Stórtónleikar Rótarý voru þann 8.janúar í Hörpunni
Félagi okkar, Sigríður Snævarr, sendiherra flutti ávarp á tónleikunum.
Svo mörg voru þau orð, því eins og okkar kæri Rótarýfélagi Jónas Ingimundarson orðar það: Tónlistin verður til þegar orðunum sleppir.
Kæra Vigdís, umdæmisstjóri, kæru Rótarýfélagar og gestir
Gleðilega hátíð og gleðilegt ár.
Mikið hlakka ég til að þess augnabliks þegar fyrstu tónarnir munu hljóma hér í tónlistarveislunni á eftir. Mitt hlutverk hér er að stilla saman strengina og leiða okkur gestina inn í upplifunina með því að hugsa upphátt um það mikla og framsækna afl sem tónlistin er.
La musica,- Allegro ma non troppo- svo snar þáttur í lífi okkar allra, - við þurfum bara svona la-la tónheyrn, tilfinningu fyrir takti og svolítið músíkalitet, eins og Stefán Edelstein kallaði það í Barnamúsíkskólanum. Hann sagði við okkur: þið hafið öll músíkalítet. Við vorum lítil, bara sex ára, kunnum engin orð í útlensku, en það hlaut að vera gott að vera með músíkalitét, fyrst Stefán brosti svo fallega þegar hann sagði þetta orð. Pínulítil áttuðum við okkur á því að nóg pláss er fyrir alla í höll tónlistarinnar. Við gætum ekki öll verið á sviðinu, en við gætum öll notið tónlistarinnar, orðið bestu áheyrendurnir í salnum.
Þessi bernskuminning leiðir mig áfram og til enn yngri barna, því við sjáum hvernig ómálga smábörn, bregðast við tónum með brosi og svolitlum danshreyfingum, því hljómfallið er okkur eðlislægt og vísindamenn hafa aldursgreint elstu hljóðfærin sem fundist hafa: Þau eru hvorki meira né minna en 35 þúsund ára gömul.
Og hvaða hljóðfæri voru það? Fyrir tæpum áratug fannst flauta með fimm götum í Hohle Fels steinaldarhellinum í Suður-Þýskalandi. Flautan sem er næstum heil er um 30 cm á lengd. Hún er unnin úr holu vængjabeini af ránfugli og með greinilegu munnstykki. Endurgerð hennar sýndi að vel var hægt að leika á hana. Vísindamenn telja smíði flautunnar mikið afrek hagleikssmiðs, unnin með verkfærum úr steini- eins og vera bar á Steinöld- og flautan fannst innan um brot af öðrum flautum gerðum úr loðfílsbeini. Nú velta vísindamenn upp þeirri kenningu að uppgötvun hljóðfæranna hafi verið lykilþáttur í því að homo sapiens náði yfirburðum yfir homo neanderthalis. Hið framsækna afl tónlistarinnar var komið til sögunnar.
Saga tónlistarinnar eftir Árna Heimi Ingólfsson kom út á síðasta ári og er fyrsta yfirlitsritið yfir tónlistarsögu eftir íslenskan höfund. Þar segir Árni Heimir að rauður þráður í gegnum bókina sé að skoða tvær birtingamyndir tónlistar, annars vegar sem farveg listrænnar sköpunar og hins vegar sem spegil samtíma og samfélaga.
Skoðum hið síðara og tökum dæmi af sönglist kirkjunnar. Kirkjufeðurnir áttuðu sig snemma á því að hið talaða orð náði bara til þeirra sem sátu á fremstu bekkjum í stórum kirkjum. Söfnuðurinn þurfti að upplifa messuna saman, allir sem einn, orðin að snerta hjartað og tilfinningarnar. Fallegi sálmurinn okkar: Kirkjan ómar öll, orðar þessa hugsun í þremur orðum. Með því að syngja ritningatextann í stað þess að mæla hann af munni fram, náði hið heilaga orð til allra í ómmiklum kirkjum.
Nýjasta dæmið um afl tónanna og taktsins er bara eins mánðar gamalt, nánar tiltekið frá 10 desember s.l. en þá voru Nóbelsverðlaunin veitt í Stokkhólmi með tilheyrandi athöfn og veislu. Þau undur og stórmerki gerðust að sænska Nóbelsnefndin veitti Bob Dylan bókmenntaverðlaunin. Hann varð svo hissa að ekki náðist í hann í marga daga og sagði síðar að hann hefði fremur átt von á að komast til tunglsins en að fá Nóbelinn.
Hvernig í ósköpunum gat flytjandi þjóðlagatónlistar fengið þessi verðlaun? Var Bob Dylan ekki bara sjálfmenntaður laga- og textasmiður og hvað var hann að gera innan um ráðandi öfl í vísindum og bókmenntum?
Menn höfðu oft orðið hissa á árinu 2016 sem hafði gefið af sér Brexit og Trump og nú í árslok Dylan: helgimyndabrjótinn, trúbadorinn, aldarspegil Kalda stríðsins og mótmælasöngvarann sem kom blóðinu á hreyfingu í heilu kynslóðunum.
Enn kem ég að rauða þræðinum í minni ræðu. Tónlistaraflið hafði brotist inn í Nóbelinn, brotið af sér hlekki og skilin milli þess sem stundum er kallað hámenning og poppkúltúr.
En tilhugsunin um Dylan í kjólfötum á sviðinu að taka við Nóbelsverðlaunum var sérstök.
En bíðið augnablik. Nóbelinn er ekki veittur fyrir tónlist, enda fékk Bob Dylan bókmenntaverðlaunin. Í fljótu bragði virtist þetta gegn hefðinni, stílbrot. En menn voru bara alltof nærsýnir, sáu bara hefð síðustu alda. Í raun var Bob Dylan sá sem fylgdi eldgömlu hefðinni, því að hefðin að mæla ljóð af munni fram eða skrá á bók er miklu yngri en sú langa hefð að syngja ljóðið við undirleik lýrunnar. Orðið lýrik dregur einmitt nafn sitt af hljóðfærinu lýra og lýrik er orðið fyrir ljóð í mörgum tungumálum. Lýran hans Dylan var munnharpa og gítar og rám röddin flutti ljóðin á öldum ljósvakans, á útvarpsstöðvum síbyljunnar. Í stað ljóðabóka sem enginn las í kringum hann, skellti hann ljóðunum inn í söluvænar umbúðir. Ljóðin hans voru jafnfjarlæg einföldum texta Síbyljunnar og gamaldags byssupúður er frá dýnamítinu hans Nóbels. Bob Dylan var vissulega sjálflærður tónlistarmaður, lærði af útvarpinu, en sem ljóðskáld var hann í beinum tengslum við klassískar bókmenntir eins og kom fram í þakkarræðunni á Nóbelshátíðinni. Hann hafði lesið bækur fjölmargra Nóbelshöfunda, smekkmaður á ritað mál - lá í klassískum bókmenntum frá blautu barnsbeini. Hann nefndi ekki Dylan Thomas sérstaklega í þakkarræðunni, þurfti þess ekki með. Sú staðreynd að hann notaði ekki eigið nafn, Bob Zimmermann, sem listamannanafn, heldur nafnið Bob Dylan sagði alla söguna um þá hvatningu sem ljóð Dylan Thomas voru honum.
Eins og homo sapiens, kirkjufeðurnir og trúbadúrar vildi hann snerta hjörtun, koma blóðinu á Hvernig gat það verið? tað rkki la söguna um þmermann, sem listamannanafn, heldur Dylan sagði þs,og Hemingway. Hann nefndi ekki hreyfingu, vera breytingaafl.
Töfrar tónlistarinnar eru besta dreifikerfið, um leið og söngvarnir hans Bob Dylan komust inn í útvarpsstöðvarnar náði ljóðið inn í hjarta fólks sem aldrei hefði ella komist í snertingu við vandað skáldverk.
Svo mörg voru þau orð, því eins og okkar kæri Rótarýfélagi Jónas Ingimundarson orðar það: Tónlistin verður til þegar orðunum sleppir.