Aðventugleðin
Eftir hátíðlega stund í Dómkirkjunni var gengið í Iðnó. Þar var fordrykkur og hófst borðhald á því að Ágústa Guðmundsdóttir forseti klúbbsins ávarpaði félaga og maka og rifjaði upp bernskuminningar og sögur af afa sínum sem var fiðluleikari og spilaði í áratugi á sviðinu í Iðnó. Diddú skemmti okkur félögum sínum með gamanmáli og söng og Jónas Ingimundarson lék undir. Leynigestur kvöldsins var sérstaklega valinn af stallaranum okkar, Ragnheiður Haraldsdóttir. Hún kynnti til leiks þann sem næstur henni kemur í fróðleik og vitneskju um Grýlu. Það var Baggalúturinn Bragi Valdimar Skúlason sem sagði frá hvers hann hefur orðið vísari um Grýlu eftir að hafa grúskað um kerlinguna. Að lokum var sungið, Jón Karl Ólafsson verðandi forseti greip hljóðnema og settist við píanóið og lék jólalög við söng félaganna.