Fréttir

20.1.2016

Kvöldfundur um innri málefni

Þorramatur á borðum samkvæmt hefð

Árlegur kvöldfundur klúbbsins þar sem innri málefni eru rædd var haldinn í Kötlusal þann 20. janúar. Forseti fór yfir ýmis áherslumál Rótarýhreyfingarinnar og margir tóku til máls.

Á fundinum gerði forseti grein fyrir samsetningu klúbbsins hvað varðar aldur og kynjaskiptingu. Fjöldi klúbbfélaga er 127 þar af 7 heiðursfélagar. Klúbburinn er fjölmennasti Rótarýklúbbur landsins. Stærð hans er á við 2 klúbba. 31 kona er í klúbbnum eða 24,4%  en 75.6% karlar. Meðalaldur klúbbfélaga er 67 ár. Mætingarprósenta síðustu misseri hefur verið á bilinu 55-63%.

Forseti sagði frá þeirri nýbreytni á starfsárinu að í stað fyrirtækjaheimsóknar verður haldið menningarkvöld þann 27. apríl. Að kvöldinu stendur hluti stjórnar ásamt nokkrum félagsmönnum og verður það auglýst þegar nær dregur. Klúbburinn er með opna Facebooksíðu en á fundinum var farið yfir kosti þess að stofna lokaða síðu fyrir klúbbfélaga. Verður hún tekin í gagnið á þessu misseri. Hún mun ekki koma í stað heimasíðunnar, sömu upplýsingar um fundi munu koma fram en vissir kostir fylgja Facebooksíðunni. Á fundinum rifjaði Þráinn Þorvaldsson upp nokkur atvik sem honum eru minnistæð úr starfsemi klúbbsins og gamlar hefðir. Þráinn sagði frá erindi Jónasar Haralz sem var öllum er á hlýddu eftirminnilegt og um vinnslu og útgáfu á erindinu. Eiður Guðnason hvatti stjórnina til að láta útbúa veglegan fána klúbbsins, líkt og þekkist í mörgum klúbbum og minnti á að fyrir rúmum áratug eða svo var tekin hópmynd af klúbbnum sem mætti gjarnan endurtaka. Margt fleira var rætt á fundinum til gagns og gamans og að sjálfsögðu snæddur þorramatur samkvæmt góðri hefð.