi félagsskapur geti stuðlað að því að samstilla stéttarhagsmuni og þjóðarhagsmuni, stuðlað að því, að hver maður verði engu síður "þjóðvís" en "stéttvís" .

Um erindi þetta fór ritari í fundargerð eftirfarandi orðum:

"Þótti Guðmundi mælast snjallt, og væri æskilegt, að klúbbnum mætti auðnast að heyra fleiri slíkar ræður."

Erindi Knuds Zimsens sumardaginn fyrsta 1935 var svohljóðandi:

Kæru félagar.

Það er oss Íslendingum eðlilegt að staldra við á þeim tímamótum, sem nú eru. Um sumarmálin lítum við um öxl og virðum fyrir okkur hinn liðna vetur. Venjulega fylgja vetrinum margs konar erfiðleikar, og oft hafa Íslendingar horft fram til komandi vetrar með kvíða. Skammdegið með öllu því myrkri, sem því fylgir, er oft lítið tilhlökkunarefni, en þegar við um sumarmálin lítum yfir það, sem liðið er, þá sjáum við, hve margs konar blessun hefur fylgt hverjum degi, og vér minnumst margra gleðistunda, sem vetrartíminn flutti oss. Sá vetur, sem kveður okkur í dag, skilur eftir hjá hverjum og einum mismunandi endurminningar, en sameiginleg fyrir okkur alla hér er endurminningin um hinn fyrsta rótarývetur okkar.

Rótarýsáðkorninu okkar var sáð hér í fyrra rétt fyrir veturnætur, á þeim tíma, sem vetrarsæði er sáð. Vetrarsæðið skýtur frjóöngum snemma vetrar og stendur fullgrænt um nýársleytið, en vex ekki mikið ofanjarðar fyrr en vorið kemur og sumarsólin sendir lífgandi ylgeisla sína yfir jörðina. Þótt frost bindi jurtagróður í dró ma og snjór hylji völl, þá stendur vetrarsæðið grænt, er snjóa leysir. Rótarýklúbbur okkar náði að verða sem fagur-grænn akur um nýársleytið, og þótt síðan hafi gengið tregt með vöxtinn og græni gróðrarliturinn hafi stundum virzt hverfa, þá er það eðli vetrarsæðisins.

Kæru félagar. Er það ekki svo, að við allir teljum, að samfundir okkar hér í Rót-arýklúbbnum hafi fært okkur gleði og styrk? Ávexti hefur starf okkar ekki borið, sýnilega út á við, en við höfum haft persónulega gagn og gleði af samvistum og viðkynningunni. Rótarý hefur knýtt sterkt band milli okkar, og mér er óhætt að fullyrða, að enginn okkar sjái eftir því, að við vorum á þessum hverfandi vetri gróðursettir í rótarýakurinn. Hin sameiginlega endurminning um liðinn vetur er góð og rík af gleði og þakklæti.

Um sumarmálin lítum við ekki aðeins um öxl, heldur eigi síður fram á veginn. Hvað bíður okkar? Hvað mun sumarið flytja okkur? Enginn þekkir ófarna leið, en leiðin liggur í birtu. Sól er komin hátt á loft, og enn hækkar sólargangur. Ljósið og hitinn eru skilyrði fyrir þroska lífsins, og sumartíminn er gróðrartími. Í byrjun sumars ins fæðast vonirnar um allt hið fagra og góða, sem framundan er. Vonirnar gjöra framtíðina bjarta og fagra. Þær eru eins og hinn fagri upprennandi bjarmi upprennandi sólar, er snemma morguns um sumarmál litar loft, láð og lög. Hver einstakur hefur sínar vonir um, hvað sumarið muni flytja, en við hér höfum þá sameiginlegu von, að sumarið, sem nú fer í hönd, megi verða blessunarríkt fyrir okkar kæra Rótarýklúbb. Við vonum, að sumarsólin megi þroska vetrarsæði okkar, svo að hvert strá þroskist út af fyrir sig og akurinn allur megi verða fagur og frjósamur og bera ríkulegan ávöxt. Við erum einmitt á þeim tímamótum félagsskaparins, að vera í þann veginn að verða viðurkenndur liður í alheimskeðju rótarýfélagsskaparins. Það er sameiginleg ósk okkar, að fyrirheit um gott og blessunarríkt gengi Rótarýklúbbs Reykjavíkur felist í því, að þetta verður einmitt um sumarmál.

Auk þessarar vonar og óskar eigum við aðra sameiginlega ósk og von, og hún er sú, að komandi sumar megi flytja hverjum einstökum uppfyllingu vona hans og að gleði og kærleikur megi fylla líf hvers eins og allra þeirra, sem okkur eru kærir.

Kæru rótarýfélagar!

Ég þakka ykkur fyrir liðinn vetur, fyrir viðkynningu alla og kærleika, og ég óska þess, að guð gefi yður og ástvinum yðar gleðilegt sumar.

Gleðilegt sumar.

Knud Zimsen lýsir ágætlega í ræðu sinni, eins og við sjáum, rótarýstarfinu þennan fyrsta vetur. Hann finnur, að klúbburinn fór vel af stað, starfaði af miklum þrótti fram að áramótum, en síðan slaknaði nokkuð á. Hann spyr því, hvort allir geti ekki verið sammála um það, að samfundirnir hafi fært þeim gleði og styrk. Starfið hafi að vísu ekki borið sýnilega ávexti út á við, en samvistirnar. viðkynningin og hin sterku vináttubönd séu mikils virði, svo að hin sameiginlega endurminning um liðinn vetur sé góð og rík af gleði og þakklæti. Forsetinn horfir því vonglaður fram til sumarsins og vaxandi og víðtækara starfs.

Áður en skilizt verður við fyrsta starfsárið, sem hér hefur verið reynt að skýra allrækilega frá, enda grundvöllur þar lagður að íslenzku rótarýstarfi , skal hér birt frásögn Benedikts Gröndals, hins fyrsta ritara og eina nú lifandi stofnanda klúbbsins, af fundinum 12. júní 1935, en segja má, að Benedikt hafi staðið sig með stakri prýði og hann hafi í fundargerðum sínum, eins og í ljós hefur komið, tekið marga góða spretti, enda á hann ekki langt að sækja það.

Frásögn Benedikts hljóðar svo:

Gestur á fundinum var Dr. Pollitzer Pollenghi frá Trieste.

Að borðhaldi loknu setti forseti fundinn og bauð velkominn hinn ítalska gest. Eins og menn muna, var dr. Pollitzer Pollenghi gestur á fyrsta hátíðarfundi félagsins, og þótti mönnum ánægjulegt að hitta hann nú aftur hér í Reykjavík. Dr. Pollenghi var nýkominn úr vísindaleiðangri ofan af sjálfum Vatnajökli, og er það ferðalag engum heiglum hent, enda var hann brúnn og veðurbarinn og alskeggjaður orðinn eins og sönnum pólfara sæmir. Dr. Pollenghi lýsti fjörlega ferð sinni um jökulinn; hafði hann hreppt hið bezta veður þar uppi. Var sólarhiti svo mikill uppi á jöklinum á daginn, að Dr. Pollenghi kvaðst ekki hafa orðið fyrir honum meiri suður í Afríku. En á kvöldin urðu snögg umskipti, og skall þá á frost svo mikið, að allt fraus og stirðnaði. sem sólin hafði brætt á daginn. Ferðuðust Dr. Pollenghi og félagar hans um jökulinn á nóttunni, því að þá gátu þeir dregið sleðana með farangrinum, en á daginn höfðust þeir við í tjaldi og sváfu, því að þá var illfært vegna sólbráðar .

Sjaldan kvaðst hann hafa fegurra séð en útsýni af Vatnajökli. Var víðsýni svo mikið, að hann sá nær tvo þriðju hluta alls Íslands liggja fyrir neðan sig eins og tröllaukið landabréf.

Síðan flutti Dr. Pollenghi klúbbnum kveðjur frá Rótarýklúbbnum í Trieste og færði honum að gjöf frá sama klúbb smáklukku, sem var eftirlíking af kirkjuklukku í elztu kirkjunni í Trieste, og óskaði þess, að í hvert skipti, sem henni yrði hringt, minnti hljómur hennar okkur á vinarhug Ítalíu til Íslands.

Forseti þakkaði Dr. Pollenghi fyrir hið skemmtilega erindi og fyrir hina fallegu gjöf frá Trieste-klúbbnum og bað Dr. Pollenghi að flytja hinar beztu kveðjur og þakkir til klúbbs síns.

Þegar kemur fram á sumarið, sést, að hafinn er undirbúningur svonefndrar Charter-hátíð.ir, er halda skyldi um haustið. Yrði klúbbnum þá afhent skjal þess efnis, að hann væri fullgildur meðlimur hinnar alþjóðlegu hreyfingar. Í fundargerð 24. júlí 1935 segir svo m.a.:

Þá stóð upp Rotary Olsen og skýrði frá störfum þeirrar nefndar, sem falið hafði verið að undirbúa Charterhátíðina, og kom hann þar fram með tillögur, sem sýndu, að þessi nefnd var gædd hinu óvenjulegasta hugarflugi og ímyndunarafli. - Hafði nefndin samþykkt það snjallræði að bjóða til þessarar hátíðar ekki færri en öllum rótarýklúbbum heimsins [sem voru þá 3823] og gefa þeim bendingar um skipaferðir, o.fl. En ef þeir ekki gætu komið, þá gætu þeir símað til klúbbsins og talað við okkur í gegnum hina nýju talstöð.

Kom síðar í ljós, að ráðunautar nefndarinnar í þessu máli voru þeir Guðmundur Hlíðdal póst- og símamálastjóri og Guðmundur Vilhjálmsson forstjóri Eimskipafélagsins.

Þar sem fullgildingarathöfnin er merkur atburður í sögu klúbbsins og honum er hið bezta lýst í fundargerð Benedikts Gröndals 7. september 1935, verður frásögn hans birt hér í heilu lagi:

 

Fundurinn þ. 7.9. 1935 Charter-hátíð.

Fjarverandi voru: Ásgeir Ásgeirsson í útlöndum, Árni Friðriksson, Bjarni Ásgeirsson.

Gestir voru: Guvernör Drewsen, Slagelse, Danmark, Past Guvernör HelwegMikkelsen, Köbenhavn, Fabrikant Höjring (Past-president), Köbenhavn.

Hátíðin var haldin laugard. 7. sept. 1935 í Oddfellow byggingunni og byrjaði kl. 5112 e.h. Voru þá allir félagar og gestir mættir í hátíðarklæðnaði. Var fyrst gengið upp í Oddfellowsalinn á efstu hæð, sem ætlaður var til hátíðarathafnarinnar, og hafði salurinn verið mjög smekklega búinn til þeirra verka. Fyrir enda salsins var settur ræðustóli skreyttur íslenzkum fána, en fyrir framan hann var lágur pallur, þakinn bláu silki og skreyttur blómum og fánum. Bak við pallinn voru stólar fyrir forseta og hina erlendu gesti, og sneru þeir andspænis salnum. Þegar menn höfðu gengið til sætis, var leikið lag af hljómsveit sem var í hliðarherbergi við salinn, en síðan sté forseti í ræðustólinn og ávarpaði félagana. Lýsti hann í fáum orðum stofnun klúbbsins og þróun hans fram til þessarar stundar og þakkaði þeim mönnum, sem lagt höfðu fram krafta sína, til þess að stofnun hans mætti takast. Að því loknu gaf hann guvernör Drewsen orðið, og talaði hann um rótarýhreyfinguna og hina víðtæku þýðingu, sem hún hefði nú fyrir allan umheiminn, og hina miklu útbreiðslu, sem hún hefði náð hvarvetna um löndin. Flutti hann Rótarýklúbb Reykjavíkur kveðju frá Rotary International og frá Mr. Ed. R. Johnson president fyrir Rotary International, en því næst las hann upp fullgildingarskjalið frá Rotary International, dags. 31. maí 1935, og afhenti það síðan forseta, en forseti þakkaði með nokkrum orðum. Stóðu allir félagar upp, og hljómsveitin lék "Ó, Guð vors lands". Þá stóð upp Helweg-Mikkelsen og færði klúbbnum fyrstur manna heillaóskir vegna upptöku hans í Rotary International, og mun hann ekki hafa hjá því komizt að finna þann vinarhug og þakklæti, sem streymdi á móti honum frá klúbbfélög-unum, því óhætt er að telja hann sem föður og skapara Rótarýklúbbs Reykjavíkur. Þvínæst afhenti Mikkelsen forseta fána frá Rótarýklúbb Kaupmannahafnar.

Þá afhenti guvernör Drewsen forseta skinnbundna gestabók handa klúbbnum, sem gjöf frá Rótarýklúbb Kaupmannahafnar. Þá stóð upp Helweg-Mikkelsen og afhenti forseta fagurlega smíðað rótarýhjól, sem var gjöf frá Rótarýklúbbnum í Roskilde, sem einnig áður hefur sýnt Rótarýklúbb Reykjavíkur frábæra hugulsemi. Þvínæst afhenti guvernör Drewsen klúbbnum fána frá Rótarýklúbbnum í Slagelse. Þar næst stóð upp stallari, og afhenti hann forseta fána frá eftirfarandi klúbbum (nöfn klúbbanna vantar í fundargerðina).

Ennfremur afhenti hann skrautlega bók um Sviss frá Rótarýklúbbnum í Að því loknu mælti forseti nokkur orð, en þvínæst lék hljómsveitin lög, og var þá athöfninni lokið.

Að lokinni fullgildingarathöfninni fóru félagarnir og sóttu konur sínar, sem biðu heima með óþreyju eftir að taka þátt í gleði eiginmanna sinna. Komu menn aftur saman í samkvæmissölum Oddfellowhússins á neðstu hæð. Þegar allir voru mættir, var fram borinn "coektaii", og bauð stallari gesti og félaga velkomna, en því næst var gengið til kvöldverðar í borðsal byggingarinnar. Var salurinn fagurlega skreyttur, og lagði blómailm á móti mönnum, er þeir gengu inn. Matborðið var lokaður hringur, en í miðjum hringnum var stórt rótarýhjól alþakið lifandi blómum, en upp úr miðju blómahafinu gnæfði fánastöng með stórum blaktandi ísl. fána.

Allt var borðið fagurlega skreytt lifandi blómum og speglum og öllu svo smekklega fyrir komið, að komplimentin streymdu í stríðum straumum til stallara. En þegar setzt var að borðum, tók ekki verra við, því að þá lágu dýrindisgjafir við hvern disk; fengu karlmenn rótarýöskubakka úr skæru silfri og sömuleiðis konurnar, en auk þess fengu hinar síðarnefndu dýrindis spegla, til þess að þær þyrftu ekki að efast um vald sitt yfir borðherranum.

Þegar menn höfðu gengið til sætis, bauð stallari gesti og félaga velkomna, en síðan var tekið til matar. Fyrst var borin fram skjaldbaka, sem veidd hafði verið í Suðurhafseyjum og einhvernveginn hafði smeygt sér fram hjá landvættunum og komizt ósködduð til Reykjavíkur. Drukkið var Sjampaní frá vínekrum Norður-Frakklands. Þá voru frambornir humrar úr Norðursjónum, rauðir sem blóð, og drukkið meira Sjampaní.

Þá stóð upp forseti og mælti fyrir minni Rotary International og 75. umdæmisins, og mælti hann á danska tungu, svo að hinir erlendu gestir mættu skilja, hvað sagt væri.

Því næst talaði guvernör Drewsen, og þakkaði hann fyrir hönd Rotary International og flutti klúbbnum heilla óskir.

Hélt nú borðhaldið áfram, og var þá borðað blómkál frá Reykjum og framborið að pólskum sið, en síðan átu menn steikta hænuunga, og enn var drukkið Sjampaní.

Stóð nú upp Rotary Kaaber og mælti fyrir minni Íslands á þessa leið (frá minninu er ekki nánara greint í fundargerðinni).

Síðan talaði Rotary Guðmundur Finn-bogason fyrir minni Danmerkur, en Rotary Guðmundur Hlíðdal talaði fyrir minni hinna erlendu gesta.

Var nú aðeins eftir að mæla fyrir minni kvenna, en þá reis upp Rotary Jón Halldórsson og gat ekki lengur orða bundizt og lýsti með klökkum hug þeim kostum og sælu, sem hann hefði orðið án að vera í lífinu, þar sem það hefðu orðið hans örlög að ferðast einn saman á lífsleiðinni og aldrei að hafa fundið þann mikla stuðning, sem góð kona er hverjum manni.

 

Stjórn sú, sem kosin var á stofnfundinum 13. september 1934, sat áfram annað tímabil. Þótti heppilegast, að hún fengi fylgt eftir því starfi, sem hafið var, og jafnframt skilað klúbbnum sem fullgildum aðila í samfélag alþjóðahreyfingarinnar. Stjórnarkosning fór ekki fram fyrr en 8. apríl 1936, og voru þá þessir kosnir:

Guðmundur Hlíðdal forseti,
Kjartan Thors varaforseti,
Guðmundur Vilhjálmsson ritari,
Einar Erlendsson gjaldkeri
Carl Olsen stallari

Nýja stjórnin tók við 1. júlí 1936, og hélzt upp frá því sú regla að kjósa árlega nýja stjórn.

Nú verður um sinn einungis drepið á örfá atriði og þá helzt þau, er til nýmæla geta talizt í starfsemi klúbbsins.

Í fundargerð 15. júlí 1936 segir svo m.a.:

"Storr gerði grein fyrir komu dönsku skólapiltanna hingað á vegum rótarý, ferð þeirra um landið, land- og sjóveg, svo og kveðjugildi, þar sem Kaaber hélt þeim ræðu, en Pálmi rektor Menntaskólans þakkaði. Meðal annars hélt Zimsen ræðu yfir þeim á Þingvöllum. Þeir látnir heilsa fánanum á Álafossi, þar sem Sigurjón bauð þá velkomna.

Reykjavíkurbær bauð þeim til Geysis og Gullfoss.

Aðeins gleymdi Storr að geta um fjár-hagsafkomu vegna komu dönsku drengjanna."

Af seinustu setningunni má eflaust ráða, að Ludvig Storr hafi lagt drjúgt til þessa merka fyrirtækis.

Á fundi 2. september 1936 hreyfði Helgi Tómasson því, "að æskilegt væri, ef félagsmenn vildu athuga, hvort þeir ekki gætu útvegað drykkjumönnum verustað á góðum reglusömum heimilum úti á landi. - Taldi hann sennilegt, að í Reykjavík myndu fyrirfinnast um 20 slíkir vandræðamenn."

Í líkum anda er eftirfarandi frásögn í fundargerð 16. september 1936:

"Knud Zimsen minntist tveggja ára afmælis klúbbsins og talaði um nauðsynina á, að klúbburinn tæki sér eitthvert verkefni til meðferðar og framkvæmdar. - Taldi hann mjög heppilegt, ef klúbburinn vildi beita sér fyrir velferð atvinnulausra unglinga."

Ekki verður nú séð, hvort klúbbnum varð eitthvað ágengt í þessum efnum.

Í fundargerð 30. desember 1936 segir svo: "Fundur þessi var að því leyti óvenjulegur, að stjórnin hafði ákveðið, að rótarýfélagar, sem ættu syni yfir 11 ára aldri, mættu bjóða þeim á fundinn. - 15 drengir mættu.-

Forseti bauð gesti velkomna og lýsti ánægju sinni yfir að sjá svo mörg efnileg mannsefni mætt í fyrsta sinn á rótarýfundi. - Hörður Bjarnason þakkaði fyrir hönd gestanna.

Dr. Guðmundur (Finnbogason) flutti þriggja mínútna Rotary. Talaði hann m.a. um fyrstu jólin, sem hann myndi eftir í foreldrahúsum. Kvað hann einustu jólagjafirnar, sem börnin hefðu fengið, hafa verið, að hvert barn fékk eitt kerti. Sagðist ræðumaður minnast þessara jóla með óblandinni ánægju, og myndi hann enn vel eftir, hversu bjart hefði verið í baðstefunni, þegar búið var að kveikja á öllum kertunum.

Því næst ávarpaði ræðumaður gestina með nokkrum vel völdum orðum, og var gerður góður rómur að máli hans.

Nokkrir aðrir rótarýfélagar tóku til máls."

Þetta erindi eða ávarp Guðmundar var birt í Morgunblaðinu daginn eftir 31. desember 1936 undir heitinu: "Rótarýklúbburinn. Hvert er markmið hans?"

Alþjóðahreyfingin efndi um þessar mundir til ritgerðarsamkeppni innan vébanda sinna um þetta efni, og varð Guðmundur meðal keppenda. Urðu úrslit þau, að hann hlaut ásamt tveimur Bandaríkjamönnum fyrstu verðlaun.

Frá þessum úrslitum er skýrt í fundargerð klúbbsins 29. september 1937. Þykir hlýða að birta hér grein Guðmundar í heilu lagi.

I know where Rotary's going, its going to lunch.

Bernard Shaw

Þekking Bernard Shaw's er góð og gild það sem hún nær. Það er þekking áhorfandans, er sér rótarýmenn ganga til sameiginlegs hádegisverðar einu sinni á viku. Það gera þeir. Og þeir verða betri félagar af því að eta saman. Það hafa menn orðið á öllum öldum í öllum félögum. En samát er ekkert séreinkenni rótarýs, heldur hitt, hverjir þar eta saman. Í hverjum rótarýklúbb má aðeins vera einn valinn maður fyrir hverja starfsgrein á staðnum. Klúbburinn er því úrval hins starfanda mannfélags, er hann lifir í. Og hann á að vera síbatnandi úrval, því að markmiðið er að gera félagana æ betri þjóna starfa sinna, klúbbs og þjóðfélags. Til hvers starfs þarf nokkurt sérhæfi. En sérhæfinu hættir til að þrengja sjónarsviðið. Rótarýklúbbur veitir útsýni. Hann bindur fulltrúa hinna sundurleitu starfa saman í bræðralag. þar sem hver kynnist starfi og áhugamálum annars og fær þar með betri skilning á sambandi starfsgreinanna og samstillingu.

Ég gleymi aldrei fyrstu jólunum, sem ég man eftir heima í foreldrahúsum. Einu jólagjafirnar, sem við börnin fengum, voru sitt kertið hvert. En þegar við öll kveiktum á kertunum okkar, varð litla stofan ljómandi björt og augun tindruðu af gleði.

Líkt er í Rotary. Í samtali við félagana, í þriggja mínútna ræðum, í fyrirlestrum og umræðum kemur hver með kerti sérþekkingar sinnar og reynslu. Þegar kveikt er á öllum kertunum, birtir yfir starfssviði þjóðarinnar. Leiðirnar skýrast. Árekstrum fækkar.

Rótarý velur sér sjálft félaga og þarf því ekki að taka við öðrum en þeim, er hefja félagið fremur en lækka. Allt skipulagið miðar að því, að enginn dragi sig í hlé og að hver leggi sinn skerf til sameiginlegs þroska. En af fundunum geta áhrifin borizt með félagsmönnum út til allra stétta þjóðfélagsins.

Rótarýklúbbarnir eru arinstöðvar góðrar kynningar forustumanna af öllum stéttum og þjóðum, hverrar trúar og stjórmálastefnu sem er. Á þremur áratugum hafa þeir náð um allan heim. Þeir eru nú um 4160 með 170.000 manns í nálega öllum menningarlöndum. Rótarýmaður, sem kemur til annarra landa, er velkominn gestur í hvaða rótarýklúbb, sem hann hittir. Hann er þar í hóp góðra félaga, gildra fulltrúa þjóðarinnar, sem hann heimsækir. Þar á hann vísa einhverja fræðslu um hana og opin eyru, ef hann vill eitthvað segja frá sinni þjóð.

Slíkt bræðralag góðra manna af öllum þjóðum mun, er tímar líða, áorka miklu góðu, stuðla að vinsamlegum viðskiptum þjóða og allsherjarfriði.

Sieh' doch einmal die Kerzen,
die leuchten indem sie vergehn.
                           (Goethe)

Sú venja, að bjóða sonum klúbbfélaga á fund, hélzt árlega frá því er hún hófst í árslok 1936. Nokkru síðar tóku félagar að bjóða konum sínum til málsverðar milli jóla og nýárs, og fluttist þá sonadagurinn yfir í janúarmánuð, en festist svo síðar síðan að venju að bjóða dætrum félaga til fundar í dymbilviku ár hvert.

Rótarýfélagar tóku snemma að bjóða eiginkonum sínum til kvöldverðar við ýmis tækifæri, svo sem í veizluna, þegar fullgildingarskjalið var afhent 7. september 1935.

Í fundargerð 27. nóvember 1940 segir frá árshátíð, er haldin var að kvöldi þess dags og varð nokkuð söguleg.

"Bjarni Ásgeirsson flutti ræðu fyrir minni kvenna. Þótti nokkuð mislagðar hendur - munnur; svo að konur voru almennt styggar við Bjarna á eftir, og félagarnir svo, að Zimsen og Guðmundur Finnbogason fundu sig knúða til að gera bragarbót að ræðu Bjarna og setja um leið ofan í við hann, annars vel flutt að vanda.

Síðan frjáls ræðuhöld og dansað til kl. 3.

Þá fór hver heim til sín eða svona hér um bil."

Mánuði síðar, 27. desember 1940, buðu félagar konum sínum til reglulegs hádegis-fundar, og ávarpaði Ásgeir Ásgeirsson þær þá sérstaklega.

Fyrr á þessu sama ári í fundargerð 24. apríl 1940 segir m.a.: "Eins og venjulega verður konum félaga send rauð rós á sumardaginn fyrsta með ósk um gott og sólríkt sumar."

En fleiri en eiginkonur félaganna hafa fengið blóm á þeim hátíðisdegi, því að í fundargerð viku síðar 1. maí 1940 segir svo:

"Þá reis upp Jón Halldórsson og þakkaði blóm og heillaóskir. er piparsveinum klúbbsins hefðu verið sendar á sumardaginn fyrsta, og þakkaði Zimsen sérstaklega fyrir að hafa átt frumkvæðið að þessu upphaflega."

Frá skemmtiferðum félagsmanna og eiginkvenna þeirra verður síðar sagt í sérstökum þætti.

Í fundargerð 21. apríl 1937 segir svo m.a.:

"Carl Olsen hreyfði því, hvort klúbburinn eða meðlimir hans mundu ekki sjá sér fært að safna nauðsynlegu fé til þess að einn eða tveir fátækir drengir gætu komizt á alþjóðaskátamót, sem haldið verður í Hollandi á þessu sumri. Í sambandi við þetta mál var því hreyft af Jóni Halldórssyni og Bjarna Ásgeirssyni, að æskilegt væri, að klúbburinn beitti sér fyrir því, að fátæk börn úr Reykjavík fengju kost á að komast á sumrin til dvalar á góðum sveitaheimilum. - Umræður urðu nokkrar um málin, og var ákveðið, að frekari umræður færu fram á næsta fundi."

Framhaldsumræður um þessi mál urðu 28. apríl, en á fundinum 5. maí skýrði Kjartan Thors frá því, "að stjórn klúbbsins gerði sér vonir um, að nægilegt fé safnaðist til þess, að unnt yrði að senda tvo fátæka skáta á alþjóðamótið í Hollandi í næstkomandi júlímánuði."

Annar þessara ungu skáta var núverandi félagi okkar, Bjarni Björnsson, er þarna kynntist í fyrsta sinn rótarýhreyfingunni.

Hinn skátinn var Gylfi Gunnarsson. Var þeim boðið að sitja sonafund klúbbsins 29. desember 1937, og flutti Bjarni Björnsson þar fróðlegt erindi um förina, er var vel tekið af fundarmönnum.

Ný stjórn tók við í júlíbyrjun 1937, og skipuðu hana þessir menn:

Helgi Tómasson formaður,
Steingrímur Jónsson varaforseti,
Hallgrímur Fr. Hallgrímsson ritari,
Tómas Tómasson gjaldkeri
Carl Olsen stallari

Hinn nýi forseti hafði tekið mjög virkan þátt í starfsemi klúbbsins, haft mikið samband við klúbba erlendis, þegar hann var á ferðalagi ytra, og síðan oft við heimkomuna sagt félögum sínum ferðasöguna. Eitt fyrsta verk hans var að taka á móti E. Ipsen umdæmis st jóra, er væntanlegur var frá Danmörku. Sat hann fund klúbbsins 26. júlí, en síðan var för hans heitið til Ísafjarðar, Siglufjarðar og Akureyrar, þar sem leitað skyldi hófanna um stofnun nýrra klúbba.

Carl Olsen stallari fór þessa för með um-dæmisstjóra, ennfremur sat Árni Friðriksson fundina á Ísafirði og Siglufirði og Guðmundur Hlíðdal á Siglufirði og Akureyri.

Í fundarþerð 15. september 1937 kom fram, að Arni Friðriksson hefði þá um skeið verið af Íslands hálfu í ritstjórn tímaritsins Rotary Norden, er rótarýklúbbar Norðurlanda gáfu út. Vildi hann helzt losna úr ritstjórninni, en féllst á að sitja við þriðja mann í nefnd til að athuga þetta mál og gera um það tillögu til stjórnarinnar.

Á fundinum 22. september 1937 skýrði forseti frá þeirri tillögu stjórnarinnar, að varið skyldi ,,100 krónum úr félagssjóði á ári til þess að þýða ýmis rit og skýringar um rótarýfélagsskapinn, sumpart handa félagsmönnum, sumpart handa almenningi og sumpart handa klúbbum, sem verið er að setja á stofn." Var þessi tillaga samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Næsti fundur, 29. september 1937, var haldinn á venjulegum tíma á heimili Helga Tómassonar og frú Kristínar Bjarnadóttur konu hans og í boði þeirra hjóna.

Að loknum hádegisverði flutti Helgi erindi um þjóðfélagshlið geðveikinnar og lýsti ýmsum aðferðum, er hann notaði við lækningu og meðferð á geðveikisjúklingum, en bauð mönnum síðan að skoða spítalann og kynnast allri aðstöðu þar.

Á næstu tveimur fundum voru félagar enn á ferðinni, skoðuðu eftir hádegisverðinn 6. október vélaverkstæðin í Hamri og Stálsmiðjunni í boði Benedikts Gröndals.

Hinn 17. október var hins vegar ekið austur að Ljósafossi, þar sem snæddur var hádegisverður, en síðan lýsti Steingrímur Jónsson virkjuninni og sýndi mönnum þau miklu mannvirki, sem þarna höfðu verið reist.

Í upphafi fundar 20. október 1937 tilkynnti forseti stofnun Rótarýklúbbs Ísafjarðar. "Hefðu Ísfirðingarnir valið sama fundartíma til stofnunarinnar og við, kl. 12 1/2, og kl. 13 1/4 myndu þeir hringja frá Ísafirði, og gætu félagarnir hér fengið tækifæri til þess að heilsa upp á þá og óska þeim til hamingju.

Á tilsettum tíma kom upphringingin frá Ísafirði, og forseti og stallari töluðu við stjórn hins nýstofnaða klúbbs á Ísafirði og árnuðu þeim allra heilla."

Forseti kvaðst hafa heitið því, er hann ræddi við Ísfirðingana, að félagar úr Rótarýklúbbi Reykjavíkur mundu síðar í vetur heimsækja þá, en stofnunina hefði borið svo bráðan að, að ekki urðu tök á að komast vestur í þetta sinn. Hann gat þess einnig, "að þeir Ísfirðingarnir væru mjög ánægðir með stofnun klúbbsins og hefðu þeir skýrt sér frá því, að það væri í fyrsta sinn í sögu Ísafjarðarkaupstaðar, sem tekizt hefði að brúa andstæðurnar í flokka-deilunum í bænum, og sýnir það, hvað rótarýfélagsskapurinn getur megnað með því að gefa mönnum kost á að koma saman á hlutlausum vettvangi án tillits til skoðanamunar í dægurmálum. Væri það skemmtilegt, að Ísafjörður hefði orðið fyrstur til að stofna rótarýklúbb, enda tækju þeir Ísfirðingarnir þessu máli með hinum mesta áhuga."

Á fundi 3. nóvember 1937 hreyfði forseti því, "að nauðsynlegt væri, að við hefðum umræðufund um kostnaðinn við að vera í rótarýfélagsskapnum. Umræður hefðu verið haldnar um þetta annars staðar og óskir komið fram um að breyta til um fyrirkomulagið. Helsingör-rótarýklúbbur hefur komið fram með tillögur um að gera öll Norðurlönd að einu umdæmi, en sú tillaga væri þannig, að nauðsynlegt væri, að við ræddum málið og kæmum einnig fram með tillögu, sem vel gæti haft Brezk-írska sambandið til fyrirmyndar."

Stungið var upp á, að þrír forsetar klúbbsins athuguðu þetta mál og kæmu fram með tillögu í því til næsta fundar. Eftir nokkrar umræður var þó samþykkt sú tillaga Knuds Zimsens að halda kvöldfund miðvikudaginn 17. nóvember til þess að ræða þetta mál.

Á fundi 10. nóvember 1937 skýrði Árni Friðriksson "frá störfum nefndar þeirrar, er athuga átti ritstjórnarfyrirkomulagið á rótarýblaðinu Norden. Hefði nefndin komizt að þeirri niðurstöðu, að halda bæri áfram samvinnunni og taka hana upp af nýjum krafti á næsta ári, eftir að ritstjórn blaðsins væri komin yfir til Danmerkur. Ennfremur, að koma bæri samvinnunni í fast form og að undirritstjórinn fyrir Ísland fengi þóknun fyrir starf sitt."

Þá skýrði Árni Friðriksson á sama fundi "að beiðni forseta frá annarri hugmynd, sem rætt hefði verið um. Hún væri að hagnýta betur aðstöðuna, sem við úti á hala veraldar getum haft af því að vera í Rotary International. Það væri með því að búa til bækling um Ísland til þess að kynna Ísland úti um heim. Mætti einnig hugsa sér, að þessi hugmynd yrði einnig tekin upp af öðrum rótarýklúbbum, er legðu saman í að kynna sitt land hver. Gæti á þennan hátt vaxið upp sérstakt rotary-bibliotek um öll lönd, nokkurs konar geografi fyrir rótarýmeðlimi. Bæri þá að gefa út þetta bibliotek í sama broti alls staðar og á sama grundvelli."

Nokkrar umræður urðu um þetta mál, t.a.m. um það, hvort koma ætti þessari hugmynd á framfæri við Rotary International.

Niðurstaðan varð sú, að beðið yrði átekta og mönnum gefinn kostur á að ræða þetta mál betur síðar. Þær umræður fóru fram þegar á næsta fundi, 17. nóvember, og var þriggja manna nefnd falið að gera tillögu um það, þeim Árna Friðrikssyni, Ragnari Blöndal og Guðmundi Finnbogasyni.

Á þessum sama fundi var lagt fram nefndarálit þeirra Helga Tómassonar, Knuds Zimsens og Guðmundar Hlíðdals um fyrirkomulag rótarýstarfsins á Norðurlöndum og eflingu norrænnar samvinnu á því sviði.

Var nefndarálitið samþykkt einróma, og þykir rétt að birta það hér óstytt:

Það verður að teljast mjög í anda rótarý-félagsskaparins að gera allt það, er miða megi til aukinnar samheldni meðal allra Norðurlanda. Það virðist sennilegt, ef rótarýklúbbar Norðurlanda mynduðu eina samstæða heild, að þá mætti það verða til þess að stuðla að þessari innbyrðis samheldni, samheldni landanna, þar sem rótarýklúbbar yfirleitt, hver á sínum stað, munu skipaðir mönnum, er mega sín nokkurs innan stéttar, hver um sig, svo framarlega sem þeir beita sér.

Slíka samstæðuheild verður að mynda án tillits til þeirra þjóðamarka, sem nú eru.

Henni ætti að stjórna frá einum stað innan Norðurlanda, sem lægi nokkurn veginn vel við samgöngum alla vega að og allir klúbbarnir stæðu beint og hliðstætt hver öðrum undir þessari miðstjórn.

Miðstjórnin sæi um að halda við og efla samgang á milli klúbbanna:

A Með því að formaður hennar ferðaðist árlega um á milli þeirra allra.

B Að bréf og mánaðarskýrslur hvers einstaks klúbbs gengi til allra hinna klúbbanna.

e Allir klúbbar héldu sameiginlegan ársfund.

D Landsklúbbar héldu sameiginlegan ársfund.

E Landshlutaklúbbar héldu hálfsárslega fundi, sameiginlega.

F Nágrannaklúbbar héldu fundi sam-eiginlega, eftir því sem því yrði við komið og heppilegast virtist vera, auk þess sem einstakir félagar heimsæktu klúbbana, hvar og hvenær sem þeir gætu, að klúbbslífið gengi að öðru leyti sinn gang, eins og verið hefur.

Við teljum því heppilegt, að í stað núverandi fyrirkomulags verði öll Norðurlönd gerð að einu umdæmi með einum umdæmisstjóra, einni skrifstofu og hún verði í Gautaborg, sem að okkar dómi liggur bezt við í þessu tilfelli.

Skrifstofan þar sé fastaskrifstofa, heyri beint undir skrifstofuna í Zurich eins og hvert annað umdæmi gerir sem stendur.

Umdæmisstjóri sé valinn árlega, og má velja hann úr hverju landanna sem er. ÞÓ teljum við réttast, að hann sé alla jafna, fyrst um sinn, valinn úr Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð; t.d. eftir stafrófsröð, og að Ísland komi aðeins til greina eftir því sem nánar yrði samkomulag um, eða ef ósamkomulag yrði um hin löndin.

Blaðið Rotary Norden sé gefið út af skrif-stofunni, fyrst og fremst sem málgagn hennar og umdæmisstjórans og klúbbanna innbyrðis. Þar næst sem alþjóðamálgagn umdæmisins, og þess vegna á ensku, og sendist til sem flestra annarra klúbba helzt ókeypis (þar fyrir stendur auðvitað hverjum einstökum klúbb frjálst að vera í beinu sambandi við hvaða aðra klúbba, sem hann kynni að vilja). En innan Skandinavíu fengju allir meðlimir allra klúbbanna blaðið. Út á við yrði þetta boðberi bræðralags Norðurlanda, inn á við málgagn áhugamanna um málefni þessa bræðralags.

Við teljum, að fyrirkomulag þetta ætti að geta verið um helmingi ódýrara en núverandi fyrirkomulag með þremur umdæmisstjórum og þeirra skrifstofum og launuðum ritstjórum við blaðið Rotary Norden.

Á fundi 24. nóvember skilaði nefnd sú, er gera skyldi tillögu um útgáfu bæklings um Ísland, munnlegu áliti, og tóku allir nefndarmenn til máls. Í stað þess að klúbburinn hér gengist fyrir útgáfu slíks bæklings, töldu þeir réttara, að mál þetta yrði tekið upp við Rotary International og hófanna leitað um það, hvort Alþjóðahreyfingin vildi beita sér fyrir því, að ein bók yrði gefin út um hvert það land, er rótarý-klúbbar störfuðu í, og yrðu í henni helztu upplýsingar um hvert einstakt land, en úr öllu saman yrði smám saman eins konar safn. Gæti þá hver klúbbur fengið keypta bók um hvert það land, er hann kysi.

Árni Friðriksson lagði að lokum til, að forseta ásamt hverjum þeim félaga, er hann kveddi til liðs við sig, yrði falið að undirbúa þetta mál og senda tillögu um það til Rotary International.

Hinn 15. desember 1937 skýrði forseti frá umburðarbréfum þeim, "er félagsmönnum hafa verið send nýlega um ýmislegt varðandi rótarý, og eru þessi umburðarbréf orðin fimm. Fyrsta umburðarbréfið fjallar um stefnuskrárnefnd eða allsherjarnefnd, annað um markmið og aðferðir rótarý; þriðja um klúbbanefnd; fjórða um, hvernig klúbbnefnd starfar, og það fimmta og síðasta um stefnuskrána. - Sagði forseti, að nú ætti að vera auðvelt fyrir nefndirnar virkilega að taka til starfa, og hafði því falið klúbbnefnd að sjá um næsta fund."

Ljóst er af fundargerðinni 22. desember, að klúbbnefndin hefur látið ýmis mál til sín taka, er hún hafði rætt á sérstökum undirbúningsfundi með forseta 20. desember. M.a. þyrfti að brýna fyrir mönnum betri fundarsókn, sjá til, að fundir hæfust stundvíslega. ennfremur, að lesið væri upp úr vikubréfum. er að bærust, það sem ætla mætti, að menn hefðu áhuga á. Þá væri nauðsynlegt, að ætlaður væri tími til umræðna eftir framsöguerindi o.s.frv.

Þeirri nýju sókn til kynningar rótarýhreyfingarinnar, bæði inn á við og út á við, er Helgi Tómasson hóf í forsetatíð sinni, hélt svo næsti forseti klúbbsins, Steingrímur Jónsson, áfram. Varðveitt er í gögnum klúbbsins rækilegt erindi, er hann flutti á fundi 5. október 1938 um rótarýhreyfinguna, markmið hennar og starfs-hætti. Frá næsta ári, 1939, eru svo ýtarleg stjórnlög rótarýklúbba í íslenzkri þýðingu Guðmundar Finnbogasonar. Kemur þar fram í upphafi, að með samþykkt, er gerð var á ársþingi Alþjóðahreyfingarinnar í Los Angeles 1922, hafi verið ákveðið, að sérhver rótarýklúbbur, er stofnaður verði þaðan í frá, skuli undirgangast að halda þessi fyrirskipuðu stjórnlög. Uppkast að fyrstu sérlögum fyrir klúbbinn hafði verið lagt fram á fundi 30. janúar 1935 og frumvarp laganefndar samþykkt lið fyrir lið á fundi viku síðar. Voru þeir Guðmundur Finnbogason og Guðmundur Hlíðdal kosnir á fyrri fundinum stjórninni til að-stoðar við lagasmíðina. Lögum þessum var breytt að nokkru 19. febrúar 1941, en rækilega voru þau endurskoðuð sex árum síðar og þau lög samþykkt á fundi 6. marz 1947.

Á fundi 24. ágúst 1938 var rætt "um ferðalag vestur og norður til að heimsækja rótarýklúbbana á Ísafirði og Siglufirði og stofna klúbb á Akureyri".

Lagt var af stað í för þessa 31. ágúst, og er frá henni greint í fundargerð 7. september 1938. Í förinni voru Steingrímur Jónsson forseti, Carl Olsen, Ragnar Blöndal, Ludvig Kaaber og Jón Halldórsson.

Rótarýklúbbur Akureyrar var stofnaður 4. september 1938.

Svo hittist á, að þennan sama dag sátu nokkrir klúbbfélagar rótarýþing í Stokkhólmi. Samkvæmt fundargerð 20. júlí 1938 var þá búizt við, að fimm félagar mundu geta sótt umræddan fund, þeir Helgi Tómasson, Ásgeir Ásgeirsson, Bjarni Jónsson frá Galtafelli, Ludvig Storr og Guðmundur Ásbjörnsson. Var á fundinum 20. júlí rætt um það, með hverjum hætti þessir rótarýfélagar gætu komið fram á Stokkhólmsþinginu fyrir klúbbsins hönd.

Í fundargerð 21. september 1938 er þess getið, að Helgi Tómasson hafi á þeim fundi sagt frá þinginu í Stokkhólmi.

8. marz 1938 tilkynnti forseti, að safnazt hefðu 300 krónur í jarðskjálftasamskotin í Chile og hefðu þær verið afhentar Rauða krossinum hér, er kæmi þeim til Rauða krossins í Chile.

Hinn 3. júlí 1939 sátu T. C. Thomsen umdæmisstjóri og frú fund klúbbsins. Thomsen var hingað komin til að afhenda klúbbunum á Ísafirði og Siglufirði fullgildingarskjöl og búa í haginn fyrir stofnun klúbba víðar. Á fundinum voru staddir nokkrir gestir frá Ísafirði, Siglufirði og Hafnarfirði.

Carl Olsen, sem nú var orðinn forseti klúbbsins, gerði á fundi 19. júlí grein fyrir undanförnum ferðalöþum með umdæmisstjóra og frú hans til Ísafjarðar, Siglufjarðar, Akureyrar og Húsavíkur, svo og til Þingvalla, Gullfoss og Geysis.

Í næstu fundargerð, 26. júlí, segir svo m.a.:

Þá kom hið spennandi augnablik, er gjaldkeri [Bjarni Jónsson frá Galtafelli] las upp reikninga klúbbsins fyrir liðið (starfs-) ár 1938-1939. Aldrei þessu vant var lítils háttar halli á reikningunum, eins og oft vill verða í smáklúbbum. en meður því að gjaldkeri er bæði ör á fé og efnaður, þá gaf hann klúbbnum hallann, sem þó hefði orðið mun meiri en reikningurinn sýndi, hefði ekki past. pres. Steingrímur Jónsson verið af sama sauðahúsi og gjaldkerinn og í fjarveru hans greitt úr eigin vasa marga reikninga á klúbbinn til þess að dreifa hallanum. Var báðum þökkuð rausnin og reikningarnir samþykktir.

Á fundi 21. febrúar 1940 minntist Helgi Tómasson með erindi 35 ára afmælis Alþjóðahreyfingarinnar

Hinn 6. marz 1940 kvaddi Guðmundur Hlíðdal sér hljóðs og talaði um björgun manna af vélbátnum Kristjáni, sagði fram komna uppástungu um að skjóta saman og gefa þeim félögum nýjan bát - 15 tonna mótorbát - og spurðist fyrir um, hvort klúbburinn gæti ekki tekizt á hendur forgöngu í þessu máli, og gerði forseti ráð fyrir að ræða það síðar á fundinum. Niðurstaðan varð sú, að því var vísað til stjórnarinnar.

Af fundargerð viku síðar, 13. marz, sést, að nefnd hefur verið sett í málið og þegar eru komin nokkur þúsund krónur í sjóðinn.

Í fundargerð 26. júní 1940 segir m.a.: "Þá var látið ganga milli félaganna nýkomið júníhefti af "The Rotarian" með hinni mjög svo góðu grein Vilhjálms Stefánssonar um landið og klúbbinn."

Hugmynd Árna Friðrikssonar um, að samið væri upplýsingarit um hvert land, er rótarýklúbbar væru starfandi í, og slíkt rit síðan gefið út á vegum Alþjóðahreyfingarinnar, náði ekki fram að ganga, fékk ekki hljómgrunn í aðalstöðvunum í Chicago.

Árni Friðriksson gafst þó ekki upp við þá hugmynd að koma á framfæri við rótarýheiminn upplýsingum um Ísland og Íslendinga, og vildi hann nýta til þess mánaðarbréf klúbbsins, er nú skyldu gefin út með nýju sniði.

Í fundargerð 4. september 1940 segir m.a.: "Rætt um fyrirhugaða prentun mánaðarbréfanna og auglýsingar í þeim, og þakkaði forseti félögum góðar undirtektir. "

Sýnt er, að auglýsingum félagsmanna hefur verið ætlað að létta undir með útgáfu bréfanna.

Í fundargerð 27. nóvember segir um bréfin: "Þá var útbýtt mánaðarbréfum fyrir ágúst og september - voru þau í nýjum búningi, prentuð, sumpart vélrituð, þótti fengur góður."

Bréf þessi eru geysihaglega gerð, eru í rauninni ein örk 42 x 33 sm. Vikuskýrslurnar, sem eru á ensku, eru vélritaðar á bakhliðina, en framhliðin. sem prentuð er í einu lagi, verður í raun 8 litlar blaðsíður, 16 112 x 10 112 sm hver, þegar örkin er þannig brotin saman. Á síðum þessum er komið fyrir miklum fróðleik á íslenzku um Rótarýklúbb Reykjavíkur. Þar er talin stjórn hans hverju sinni og starfandi nefndir, fyrrum forsetar, félagar allir (með ýmsum upplýsingum um hvern einn) og fundarsóknarákvæði. Þá er greint í örstuttu máli, hvers konar félagsskapur þetta er, og lýst markmiðum hans.

Taldir eru upp rótarýklúbbar á Íslandi utan Reykjavíkur, greint hver sé forseti og fyrrverandi forsetar og hvenær fundartími þeirra sé.

Birtar eru nokkrar upplýsingar úr O. D. eða klúbbskrá R. I. með nýjustu fréttum af fjölda klúbba um víða veröld. Í fyrsta mán-aðarbréfinu segir eftir þessari heimild, að 30. júní 1940 starfaði rótarýfélagsskapurinn í rúmlega 60 löndum með 5066 klúbbum og 214.000 félögum.

Loks eru í mánaðarbréfinu auglýsingar margra félaganna eða þeirra fyrirtækja, er þeir störfuðu við.

Í janúarbréfinu 1942 er kynntur greinaflokkur, sem ætlunin sé að hrinda af stað í mánaðarbréfunum. þar sem veittar verði upplýsingar um land og þjóð, atvinnuvegi hennar, framleiðslu, sögu og menningu. Nefnist flokkurinn Points about Iceland. Þessir þættir urðu mjög margir eða 32 alls og birtust úr þessu í mánaðarbréfinu. meðan það var gefið út með þessu sniði. En seinasta mánaðarbréfið með umræddu lagi kom út í júní 1946. Erfitt reyndist þó stundum að afla efnis í mánaðarbréfið. og féll útgáfa nokkurra mánaðarbréfa niður af þeim sökum.

Samkvæmt skýrslu um starfsemina 1943 - 44 var mánaðarbréfið sent um 40 klúbbum og öðrum erlendis, ennfremur stjórnum íslenzku klúbbanna. Bréfið vakti talsverða athygli, m.a. er sagt frá því í fundargerð 23. apríl 1941, að bréf hafi borizt frá R. 1. í Chicago dagsett 20. febrúar það ár, þar sem farið sé mjög lofsamlegum orðum um hin nýju mánaðarbréf klúbbsins.

Í ársskýrslu 30. júní 1943 er sérstakri ritnefnd, er í voru þeir Árni Friðriksson, Guðmundur Finnbogason og Steingrímur Jónsson, þökkuð aðstoð í sambandi við greinaflokkinn Points about Iceland. Árni Friðriksson var þar lengstum aðalmaðurinn, en auk fyrrnefndra unnu þar að á síðara stigi sem ritnefndarmenn Jón Sigurðsson, Einar Ól. Sveinsson og Helgi Elíasson.

Í fundargerð 18. september 1940 segir, að bréf hafi borizt frá R. 1. um lækkun ~jalds (á hvern félaga) í 3 dali, þar sem Islendingar væru nú utan umdæmis og gætu ekki haft sitt fyrra samband.

Einnig var þá tilkynnt, að tímaritið Rotary Norden væri hætt að koma út.

Hinn 9. október 1940 "tilkynnti forseti, að maturinn yrði nú hækkaður upp í 4.25 - þóttu lítil gleðitíðindi."

Á fundi 30. október 1940 "gaf forseti Jóni Ásbjörnssyni orðið. Sagði hann, að nokkrir rótarýfélagar hefðu bundizt samtökum um að hrinda í framkvæmd útgáfu fyrirlestra Einars Ólafs Sveinssonar um Sturlungaöldina. Hefðu þeir fengið hugmyndina við að hlusta á fyrirlestur, er nefndur E. Ól. SV. flutti í Rótarýklúbbnum 12. júní sl. um þetta efni.

Sagði fyrirlesarinn. að ritið yrði 11 - 12 arkir að stærð og kæmi út fyrir jólin nokkur eintök á betri pappír, tölusett. Eftir því sem ritið seldist, ætti að greiða framlagt fé aftur, því næst höfundarlaun, og ef meira seldist en svo, þá að skipta því jafnt milli höfundar og Rótarýklúbbsins til einhverrar þeirrar starfsemi - annarrar en klúbbreksturs - er stjórninni mætti þóknast. "

Í fundargerð 30. apríl 1941 er endursagt að nokkru erindi, er Árni Friðriksson flutti á fundinum, og verður endursögnin birt hér orðrétt:

Því næst gaf forseti Árna Friðrikssyni orðið, sagði hann ýmislegt fróðlegt og skringilegt um ýmis dýr, þar á meðal þetta:

Minnstu spendýr jarðar með heitu blóði væru svo lítil, að 20 kæmust í umslag og væri þó ekki þyngra en venjulegt einfalt bréf. Aftur á móti væru þau stærstu á jörðunni 4 tonn, en þau stærstu er lifað hefðu á jörðunni um 40 tonn.

Þá sagði hann frá steypireyðunum í Suðurhöfum. þeir yrðu allt að 33 1/2 m á lengd eða eins og meðalstór línuveiðari (mótorbátur) 140 tonn, og væri hann seldur sem fiskur á markaði í London, mundi hann kosta 1/2 milljón króna, og væri hann matreiddur handa Íslendingum (1/4 kg á mann), dygði hann í eina máltíð til 4 daga.

Nýrun væru í slíku dýri 550 kg eða eins og íslenzk belja. Hjartað 600 kg, eða eins og 7-8 menn fullorðnir eða eins og 4 þeir feitustu hér á landi. Lifrin væri 900 kg eða eins og 10-12 karlmenn og myndi nægja Rótarýklúbbnum í eina máltíð matar á dag í 2 ár og 4 mánuði eða till. ágúst 1943, eða sem miðdegisverður eins manns í 10 ár. Tungan væri 4 tonn eða álíka mikið og allir rótarýfélagar hér og á Siglufirði og einum betur þó.

Blóðmagnið væri 8000 lítrar eða álíka mikið og í 1600 manns, eða álíka og í öllum Akurnesingum og hreppnum með. Blóð-straumurinn í gegnum hjartað væri 1 tonn á mínútu, og væri það vatn, myndi það nægja 3 hæða húsi hér í bæ, en þegar hvalurinn erfiðar, eykst blóðstraumurinn 4-5 falt, og mundi þá nægja heilli götu sem vatnsæð. Blóðstraumurinn í 40 slíkum dýrum væri því álíka mikill og vatnsstraumurinn í Elliðaánum og 180 m3 á m.

Lungun gætu tekið 14000 lítra af lofti eða 14 m ' í einu, eða álíka mikið og rúmast í litlu stúlkuherbergi eða álíka mikið og í lungum 28000 manns, eða allra Reykvíkinga til samans. Maðurinn andar ca. 15 sinnum á mínútu, en hvalurinn 10 sinnum á klukkustund. Hvalir þessir eiga kálf annað hvert ár og ganga með í 11 mánuði. Þegar hann fæðist, er hann 7 metrar á lengd og 2 tonn á þyngd, og vex gríðar ört, um 4-5 metra á dag, og 16 mánaða er hann orðinn 23 tonn og tveggja ára 24 metra langur og 80 tonn að þyngd.

Sagði Árni ýmislegt meira þessu líkt um tré og dýr, t. d. sagði hann, að rækjurnar fæddust allar sem karldýr, en skiptu svo um kyn með aldrinum og yrðu þá kvendýr, væri því í þeirri ætt ekki til nema ungir karlar og gamlar konur. Var gerður bezti rómur að máli Árna, því að það er engan veginn sama að fá það svona í styttri útgáfu, á móts við það að heyra Árna sjálfan segja frá.

A fundi 20. maí 1942 sagði Steingrímur Jónsson frá Bandaríkjaför sinni og gat þess þá m. a., að búið væri í Chicago að samþykkja Rótarýklúbb Akureyrar, er yrði nr. 5455. Stæði til að afhenda Akureyrarklúbbnum skírteini sitt um miðjan júní.

Í fundargerð 17. júní 1942 er svo sagt frá ferð til Akureyrar, þar sem Steingrímur Jónsson afhenti fullgildingarskjalið í umboði R. I. Voru þá fullgildir klúbbar orðnir fjórir, í Reykjavík, á Ísafirði, Siglufirði og Akureyri.

Á fundi 12. ágúst 1942 flutti Bjarni Ásgeirsson erindi um fuglalíf á Knarrarnesi, en þar var Bjarni uppalinn. Erindið er því miður ekki rakið í fundargerðinni nema að litlu leyti, en þar segir þó svo: "Minntist hann aðallega fjögurra fugla, er honum voru hugstæðir, hrafninn, æðarfuglinn, krían og lundinn. Sagði hann margar skemmtilegar og eftirtektarverðar sögur af lifnaðarháttum þessara fugla. Taldi hann hrafninn skynsamasta fugl íslenzkan, en lét lítið af gáfum æðarfuglsins. Forseti þakkaði Bjarna hið skemmtilega erindi, og tóku félagar undir það með lófaklappi."

Ljóst er, að Bjarni Ásgeirsson hefur oft haldið uppi gleði í klúbbnum bæði með erindaflutningi og kveðskap, en hann var ágætlega hagmæltur. Í fundargerð 17. júní 1936 segir t. a. m.:

"Þá stóð upp Rotary Bjarni Ásgeirsson og mælti fram mikinn brag um meðlimi klúbbsins, og fékk þar hver meðlimur nákvæma lýsingu á sjálfum sér." Bragur þessi verður birtur síðar í heilu lagi.

Eftir hádegisfund 7. október 1936 var ekið austur að Sogsfossum, og segir um það svo m. a.:

"Farið var í 22 manna bíl, og var óspart sungið, en Bjarni Ásgeirsson mælti ljóð af munni fram."

Og í fundargerð viku síðar, 14. október, segir, að Kjartan Thors varaforseti hafi "fengið afrit af brag þeim, sem Bjarni Ásgeirsson orti í bílnum á leiðinni austur".

Sem örlítið sýnishorn kveðskapar Bjarna skal hér í svipinn birt vísa, er hann varpaði fram á fundi 12. janúar 1938 vegna ummæla Jóns Halldórssonar um jólakort, er félagsstjórnin hafði sent til félagsmanna, en myndin á þessu korti var af ísjaka í Hvítárvatni. Af þessu tilefni orti Bjarni Ásgeirsson:

Áður en dýpsti állinn frýs
innstu hjartans leyna,
við skulum reyna að eyða ís
okkar piparsveina.

Annar Bjarni og mikill gleðimaður var sr. Bjarni Jónsson, er kjörinn var félagi í klúbbnum 9. marz 1938. Hann flutti t. a. m. mjög skemmtilega ræðu fyrir minni kvenna á kvöldfundi með eiginkonum félagsmanna 20. apríl 1938. Þá segir í fundargerð 7. desember þetta sama ár: "Því næst hélt séra Bjarni Jónsson vígslubiskup bráðskemmtilegt og fróðlegt erindi um prestsstarfið."

Á árinu 1939 segir, að sr. Bjarni hafi á fundi 1. marz haldið "erindi um hvað gerist á meðan við sitjum á fundi. Var erindið fróðlegt og skemmtilegt og var þakkað hið bezta af fundarmönnum." En efni þessara erinda er ekki rakið í fundargerðum né heldur efni stuttrar, prýðilegrar og skemmtilegrar jólahugvekju, er hann flutti á fundi 20. desember 1939.

Þriðji Bjarninn, sem lagði sitt af mörkum til að skemmta félögum sínum, var Bjarni Jónsson frá Galtafelli. Voru þær ekki fáar ferðirnar, sem farnar voru í Nýja bíó í boði Bjarna, og voru þá oft eiginkonumar með í för, synirnir eða dæturnar. Í skýrslu ritara um starfsemi klúbbsins starfsárið 1942-43 sést t. a. m., að farnar voru þrjár slíkar bíóferðir á því ári.

Annan febrúar 1944 var haldinn umræðufundur. Á fundi voru 28 félagar eða 87,5% þeirra. Fjarverandi voru: Árni Friðriksson, Benedikt Gröndal, Sveinn Sveinsson og Jón Ásbjörnsson. Gestir voru engir. Frá fundinum segir að öðru leyti svo:

Forseti [Hallgrímur Benediktsson] setti fundinn og skýrði frá, að umræður væru frjálsar og gæfist fundarmönnum nú tækifæri til að bera fram áhugamál sín. Var því vel tekið, og urðu fjörugar umræður og víða komið við.

Dr. Helgi Tómasson vakti máls á tillögu um, að klúbburinn tækist fyrir hendur að koma upp fjallaskála til dvalar fyrir félagsmenn og fjölskyldur þeirra, helzt einhvers staðar þar, sem hentugt væri til vetrardvalar um helgar og í stuttum fríum.

Bjarni Jónsson forstjóri vildi, að klúbburinn beittist meir fyrir þátttöku í opinberum málum og slíku, er til almennra heilla horfði. Í sama streng tók forseti og benti á nokkur mál, er klúbburinn hefði áður haft afskipti af.

Guðmundur Finnbogason rakti skemmtilega nokkur meginatriði félagsskaparins frá hans sjónarmiði. Þá tók til máls Kjartan Thors og var meðmæltur hugmyndinni um skálabyggingu, ennfremur Knud Zinsen, er taldi það ekki verkefni klúbbsins að beita sér í þessu í eitt skipti og öðru næst. Frekar að vinna að því að gera okkur sjálfa færari til þeirra starfa, er við gegnum hver og einn í þjóðfélaginu, en láta okkar gæta útí frá, ef sérstök tækifæri byðu st til þess að gera öðrum gagn.

Hallgrímur Fr. Hallgrímsson kom fram með þá hugmynd, að safna fé í sjóð til þess að eiga handbært fé að grípa til, er hin sérstöku tækifæri bjóðast. Stakk hann upp á, að samþykkt yrði sérstakt aukagjald með hinu í þessu skyni eða e. t. v. hafin sérstök fjársöfnun í því skyni jafnvel árlega.

Forseti þakkað ræðumönnum fyrir þann áhuga, sem hefði komið fram í umræðunum fyrir félagsmálum frá ýmsum sjónarmiðum. Sér fyndist hafa komið í ljós, að full ástæða væri til slíkra frjálsra umræðna við og við.

Á næsta fundi, 9. febrúar, stakk forseti upp á, að vísað yrði til stjórnarinnar tillögu frá Hallgrími Fr. Hallgrímssyni um fjársöfnun í framkvæmdasjóð.

Í fundargerð 22. marz 1944 segir svo um þetta mál:

"Forseti setti fundinn og bauð gesti velkomna. Skýrði hann frá, að stjórnin hefði komið sér saman um að leggja svohljóðandi tillögu fyrir fundinn í tilefni af máli því, er nýlega var til hennar vísað.

b.  Fastagjald félagsmanna verði tvöfaldað frá 1. júlí næstkomandi og hækki þannig í kr. 120.00.

c.  Stofnað verði til sérstakrar sjóðmyndunar af frjálsum framlögum félagsmanna til eflingar starfsemi félagsins.

d.  Fé það, sem fæst inn með hækkun fé-lagsgjalda, renni einnig í þann sjóð.

Hóf forseti umræðu um mál þetta, og tóku síðan ýmsir til máls. Þótti ýmsum varhugavert að hækka árgjöldin, nema þá fyrir eitt ár í senn. Tillögunni um sjóðstofnun af frjálsum framlögum var yfirleitt vel tekið. Var máli þessu að lokum, sam-kvæmt tillögu frá Bjarna Jónssyni frá Galtafelli, vísað til stjórnarinnar og henni falið að gera nánari tillögur um sjóðstofnunina, skipulag sjóðsins og tilgang.

Hallgrímur Fr. Hallgrímsson f. forseti skýrði frá, að félagi, sem ekki vildi láta nafns síns getið, hefði afhent honum 1000 kr. í væntanlegan sjóð. Var þá fundi slitið. "

Í fundargerð 17. maí 1944 segir, að lögð hafi verið fram á þeim fundi "frv. að skipulagsskrá fyrir Framkvæmdasjóð R. R., sem var samþykkt með nokkrum breytingartillögum" .

Á fundi 31. maí afhendi forseti svo "fundarmönnum eitt eintak hverjum af skipulagsskrá Framkvæmdasjóðs R. R., eins og hún var endanlega samþykkt á fundi 17/5".

Fram kemur loks á fundi 29. júlí 1944, að ákveðið var að hafa árgjald hið sama og verið hafði, þ. e. 60 krónur, en "hafa auk þess 60 kr. gjald til framkvæmdasjóðs klúbbsins" .

Í fundargerðinni 31. maí 1944 er greint frá því, að forseti hafi lesið " bréf frá síra Friðrik Friðrikssyni, Húsavík, er hann hafði sent Steingrími Jónssyni þess efnis, að haldinn hefði verið 1. fundur Rótarýklúbbs Húsavíkur. Hefðu mætt 17 fundarmenn, er vildu bindast samtökum um stofnun klúbbsins. Væri ætlunin að stofna klúbbinn formlega í sumar og ganga þá í R.I. Var beiðzt aðstoðar R. R. við stofnun klúbbsins. Forseti lét í ljós ánægju yfir framkvæmdum þessum, og tóku fundarmenn undir með lófataki."

Rótarýklúbbur Húsavíkur hafði raunar hafið göngu sína þegar 18. febrúar 1940, en síðan dregizt sökum styrjaldarinnar árum saman, að hann fengi fullgildingarskjal sitt. Guðmundur Hlíðdal innti eftir því máli, þegar hann í nóvember þetta sama ár, 1944, kom í höfuðstöðvar hreyfingarinnar í Chicago, en frá för hans verður nánara skýrt síðar. Umsókn Húsavíkurklúbbsins hafði einmitt í sama mund borizt til Chicago, og varð að ráði, að mál þetta yrði ekki látið ganga til Evrópuskrifstofunnar í Sviss, heldur hagað svo til, að Guðmundur gæti tekið fullgildingarskjalið heim með sér.

Í fundargerð 14. febrúar 1945 segir m. a. svo:

"Því næst minnti forseti á, að Árni Friðriksson hefði komið með þá tillögu, að klúbbarnir hér á landi efndu til þings með nokkrum félögum, og kvað tækifærið ágætt síðast í júní, um leið og klúbbinum á Húsavík væri afhent Charter sitt. Fleiri tóku til máls og allir sammála um, að þetta væri mjög æskilegt til þess að ræða áhugamál Rotary og fyrirhugaða stofnun sérstaks umdæmis. Vísað til stjórnarinnar."

Þingdagur var síðar ákveðinn 1. júlí 1945, og segir svo frá þinginu og þátttöku Reykjavíkurklúbbsins í því í fundargerð 4. júlí 1945:

"Hallgrímur Benediktsson, er farið hafði til Húsavíkur og afhent klúbbnum þar sem sérstakur fulltrúi R. I. fullgildingarskírteini 1. júlí, skýrði frá förinni norður. Með honum fóru norður þeir Carl Olsen, Guðmundur Hlíðdal og Einar Erlendsson, er mættu sem fulltrúar frá klúbbnum í Reykjavík á sameiginlegum fulltrúafundi klúbbanna á Íslandi, er haldinn var á Húsavík sama dag, og auk þeirra Helgi Bergs. Rómaði Hallgrímur mjög viðtökurnar á Húsavík og allan undirbúning þar bæði undir fullgildingarveizluna og fulltrúafundinn. Kvað hann fulltrúafundinn hafa samþykkt með öllum atkvæðum ályktun um það, að æskilegt væri og réttmætt, að Ísland yrði sjálfstætt rótarýumdæmi, og falið Reykjavíkurklúbbnum forgöngu og framkvæmdir allar í því máli."

Áður en horfið verður að nánari frásöi;n af stofnun sérstaks rótarýumdæmis á Islandi, skal minnzt seinasta klúbbsins, sem stofnaður var fyrir þau tímamót, en það var Rótarýklúbbur Keflavíkur. Í fundargerð 18. apríl 1945 segir svo: "Þá gat forseti þess, að Keflavíkurgestirnir [Alfreð Gíslason lögreglustjóri og Þorgrímur Eyjólfsson íshússtjóri] væri hér komnir að tilhlutan Ludvigs Storr til undirbúnings stofnunar klúbbs í Keflavík. Áréttaði Alfreð Gíslason þetta og kvað þeim félögum áhugamál, að þetta gæti gengið sem fyrst."

Í fundargerð 7. nóvember 1945 segir svo m. a.: "Forseti skýrði frá því, að klúbbstjórnin ásamt Steingrími Jónssyni hefði farið til Keflavíkur föstudaginn 2. þ. m. vegna stofnunar rótarýklúbbs þar. Hefði þá verið stofnaður þar klúbbur með 13 félögum og kosin stjórn hans. Kvað forseti mikinn áhuga hafa ríkt á fundinum fyrir því, að klúbburinn fullnægði sem fyrst þeim skilyrðum, sem sett væru fyrir fullgildingu. "

Í fundargerð 21. maí 1946 er m. a. greint frá því, að nokkrir félagar R. R., Guðmundur Hlíðdal. Torfi Hjartarson, Kristján Siggeirsson, Ludvig Storr og Helgi Elíasson, hefðu setið fund Rótarýklúbbs Keflavíkur 24. maí. Í sömu fundargerð segir, að umsókn um fullgildingu Keflavíkurklúbbsins hafi þegar verið póstlögð. Í fundargerð 14. ágúst 1946 er loks frá því skýrt, að Rótarýklúbbur Keflavíkur hafi fengið stofnbréf sitt (þ. e. fullgildingarskjal) og sé það dagsett 24. júlí 1946. En fullgildingarhátíð var hins vegar haldin í Keflavík 2. nóvember 1946.

Í berjaferð Rótarýklúbbs Reykjavíkur til Þingvalla 11. september 1946 voru 11 félagar Keflavíkurklúbbsins með í forinni. flestir ásamt konum sínum.

Áður en sögunni víkur til stofnunar íslenzka rótarýumdæmisins, verður enn drepið á örfá atriði.

Carls þáttur Olsens

Í fundargerð 25. júní 1941 gerði Ragnar Blöndal, forseti klúbbsins, grein fyrir starfseminni undanfarið ár, og segir þar svo m. a.:

"Á stjórnarfundum voru rædd félagsmál, og þakkaði forseti p. p. [fyrrverandi forseta] Olsen sérstaklega fyrir þá velvild og umönnun, er hann hefði sýnt klúbbnum með allri sinni miklu fórnfýsi, sem og húsnæðisláni. er allt gengi í arf til næstu stjórnar."

Stjórnarfundir voru um langt árabil að jafnaði haldnir á skrifstofu Carls Olsens í Hafnarstræti, og þar voru viku- og mánaðarbréfin vélrituð. Stjórnarfundir á umræddu ári voru t. a. m. 45, svo að aðstaðan, sem klúbburinn hafði þarna á skrifstofu Olsens í hjarta bæjarins, var í rauninni ómetanleg.

Skemmtiferðir

Fyrsta skemmtifór. er gerð var úr bænum, var farin 19. júní 1935, og voru konur klúbbfélaga þar ekki með í för.

Frá henni segir Benedikt Gröndal ritari svo í fundargerð fyrrnefnd an dag:

Ákveðið hafði verið að fara austur að Mjólkurbúi Flóarnanna þennan dag að borðhaldi loknu og heimsækja þar Rotary Jörgensen. Var haldið af stað í fjórum bílum, en Jörgensen ók einn í sínum bíl. Þrír af þeim, sem á fundi voru, gátu ekki tekið þátt í förinni (Guðmundur Vilhjálmsson, Tómas Tómasson og Guðmundur Finnbogason).

Veður hafði verið gott um morguninn, en um það leyti, sem farið var af stað frá Reykjavík, tók að hvessa af austri, og olli það svo miklu sandfoki austanfjalls, að lítt sá til sólar. Gekk ferðin greiðlega austur, og þegar að mjólkurbúinu kom, tóku þau Jörgensen og kona hans á móti mönnum með hinum mesta höfðingsskap og risnu. Var þar borið óspart fram af skyri og rjóma, og þvínæst drukku menn kaffi og borðuðu dýrindiskökur, og var kaffiborðið fagurlega skreytt. Þegar menn höfðu fengið fylli sína eða meira en það, var farið niður í búið og skoðaðar mjólkurvinnslu-vélarnar og osta- og skyrgerðin, og dáðust menn að hinni snyrtilegu umgengni í búinu.

Þegar búið var að skoða mjólkurbúið, var farið út í hið snotra sumarhús, sem Rotary Storr á við hliðina á búinu, og beið þar whisky og sódavatn handa þeim, sem hafa vildu. Að því loknu var ákveðið að fara að Sogsfossum, en nokkrir af félögunum höfðu ekki tíma til þess að vera svo lengi að heiman og urðu að hverfa aftur til Reykjavíkur. Hinir héldu síðan til Sogs og komu þar seinni hluta dags. Dáðust menn þar að fegurð og krafti fossanna og hresstu sig á sódavatni, sem Rotary Thors hafði verið svo hugulsamur að taka með, ásamt nokkrum smekkbæti. Þegar menn höfðu dvalið við fossana, voru allir orðnir svo svangir, að sjálfsagt þótti að snæða kvöldverð í Þrastalundi. Var því ekið þangað í flýti og matur fenginn, og höfðu menn á honum góða lyst eftir dagsins erfiði.

Var nú tekið að halla degi og því haldið heim á leið.

Sóttist ferðin vel, en mikið var moldrokið, sem forseti þyrlaði yfir klúbbinn, því hans bíll var auðvitað fyrstur. Við Elliðaár stöðvuðust bílarnir og þar kvöddust menn, því að bílarnir áttu ekki samleið, þegar til bæjarins kom.

Hafði för þessi verið hin ánægjulegasta, enda þótt veður hefði mátt vera betra.

Áþekk kynnisför var farin 7. október 1936 austur að Sogsfossum, þar sem Steingrímur Jósson sýndi klúbbfélögum raforkuverið, en bauð þeim síðan til kaffidrykkju. Var raunar áður greint frá þessari ferð.

Tæpum mánuði áður, sunnudaginn 13. september 1936, á tveggja ára afmæli klúbbsins, buðu félagar konum sínum í fyrsta sinn í skemmtiferð Úr bænum. Ferðarinnar er ekki getið í fundargerð, en frásögn af henni hefur varðveitzt í bréfi Knuds Zimsens til Helweg-Mikkelsens í Hellerup 3. október 1936. Zimsen lýsir ferðinni svo:

Paa Stiftelsesdagen, der faldt paa en Söndag, havde Klubben arrangeret en fælles Automobiludflugt með Damer. Vi tog af Sted om Morgenen og körte en ret nylig ryddet Vej langs Tingvallasöens vestlige Bred, ned langs med Floden Sog, omtrent til Þrastalundur og hjem over Kambar. Det er en henrivende smuk Vej - men efter danske Begreber ufarbar for Automobiler og de færreste af os havde kört den för.

Vi havde Madpakker med, plukkede Blaabær, fangede Foreller og more de os storartet trods Regn en Del af Dagen. En vellykket Festdag, som dog faa deltog i, men de der ikke var med fortröd det des mere, da he hörte Deltagernes Beretning.

Ári síðar, 5. september 1937, buðu félagar eiginkonum sínum í skemmtiferð að Strandarkirkju. Er einungis lauslega minnzt á ferðina í fundargerðinni 8. september og stallara þar þakkað "sérstaklega fyrir allt það, sem hann hafði gert til þess að undirbúa ferðalagið sem bezt".

Nánari vitneskja fæst þó um tilhögun ferðarinnar í tilkynningu Carls Olsens stallara um hana 3. september, en hún hljóðar svo:

Félagar með dömur fara hina langþráðu skemmtiferð að Strandarkirkju sunnudaginn 5. september 1937.

Við mætum öll við Bifreiðastöð Steindórs kl. 9 f. h. og höfum með okkur árdegisverð (etc.), sem verður snæddur á einhverjum skemmtilegum stað á leiðinni.

Sennilega verður messað í Strandarkirkju (séra Ólafur prófastur Magnússon frá Arnarbæli).

Gott væri að hafa með sér ílát undir ber, ef þau skyldu finnast og einhverjir hafa löngun til að tína þau.

Numið verður staðar í bakaleiðinni (sennilega um 7leytið) í Skíðaskálanum og þar borðaður miðdegisverð ur. -

Lagt verður af stað heimleiðis, þegar allir hafa fengið nóg.

Gjört er ráð fyrir góðu veðri.

         Stallari

 

Árið eftir, sunnudaginn 25. september 1938, var farin berjaför austur í Grafning. Er hennar getið í fundargerðinni 28. september og dr. Helga Tómassyni þakkaðar ágætar móttökur þar eystra.

Í fundargerðinni 23. ágúst 1939 segir, að berjaför sé afráðin um Grafning - Þrastalund föstudaginn 1. n. m., hvernig sem viðri og hvernig sem þátttakan verði, en ekki sést í síðari fundargerðum, hvort sú för hefur verið farin. Hafi hún fallið niður, kann ástæðan m. a. hafa verið sú, að félagar höfðu farið skemmtiferð ásamt eiginkonum sínum fyrr um sumarið, 11. júlí, í tilefni af komu T. C. Thomsens umdæmis-stjóra og konu hans.

Frá ferð þeirri segir svo í fundargerðinni umræddan dag:

Mættir voru 16 eða 50%.

Gestir voru: Umdæmisstjóri distriktsins og frú hans; Guðrun Carlson frá Zonta Rotaryklúbb í U. S. A.; konur viðstaddra félaga og gestir þeirra, alls um 20 manns.

Fundur þessi var haldinn á Þingvöllum 50 km frá Reykjavík og var um leið skemmtifundur í tilefni komu umdæmisstjórans og konu hans.

Vegna fjarlægðarinnar frá bænum gátu því miður ekki fleiri félagar tekið þátt í fundinum.

Farið var frá Reykjavík kl. 9 f. h. í tveim 18 manna bifreiðum, sem leið liggur á Þingvöll.

Stanzað var í Almannagjá, og þar kvaddi sér hljóðs Guðmundur Finnbogason og gerði sögu Þingvalla skil - á dönsku svo að allir mættu skilja. Erindið var hið áheyrilegasta og skörulega og skýrt flutt. Honum var klappað lof að erindi loknu.

Meðan á þessu stóð, hafði Bjarni Bíó skotizt til sumarbústaðar, sem hann á á Þingvöllum, til þess þar að undirbúa útbýringu á Cocktail áður en gengið væri til matar, en með því að taskan, sem innihélt varninginn, hafði verið í geymsluhólfi bílsins, aftur í, en nokkuð hart ekið og bíllinn tómur hossazt nokkuð mikið, höfðu flestar flöskurnar tekið bílsótt á leiðinni og brotnað, en innihaldið runnið út um gólf bílsins, stóð Bjarni þar alls laus.

Sorgartíðindi þessi bárust til félaganna og að Bjarni mundi leita til nágrannanna um efni í nýjan Cocktail, hvað og ávannst, og á hann miklar þakkir fyrir, en á meðan á þessu stóð, var farið upp að Öxarárfossi að skoða hann, og stóð Cocktaillinn þá tilbúinn að nýju í Valhöll, þegar þangað kom.

Því næst var setzt að snæðingi, bauð forseti umdæmis st jóra og frú og gesti velkomna. Undir borðum minntist umdæmisstjórinn danskra klúbba og Rotary International, þakkaði góða meðferð á sér og konu sinni í ferð um Vestur- og Norðurland, vegna afstaðinna Charterhátíða á Ísafirði og Siglufirði.

Þá stóð einnig kona umdæmisstjóra upp og minntist meðlima Rótarýklúbbs Reykjavíkur og kvenna þeirra og þakkaði móttök urnar með nokkrum vel völdum orðum. Við kaffið minntist Knud Zimsen Rotary International og rótarýfélagsskaparins í heild, á eftir var sungið og klappað.

Að máltíð lokinni var farið í bílana og ekið um Grafning að Ljósafossi, þar sýndi Steingrímur Jónsson aflstöðina, og veitti hann að því loknu öllum hressingu að gömlum íslenzkum sveitasið-gaf hestaskálina - og þakkaði umdæmisstjóri góðan viðurgerning.

Þá var haldið áfram að Þrastalundi og þar snæddur kvöldverður, ræðuhöld og gleðskapur, sem venja er til, og síðan haldið um Hellisheiði heim til Reykjavíkur, nema hvað nokkurir félagar og umdæmisstjórinn með konum sínum gistu Þrastalund um nóttina. Þeir er eftir urðu gengu um skóginn til miðnættis í alveg himnesku veðri, logn, sólskin, hiti og skemmtileg samvera.

Næsta morgun 12/7 sama blíðviðrið, komu þá um 10 leytið bílarnir aftur frá Reykjavík, og var þá haldið austur á bóginn til Geysis, og meðan þar var beðið eftir gosi, var snætt brauð og smjör og annað snarl úti í guðsgrænni náttúrunni í yndisfögru veðri. Gosið varð því miður með allra minnsta móti, aðeins til að sýna hvað undir bjó. Þaðan var haldið til Gullfoss, og sýndi hann sig í allri sinni dýrð, krýndur hinum fegursta regnboga. Þar var kaffi drukkið úti, og svo aftur snúið í Þrastalund. Þar snæddur kvöldverður, ræður, söngur, og stutt dansað á eftir, síðan ekið til Reykjavíkur, en stanzað á leiðinni milli Elliðaánna, hvar allir kvöddu st, áður en hverjum var ekið heim að sínum húsdyrum.

Allt í allt hið prýðilegasta ferðalag, með ágætis fólki.

Sumarið 1940 fóru félagar tvær skemmtiferðir með konum sínum, aðra að K1eifarvatni 24. júlí og hina til Þingvalla 25. september.

Um fyrri ferðina segir svo m. a.:

Farið var um Hafnarfjörð. Var ekið upp að klaustri Karmelitasystranna. sem er í smíðum á Jófríðarstaðatúni, og sýndi Einar Erlendsson bygginguna, sem þó er aðeins hluti af því, sem verða á síðar.

Þaðan var svo lagt af stað aftur sem leið liggur að Kleifarvatni, staðnæmzt þar og snarl etið úti í guðsgrænni náttúrunni, í því allra bezta veðri. Þar hélt Guðmundur Finnbogason minni konunnar með nokkrum vel völdum orðum, sem hans er vandi, þá Jón Halldórsson minni dætranna, skemmtilega sem hans er von og vísa, sem aldrei hefur konu þekkta.

Laufey Vilhjálmsdóttir þakkaði hvora-tveggja ræðuna vel og virðulega.

Þá var farið til skips, allir í senn, yfir vatnið endilangt - 1/2 stundar stím - , þaðan svo gengið að hverunum við suðurenda vatnsins ofan Krýsuvíkur, til baka aftur sömu leið í blanka logni. Þá drukkið kaffi með kökum í veitingaskálanum, og síðan hver keyrður heim til sín, allt í allt prýðistúr.

Sumarið 1941 var farin ein ferð, 9. júlí, haldið fyrst austur í Þrastalund. þar sem snæddur var "hádegisverður í grasi gróinni laut, það þótti í frásögur færandi. að hvar sem klúbburinn fór, var sól og sumar, enda þótt rigndi eldi og brennisteini allt í kring. Í Reykjavík var slík rigning kringum kl. 11, að helzt líktist loftárás. "

Frá Þrastalundi var ekið norður með austanverðu Þingvallavatni til Þingvalla, þar sem neytt var kvöldverðar og setið í góðum fagnaði fram til kl. 22.30, þegar haldið var til Reykjavíkur eftir minnisstæðan dag.

Haustið 1942, 9. september, var farin berjaferð austur í Grafning. Staldrað var fyrst við í sumarbústað Sigurðar Jónssonar, en síðan haldið til Hagavíkur. til bústaðar Helga Tómassonar. Eftir að menn höfðu snætt nesti sitt og notið jafnframt gestrisni húsráðenda. var lotið að berjum í landi þeirra í hinu bezta veðri. Síðla dags var ekið frá Hagavík til Skíðaskálans í Hveradölum, þar sem setzt var að kvöldverði og góðum fagnaði. Þeir, sem héldu ræðu auk forseta, Hallgríms Fr. Hallgrímssonar, voru: Ásgeir Ásgeirsson minni kvenna og Árni Friðriksson minni Íslands, en frú Lára Árnadóttir þakkaði fyrir hönd gestanna. Ennfremur töluðu Ludvig Storr og Carl Olsen.

Þessir ferða þættir verða nú ekki raktir lengra, en ljóst er, að ferðinni hefur a. m. k. framan af árum langoftast verið heitið til Þingvalla og þá iðulega með viðkomu í Skíðaskálanum í Hveradölum á leiðinni heim.

Gamlir félagar minnast þessara fyrstu ferða með sérstakri gleði. Þá var umferð um þjóðvegi minni en nú er orðið, svo að fyrir kom, að stanzað var dágóða stund á miðjum vegi án þess að nokkurn bæri að. Í eitt slíkt skipti var heilmikill kútur, nær tveggja manna tak, settur á sjálfan þjóðveginn og ferðafólkið síðan kvatt saman úr bílunum, því að þá fóru menn oft á eigin bílum, til að fá sér hressingu.

Annað atvik, eftirminnilegt, er Benedikt Gröndal hefur sagt frá, gerðist í einni berjaferðinni í Grafning, en þar hafði verið áð um hríð skammt frá sumarbústað Helga Tómassonar, áður en haldið var þangað heim til kaffidrykkju í boði þeirra hjónanna. Voru menn orðnir allkátir sumir, og ekki sízt tveir félagar, er á undan fóru, en hinir komu í humátt á eftir. Svo hittist á, að í landi Helga voru tveir vistmenn frá Kleppi að gróðursetja tré, og gáfu þeir, er síðar fóru, sig á tal við þá. Höfðu gróðursetningarmenn séð félagana, er fyrstir fóru, og kom nú í ljós, að þeir héldu þá vera úr sínum hópi. Höfðu menn gaman af að segja Helga frá þessu, þegar heim í bústaðinn var komið.

Afmæli

Í fundargerðum kemur öðru hverju fram, að beint er afmælisóskum til einstakra félagsmanna. Þannig óskaði forseti Guðmundi Ásbjörnssyni til hamingju á fundi 11. september 1935, en þann dag varð hann 55 ára.

Á fundi hálfum mánuði síðar, 25. september, óskaði hann Helga Tómassyni til hamingju með 39 ára afmæli hans þann dag, svo að ekki hafa menn alltaf bundið óskirnar við afmæli, er bar upp á heilan eða hálfan tug.

Stundum sóttu menn afmælisbarnið heim, ef það kaus að vera heima á þeim degi. Í fundargerð 21. ágúst segir allkostulega frá 65 ára afmæli Knuds Zimsens:

Þá tilkynnti forseti [Ragnar Blöndal], að Knud Zimsen hefði falið sig á afmælisdaginn og síðan farið úr bænum og lagt bann við að láta vita, hvar hann væri. Árás á afmælisdaginn og raunar síðar þess vegna ógerleg. (Bjarni Asgeirsson: "Hvað eru afmæli lengi að fyrnast?" Forseti: "Stórafmæli fyrnast ekki.")

Í fundargerðinni 28. ágúst segir svo: Þá óskaði forseti Knud Zimsen til hamingju með 65 ára afmælið 17. sl., en sem áður getur í fundargerð, faldi hann sig úti á landi og var ófinnanlegur þá, en nú komst hann ekki hjá þessu, og var honum afhent flaggstöng klúbbsins með fána og áletrun, bæði á fæti og flaggi og á silfurplötu neðan á fætinum áletruð nöfn allra félaganna. Lófaklapp og ferfalt húrra. Zimsen þakkaði innvirðulegast.