Fréttir

29.6.2016

Skýrsla fráfarandi stjórnar

Skýrsla fráfarandi stjórnar lögð fram á starfsskilafundi

Ágústa Guðmundsdóttir forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur 2015-2016 lagði fram eftirfarandi skýrslu starfsársins á skilafundi 29. júní.

Ágústa Guðmundsdóttir forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur 2015-2016 lagði fram eftirfarandi skýrslu starfsársins á skilafundi 29. júní.

Skýrsla stjórnar Rótarýklúbbs Reykjavíkur 2015-2016

 

Flutt af Ágústu Guðmundsdóttur forseta klúbbsins 29. júní 2016

 

Haldnir voru 46 reglulegir fundir auk starfsskilafundar. Einnig var boðið upp á ýmsa viðburði. Fundað var í Kötlusal á Hótel Sögu í hádeginu á miðvikudögum. Nokkrir fundir voru haldnir í Grillinu.

 

Stjórn Rótarýklúbbs Reykjavíkur á starfsárinu 2015-2016

Stjórnina skipuðu: Ágústa Guðmundsdóttir, forseti; Jón Karl Ólafsson, viðtakandi forseti; Harpa Þórsdóttir, ritari; Kjartan Óskarsson, gjaldkeri og Ragnheiður Haraldsdóttir, stallari.

Nefndir

Menningar og fræðslunefnd: Harpa Þórsdóttir, formaður, Hrund Rúdolfsdóttir og Ólafur Stefánsson. Alþjóðanefnd: Kjartan Óskarsson, formaður, Egill B. Hreinsson og Guðmundur G. Haraldsson. Þjóðmálanefnd: Ragnheiður Haraldsdóttir, formaður, Finnur Oddsson og Már Guðmundsson. Starfsþjónustunefnd: Jón Karl Ólafsson, formaður, Dagný Halldórsdóttir og Orri Hauksson. Félaga- og starfsgreinanefnd: Jón Ásbergsson, formaður, Guðmundur G. Þórarinsson, Magnús Jóhannesson, Eiður Guðnason, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Benedikt Jóhannesson og Jóhann Sigurjónsson.

 

11 stjórnarfundir voru haldnir á árinu ýmist á heimili forseta að Grenimel 46 eða í Kötlusal Hótel Sögu. Mörg mál voru afgreidd með tölvupóstsamskiptum og í gegnum síma.

 

Markmið stjórnar

Að örva fundasókn með áhugaverðum erindum og skemmtilegum, fjölbreytilegum og fróðlegum viðburðum. Leggja rækt við þá sem mæta. Auka þátt tónlistar á fundum og skemmtunum. Taka inn 4 félaga á árinu. Standa undir nafni sem eftirsóknarverður og skemmtilegur Rótarýklúbbur. Efla vinatengsl og þjónustuhugsjónina. Klúbburinn er griðastaður fyrir félaga og við njótum velvildar hvers annars. Við erum trú Rótarýhugsjóninni sem mannúðarsamtök, leggjum okkur fram í baráttunni fyrir bættu lífi með réttsýni og heiðarleika að leiðarljósi. Við viljum auka framlög í Alþjóða Rótarýsjóðinn, sem veitir styrki til hjálpar- og mannúðarmála. Auk þess viljum við sinna samfélagsverkefnum eftir bestu getu og auka sýnileika klúbbsins út á við m.a. með aukinni netvæðingu og sérstökum atburðum.

 

Rótarýklúbbur Reykjavíkur er eftirsóttur og á ekki við sama vandamál að stríða og Rótarýklúbbar á heimsvísu, þ.e. fækkun félagsmanna. Það er mikil eftirspurn eftir því að gerast félagi í okkar klúbbi. Okkur hefur tekist vel að velja inn í klúbbinn og gera hann eftirsóknaverðan. Höldum áfram á þeirri braut.

 

Staða klúbbsins

Í upphafi starfsársins voru félagar 121 og 7 heiðursfélagar. Skiptingin var þannig að 29 félagar voru konur og 97 karlar en meðalaldur félaga var 67 ár.

 

Fjórir nýir félagar voru teknir inn á starfsárinu:

Í upphafi starfsárs var fjöldi félaga 121 og 7 heiðursfélagar. Í lok starfsársins var fjöldinn 119 og 7 heiðursfélagar. Skiptingin er 97 karlar og 29 konur.

 

Fjórir nýir félagar voru teknir inn í klúbbinn á starfsárinu:

Kristinn Ágúst Friðfinnsson, 2. september 2015 (fluttist frá Rótarýklúbbi Selfoss).

Starfsgrein: Prestur og sáttamiðlari.

Jón Gunnar Bergs, 14. október 2015. Starfsgrein: Vélaverkfræði og tölvunarfræði.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, 21. október 2015. Starfsgrein: Bókmenntafræði.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, 27. janúar 2016. Starfsgrein; Fiskvinnsla.

Illugi Gunnarsson gekk til liðs við klúbbinn á ný þann 10. febrúar 2016.

 

Tveir félagar létust á árinu:

Þór Vilhjálmsson 20. október 2015

Kristinn Björnsson 31. október 2015.

 

Fjórir félagar sögðu sig úr klúbbnum:

Margrét Kr. Sigurðardóttir 1. desember 2015.

Páll Flygenring 6. desember 2015.

Tanya Zharov 1. júní 2016.

Ólafur Örn Arnarson 1. júní 2016.

 

Mesta fundarsókn á starfsárinu var á 18. fundi 25. nóvember 2015, en þá mættu 67 félagar eða 69.1%. Minnsta fundarsókn var á 22. fundi 30. desember 2015 eða á Niðjafundi en þá mættu 22 félagar eða 25.3%. Á spilakvöldi mættu aðeins 6 félagar eða 8%.

 

Ágústa Guðmundsdóttir var með 100% mætingu allt starfsárið. Kristinn Ágúst Friðfinnsson var með 100% mætingu fyrri hluta starfsársins. Fundasókn var heldur meiri (2%) á þessu starfsári en því síðasta. 

 

Fjöldi gesta á árinu var 199.

Rótarýgestir voru 33.

Aðrir gestir voru 166.

Meðaltal gesta á fundi: 4

 

Paul Harris félagar

Paul Harris er æðsta viðurkenning sem veitt er af Rótarýhreyfingunni. Hún er veitt í þaklætisskyni fyrir mikinn og afgerandi stuðning við að bæta skilning og vingjarnleg samskipt á milli fólks í heiminum. Eiður Guðnason hlaut Paul Harris viðurkenningu 5. ágúst 2015 og Jóhann Sigurjónsson hlaut Paul Harris (PH) viðurkenningu 4. maí 2016.

 

Ársskýrsla og fjárhagsáætlun 26. ágúst

Sveinbjörn Björnsson fráfarandi gjaldkeri lagði fram ársskýrslu  2014-2015 og Kjartan Óskarsson gerði grein fyrir fjárhagsáætlun 2015-2016. Tillaga Kjartans um hækkun félagsgjalda á starfsárinu 2015-2016 var samþykkt.

 

Erindi

Fjölmargir aðilar lögðu okkur lið með frábærum, sérlega áhugaverðum og vel fluttum erindum um margvísleg málefni. Alls voru 46 erindi flutt á starfsárinu, flest af fólki utan klúbbsins en nokkrir Rótarýfélagar fluttu starfsgreinaerindi.

 

Fundur með Magnúsi B. Jónssyni umdæmisstjóra 9. september

Rædd voru málefni sem umdæmisstjóri leggur áherslu á svo sem fjölgun félaga, stofnun morgunverðarklúbbs í Reykjavík, Rótarýdagurinn 27. febrúar nk. og námskeið fyrir vefstjóra.

 

70. Umdæmisþing Rótarý var haldið í Borgarnesi 9. -10. október 2015

Fulltrúar Rótarýklúbbs Reykjavíkur á þinginu voru þau Þráinn Þorvaldsson og Harpa Þórsdóttir.

 

Stjórn starfsársins 2016-2017

Tilnefningar fóru fram á fundi 18. nóvember og niðurstöður voru kynntar á fundi 3. desember.  

 

Stjórnina skipa:

Jón Karl Ólafsson, forseti

Anna Birna Jensdóttir, viðtakandi forseti

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, ritari

Sigríður Anna Guðjónsdóttir, gjaldkeri

Egill B. Hreinsson, stallari

 

 

Ferðir og skemmtanir á starfsárinu 2015-2016

 

Berjaferð 21. ágúst

Stallari, Ragnheiður Haraldsdóttir, skipulagði og stjórnaði ferðinni og sagði sögur á leiðinni við mjög góðar undirtektir. Lagt var af stað kl. 12:30 og stoppað í húsi Skógræktarfélagsins í Heiðmörk og boðið upp á hressingu. Þaðan var  ekið að Austur-Meðalholti í Flóa og Íslenski bærinn skoðaður. Þór Magnússon sá um að fræða félaga um það helsta sem bar fyrir augu. Þá var ekið í Skálholt og  kirkjan skoðuð undir leiðsögn vígslubiskups, Kristjáns Vals Ingólfssonar, en að því loknu var boðið upp á kaffiveitingar. Því næst var farið í Írafossvirkjun þar sem Ragna Árnadóttir leiddi okkur um virkjunina. Þjóðgarðurinn að Þingvöllum var heimsóttur þar sem Ólafur Haraldsson staðarhaldari fræddi okkur um staðinn og framtíðaruppbyggingu hans. Þá var ekið í bústað stallara Ragnheiðar Haraldsdóttur og eiginmanns hennar, Hallgríms Guðjónssonar, þar sem boðið var upp á glæsilegar veitingar. Sigríður Anna Guðjónsdóttur og eiginmaður hennar Ragnar Marteinsson fluttu tónlist. Að síðustu var snæddur kvöldverður á Hótel Íon við Nesjavallarvirkjun. Forseti Ágústa Guðmundsdóttir bauð gesti velkomna, þakkaði stallara og eiginmanni hennar fyrir glæsilegar móttökur í sumarbústað þeirra.  Þá var einnig boðið var upp á skemmtiatriði undir borðhaldi, sem Harpa Þórsdóttir ritari stjórnaði.

 

Jeppaferð 5. september. Farið var að Keldum og svo austur Langvíuhraun eftir vegi F210 að Rangárbotnum. Á leiðinni fræddi Guðrún Nordal félaga um Njáluslóðir. Kvöldverður var snæddur hjá félaga okkar Friðriki Pálssyni á Hótel Rangá. Samtals 11 manns, 8 gestir og 8 jeppar.

 

60 ára afmælistónleikar Diddúar 13. september. Margir félagar mættu í Hörpu til samfagna afmælisbarninu og hlýða á okkar frábæru söngkonu og félaga.

 

Skákmót Rótarý sem halda átti 20. október undir stjórn Benedikts Jóhannessonar og Friðriks Ólafssonar var fellt niður vegna dræmrar þátttöku.

 

Árshátíð í Björtuloftum Hörpu 24. október

Árshátíðin var haldin í Björtuloftum í Hörpu þar sem snæddur var ljúffengur kvöldverður og síðan farið að sjá óperuna Rakarinn frá Sevilla. Forseti bauð gesti velkomna. Að því loknu kynnti félagi okkar Sveinn Einarsson óperu kvöldsins og fjallaði um aðrar óperusýningar á Íslandi. Matseðillinn í Björtuloftum samanstóð af snittum í forrétt, lambafile í aðalrétt og heimalöguðu konfekti með kaffi í eftirrétt. Eftir vel heppnaða óperusýningu Rakarans frá Sevilla komu félagar saman í Björtuloftum og skemmtu sér til kl. 11:30.

 

Aðventukvöld 16. desember

Rótarýfélagar komu saman í dómkirkjunni kl. 18. Hjálmar Jónsson félagi okkar og dómkirkjuprestur stýrði athöfninni að vanda. Félagar og vinir Kjartan Óskarsson, Guðmundur G. Haraldsson og Þorkell Jóelsson fluttu fagra tónlist og Diddú söng við undirleik þeirra. Leynigestur Hjálmars að þessu sinni var félagi okkar Jón Kristjánsson, sem flutti fallega ræðu um æskuár sín við góðar undirtektir félaga og gesta. Síðan var gengið til kvöldverðar í Iðnó. Forseti Ágústa Guðmundsdóttir bauð gesti velkomna og flutti ávarp. Félagar undir stjórn Jónasar Ingimundar fluttu nokkur lög við söng Diddúar. Þá kynnti stallari Ragnheiður Haraldsdóttir leynigest kvöldsins, Braga Valdimar Skúlason sem fjallaði um Grýlu við góðar undirtektir. Jón Karl Ólafsson, viðtakandi forseti lék síðan nokkur jólalög á píanó af sinni alkunnu snilld. Fjölmennt var á Aðventukvöldinu en það er eitt vinsælasta skemmtikvöld ársins.

 

Jólakveðjur og konfektkassi til ekkna látinna félaga um miðjan desember

Umsjón höfðu Jón Karl Ólafsson, viðtakandi forseti og Harpa Þórsdóttir, ritari.

 

Niðjafundur 14 ára og yngri 30. desember

Ragnheiður Haraldsdóttir stallari hafði umsjón með þessum viðburði. Jólasveinn mætti á staðinn, boðið var upp á kjúklinga, franskar og salat. Börnin fengu afhenta sælgætispoka. Jón Karl Ólafsson lék jólalög á píanó.

 

Stórtónleikar Rótarý 3. janúar

Tónleikarnir voru haldnir í Norðurljósasal Hörpu. Guðrún Pétursdóttir flutti ávarpsorð og kynnir var Bergþór Pálsson. Magnús Baldvinsson, bassi, söng og Jónas Ingimundarson og Helga Bryndís Magnúsdóttir léku á píanó. Styrki úr Tónlistarsjóði Rótarý hlutu þessu sinn Ásta Kristín Pétursdóttir, víóluleikari og Sigrún Björk Sævarsdóttir, sópran. Sérstakur ráðgjafi og skipuleggjandi tónleikanna í ár eins og alla tíð frá stofnun var Jónas Ingimundarson.

 

Lokaður kvöldfundur 20. janúar

Kvöldfundur um innri málefni Rótarýklúbbs Reykjavíkur þar sem boðið var upp á Þorramat í Kötlusal, Hótel Sögu við nokkuð góðar undirtektir. Ágætlega var mætt á fundinn. Forseti flutti stuttan pistil um það helsta sem hefur verið til umræðu og kom með hugmyndir að umfjöllunarefnum. Í upphafi fundar kynnti forseti klúbbsins, Ágústa Guðmundsdóttir nokkra dagskrárliði og taldi upp önnur mál sem væri áhugavert að

 ræða.

 

Dagskrá

 

1.Forseti segir frá áherslum umdæmisstjóra og ýmsum verkefnum

2.Þráinn Þorvaldsson - segir frá áhrifamiklum fyrirlestri Jónasar Haralz.

3.Mætingar, inntaka nýrra félaga, flutningur milli klúbba og efni erinda.

4.Framlag í Rótarýsjóð.

5.Verkefni til að styrkja.

6.Nýbreytni á starfsárinu var Menningarkvöld sem hluti stjórnar ásamt nokkrum félagsmönnum og öðrum aðilum skipulögðu.

7.Rótarýklúbbur Reykjavíkur með lokaða Facebookgrúppu.

8.Annað sem brennur á félagsmönnum.

 

Forseti skýrði frá samsetningu klúbbsins hvað aldur og kynjaskiptingu varðar:

Fjöldi klúbbfélaga í dag er 121 auk 7 heiðursfélaga. Góður fjöldi. Næstum á við 2 klúbba.

 

Þráinn Þorvaldsson sagði frá erindi Jónasar Haralz sem var öllum er á hlýddu eftirminnilegt. Einnig talaði Þráinn um ýmsar hefðir í klúbbnum. Hann vitnaði til hefðar í tíð Jóns Þorlákssonar þáverandi forseta klúbbsins, þegar tilkynnt var andlát félaga áður en fundur var settur. Árið 2003 var síðast tekin mynd af klúbbfélögum. Þráinn lagði til að það yrði gert á 10-15 ára fresti. Á 100 ára afmæli Rótarý gekk bjalla um heiminn. Þráinn benti á mikilvægi þess að forseti tæki sér góðan tíma í nafnalestur niðja á niðjafundum. Að lokum afhenti hann forseta fyrsta fundarhamar klúbbsins.

 

Forseti var sammála Þráni um að gott væri að halda í hefðir. Það væri m.a. ástæða þess að við værum með  þorramat á þessum fundi því félagar hefðu komið að máli við sig og sérstaklega óskað eftir að hefðinni væri haldið.

 

Eiður Guðnason taldi tímabært að þessi klúbbur eignaðist fána. Hann gar þess að Breiðholt, Kópavogur, R-Görðum ættu fallega, myndarlega fána. Hann hafði athugað með fána á sínum tíma með Guðfinnu Bjarnadóttur. Þau komust að því að systurnar í Karmelklaustri í Hafnarfirði gerðu þá listilega vel. Eiði finnst verðugt verkefni að klúbburinn eignist fallegan klúbbfána. Ágústa forseti tók undir og sagði þetta verkefni yrði sett á verkefnalista.

 

Aðrar athugasemdir

Ragnheiður Haraldsdóttir sagði frá því að stjórnin hefði verið að reyna að meta af hverju fólk mætti ekki. Hugmynd hefur komið að gera könnun. Eru ástæðurnar t.d. efni fyrirlestra?

Þorkell Helgason: Af hverju menn mæta ekki - spyrja um það.

Guðmundur G. Þórarinsson: Mætti illa og minntist á Þorgeir í Gufunesi. Jæja ég kem þá, þó ég komi ekki, þá kem ég samt.

Jóhann Sigurjónsson: Rétt að annir fólks ráða miklu. Góðir fyrirlesarar eru mikilvægir t.d. til að við getum boðið félögum utan klúbba. Rótarýmerkið - ganga með það daglega.  

Þráinn Þorvaldsson: Vitnaði í Guðna rektor: Ég er á móti öllum breytingum, einu breytingar sem ég samþykki eru þær sem eru til fyrra horfs.

 

Harpa Þórsdóttir: Hugmyndir stjórnar um lokaðan Facebookhóp

Harpa kynnti ástæður lokaðs Facebook hóps fyrir klúbbinn og hvað mælti með eða á móti. Það er mikið kappsmál hjá verðandi forseta að koma Facebooksíðu betur í gagnið fyrir klúbbinn. Heimasíðan yrði uppfærð með sömu upplýsingum en þar er t.d. ekki hægt að skoða myndasöfn eða skiptast á skoðunum, eins og t.d. að þakka fyrir góð erindi eða annað það sem brennur á félögum með þeim samskiptamáta sem síðan býður upp á. Almennt tóku félagar vel í að fara af stað með lokaða síðu og svo virtist sem mikill meirihluti þeirra sem voru á fundinum væru á Facebook. Annað efni var ekki tekið fyrir, fundi var slitið kl. 21.

 

Rótarýdagurinn 27. febrúar

Haldið var upp á daginn á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni þar sem félagi okkar Anna Birna Jensdóttir bauð heimilisfólk og gesti velkomna. Félagar okkar  og vinir Diddú, Kjartan Óskarsson og makar þeirra Hrefna Unnur Eggertsdóttir og Þorkell Jóelsson léku við söng Diddúar. Kynnir var Jón Karl Ólafsson viðtakandi forseti. Klúbbnum barst tölvupóstur frá Magnúsi B. Jónssyni, umdæmisstjóra, með þökkum fyrir sérlega vel heppnað atriði á Rótarýdaginn. Frammistaða okkar fólks hefði verið klúbbnum til mikils sóma.

 

 

 

 

 

Spilakvöld með mökum var haldið 16. mars.

Benedikt Jóhannesson félagi okkar hefur séð um þetta ágæta kvöld undanfarin ár við mikinn fögnuð. Þetta skipti var fámennt en góðmennt á spilakvöldinu en aðeins mættu 9 manns.

 

Ferð til Washington DC 6.-10. apríl

Dvalið var á Churchill Hotel í miðborg Washington. Á fimmtudeginum heimsóttu félagar þinghúsið á Capitol Hill. Þar á eftir var farið í heimsókn til sendiherrahjónanna, félaga okkar Geirs Haarde og Ingu Jónu Þórðardóttur. Þau tóku einstaklega vel á móti hópnum og áttum við ógleymanlega kvöldstund með þeim. Á föstudeginum var farið í heimsókn í Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann með hádegisverði í bankanum. Félagi okkar Edda Rós Karlsdóttir og Emil Breki Hreggviðsson önnuðust allan undirbúning heimsóknarinnar sem tókst einstaklega vel. Kvöldið var frjálst. Á laugardeginum var farið til Annapolis og þinghús Maryland fylkis skoðað með leiðsögn um sögulega staði og endað með hádegisverði í United States Naval Academy. Um kvöldið var skemmtilegur sameiginlegur kvöldverður á Restaurant Nora í Washington. Sunnudagurinn var frjáls og notuðu margir tæknifærið og skoðuðu söfn eða gengu um borgina. Ferðin tókst í alla staði frábærlega vel.

 

Menningarkvöld 27. apríl – sagna-, kvæða- og tónlistarkvöld

Forsvarsmenn kvöldsins voru þau Hjálmar Jónsson, Ragnheiður Haraldsdóttir, Jón Kristjánsson og  Kjartan Óskarsson. Skemmtunin fór fram á Grand Hóteli og hófst með kvöldverði en síðan tók við tónlist, sögur og ljóð – allt flutt af klúbbfélögum. Örn Árnason stjórnaði. Tókst þessi nýbreytni með miklum ágætum.


Niðjafundur 15 ára og eldri 25. maí

Forseti fræddi niðja félagsmanna um Rótarýklúbbinn og félagi okkar Finnur Oddsson flutti starfsgreinaerindi. Erindi Finns fjallaði um það “hvernig breytingar í upplýsingatækni krefjast breyttra vinnubragða hjá fyrirtækjum”. Rúmlega tuttugu niðjar og gestir mættu á fundinn.

 

Kveðja og þakkir frá fráfarandi forseta, Ágústu Guðmundsdóttur

Forseti, viðtakandi stjórn og góðir félagar. Ég færi fráfarandi stjórn klúbbsins bestu þakkir fyrir sérlega ánægjulegt samstarf og sömuleiðis ritaranum okkar, Elísabetu Waage. Nefndarfólk á þakkir skildar fyrir afbragðs val á fyrirlesurum og allt sitt mikilvæga framlag í þágu klúbbsins. Ég vil þakka sérstaklega félögum sem hafa tekið virkan þátt í að glæða lífi skemmtanir okkar og samkomur. Góðar kveðjur til allra þeirra frábæru fyrirlesara sem fræddu okkur og glöddu. Síðast en ekki síst þakka ég öllum félögum klúbbsins fyrir að hafa sýnt okkur vinarhug, þolinmæði og skilning. Ég óska nýrri stjórn velfarnaðar á nýju starfsári. Það hefur verið mjög ánægjuleg reynsla fyrir mig að gegna forsetaembætti í þessum skemmtilega Rótarýklúbbi starfsárið 2015-2016.

 

Starfsskilafundur 29. júní

 

Ágústa Guðmundsdóttir, forseti (2015-2016)