Fréttir

13.4.2016

Hörður Þórhallsson frá Stjórnstöð ferðamála

og forseti sagði frá nýafstaðinni ferð klúbbsins til Washington

Hörður Þórhallsson framkvæmdastjóri nýstofnaðrar Stjórnstöðvar ferðamála hélt erindi á fundi Rótarýklúbbs Reykjavíkur í dag. Hörður rakti í máli sínu hver voru tildrög  þess að stofnun samráðsvettvangs þótti nauðsynleg og skýrði frá þeim forgangsmálum til uppbyggingar innviða ferðaþjónustunnar sem unnið er að.

Verkefnið er til fimm ára og lagði Hörður áherslu á það í máli sínu að ýmsar skýrslur og tölulegar upplýsingar sem snerta uppbyggingu og framtíðarsýn ferðaþjónustu á Íslandi gagnist í þessari vinnu en betri samhæfingu ráðuneyta til að framfylgja stefnumótun eða fylgja eftir styrkveitingum til uppbyggingar vantar, svo dæmi sé tekið. Stjórnstöðin fylgir Vegvísi í ferðamálaþjónustu sem kynnt var í upphafi þessa vetrar. Að erindi sínu loknu báru félagar upp ýmsar spurningar og var greinilegt að margir voru á þeirri skoðun að stofna þyrfti sérstakt ráðuneyti ferðamála í ljósi þeirrar hröðu viðbragða sem þyrfti. Greinin er líklega orðin stærsta útflutningsgrein okkar í dag en innviðir íslenskrar ferðaþjónustu standa á veikum grunni og tíminn er knappur til að bregðast við þeim mikla straumi ferðamanna sem við verðum vitni að og mun samkvæmt spám vaxa enn, næstu árin.

Forseti fundarins sagði frá nýafstaðinni ferð klúbbsins til Washington. Klúbbfélagar heimsóttu meðal annars Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þar sem Edda Rós Karlsdóttir félagi okkar og starfsmaður AGS tók á móti hópnum. Sendiherrahjónin í Washington Geir Haarde og Inga Jóna Þórðardóttir buðu félögum í sendiherrabústaðinn, en Geir er félagi klúbbsins. Það voru góðir endurfundir. Sendiherrahjónin sögðu frá helstu verkefnum sendiráðsins og Geir rakti sögu sendiherrabústaðarins og ábúenda. Verðandi forseti, Jón Karl Ólafsson fékk að prófa flygil hússins og klúbbfélagar tóku undir í fjöldasöng við mikla (eigin) gleði.