Eiður Svanberg Guðnason er látinn.
Varð bráðkvaddur á heimili sínu mánudaginn 30.janúar
Okkur bárust sorgarfréttir á miðvikudag um að félagi okkar Eiður Svanberg Guðnason væri látinn. Fallinn er frá góður maður og félagi okkar til margra ára. Ég sendi kveðju frá okkur til fjölskyldunnar og þau sendu kveðju til baka til félaga í klúbbnum. Ég bauð fram alla þá aðstoð sem við gætum hugsanlega veitt. Blessuð sé minning Eiðs
Eiður var fæddur í Reykjavík 7. nóvember 1939. Foreldrar hans voru Guðni Guðmundsson (fæddur 14. júní 1904, dáinn 17. nóvember 1947) verkamaður þar og kona hans Þóranna Lilja Guðjónsdóttir (fædd 4. júní 1904, dáin 17. mars 1970) húsmóðir. Maki Eiðs frá 16. mars 1963 var Eygló Helga Haraldsdóttir (fædd 19. janúar 1942, dáin 13. maí 2015) píanókennari. Foreldrar hennar voru Haraldur Gíslason og kona hans Þórunn Guðmundsdóttir. Börn Eiðs og Eyglóar eru Helga Þóra (1963), Þórunn Svanhildur (1969) og Haraldur Guðni (1972).
Eiður lauk stúdentsprófi frá MR 1959. Hann stundaði nám í stjórnmálafræði við Delaware-háskóla í Bandaríkjunum 1960–1961. Eiður lauk BA-próf í ensku og enskum bókmenntum frá HÍ 1967. Hann varð löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi úr ensku 1962.
Eiður starfaði sem blaðamaður og síðar ritstjórnarfulltrúi við Alþýðublaðið 1962–1967. Hann var yfirþýðandi, fréttamaður og fulltrúi dagskrárstjóra frétta- og fræðsludeildar Sjónvarps frá 1967 til 1. desember 1978. Eiður var 30. apríl 1991 skipaður umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda og gengdi þeim störfum til 14. júní 1993. Hann var sendiherra frá 1993–2009.
Eiður var í flokksstjórn Alþýðuflokksins 1964–1969 og 1978–1993. Hann var formaður Blaðamannafélags Íslands 1971–1972 og hann sat í útvarpsráði 1978–1987. Eiður átti sæti í Norðurlandaráði 1978–1980 og 1982–1990, og var formaður Íslandsdeildar ráðsins 1978–1979 og jafnframt í forsætisnefnd þess. Árið 1984 var hann kosinn í samstarfsnefnd með Færeyingum og Grænlendingum um sameiginleg hagsmunamál. Eiður sat í Vestnorræna þingmannaráðinu 1985–1986. Hann var fulltrúi Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1980 og fulltrúi Íslands á þingi Evrópuráðsins 1989–1991. Eiður var formaður stjórnar Sementsverksmiðju ríkisins 1989–1991. Hann sat í Evrópustefnunefnd 1989–1991 og í þingmannanefnd EFTA 1993.
Eiður var alþingismaður Vesturlands 1978–1983 og 1987–1993, landskjörinn alþingismaður (Vesturlands) 1983–1987 fyrir Alþýðuflokkinn.
Eiður var umhverfisráðherra 1991–1993 og formaður þingflokks Alþýðuflokksins 1983–1991.
Eiður birti margar greinar um íslensk málefni í innlendum og erlendum tímaritum og blöðum og samdi og þýddi útvarpsefni. Hann vann einnig með öðrum að gerð kvikmynda. Eiður hlaut verðlaun úr Móðurmálssjóði Björns Jónssonar ritstjóra 1974.