Ingimundur Sigfússon félagi okkar er látinn
Góðir félagar, okkur hefur borist sú sorgarfrétt að Ingimundur félagi okkar er látinn. Hann gerðirst félagi í RR 26.júní 1991. Blessuð sé minning hans.
Ingimundur Sigfússon, fyrrverandi forstjóri Heklu og fyrrverandi sendiherra, lést á líknardeild Landspítalans í fyrradag, 80 ára að aldri.
Ingimundur fæddist í Reykjavík 13. janúar 1938 og ólst þar upp. Foreldrar Ingimundar voru Rannveig Ingimundardóttir og Sigfús Bergmann Bjarnason, stofnandi og forstjóri Heklu hf.
Ingimundur gekk í Melaskóla, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og síðan í Verslunarskóla Íslands, og útskrifaðist þaðan sem stúdent 1959. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1967.
Ingimundur hóf störf hjá Heklu hf. að loknu lagaprófi og varð forstjóri Heklu hf. við fráfall föður síns haustið 1967 og gegndi því starfi til ársloka 1990.
Ingimundur var stjórnarformaður Reykjaprents 1967-85, stjórnarformaður Heklu hf. 1990-94, stjórnarformaður Stöðvar 2 1993-94, sendiherra Íslands í Þýskalandi 1995-2001 og sendiherra Íslands í Japan 2001-2004.
Ingimundur var formaður Listahátíðar 2004-2010, stjórnarformaður Stofnunar Sigurðar Nordals 2005-2010, formaður þjóðleikhúsráðs 2007-2014, stjórnarmaður Watanabe-styrktarsjóðsins frá 2008 og formaður Íslandsdeildar Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation frá 2006.
Ingimundur og eftirlifandi eiginkona hans, Valgerður Valsdóttir, hlutu landgræðsluverðlaunin 2016 fyrir landgræðslustörf, en þau græddu landsvæði og unnu að skógrækt að Þingeyrum og Sigríðarstöðum í Húnavatnssýslum. Ingimundur var sæmdur heiðursorðu Japanskeisara 2016 og heiðursorðu frá þýska ríkinu 2001. Hann var aðalræðismaður Spánar á Íslandi 1983-94.
Synir Ingimundar og Valgerðar eru Valur, prófessor í sagnfræði við HÍ, og Sigfús Bergmann, framkvæmdastjóri eignarhaldsfélagsins Hofs ehf.