Örn Árnason sviptir hulunni af svikum og prettum
Örn Árnason félagi okkar í Rótarýklúbbi Reykjavíkur svipti hulunni af ástríðu sinni og áhugamáli á 18. fundi starfsársins, þann 25. nóvember. Frá 11 ára aldri hefur hann safnað frímerkjum. Erindi Arnar bar heitið ,,Frímerki. Verðmæti, sagnfræði og svindl.“ Í erindinu rakti hann tilurð hinna þekktu Alþingishátíðarfrímerkja, sem Vinafélag Íslandinga í Austurríki lét gefa út í samvinnu við Alþingishátíðarnefndina.
Frímerkin voru gefin út í janúar 1930 og voru ætluð sem hluti af fjármögnun 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar, Alþingishátíðarinnar árið 1930.
Í fundargerðum nefndarinnar sem Örn hefur rannsakað, má rekja óvænta atburðarrás sem leiddi til þess að frímerkin voru prentuð í stærra upplagi en upphaflega var ráðgert og hvernig menn urðu uppvísir að ýmsum svikum í tengslum við þessa prentun og útgáfu. Klúbbfélagar urðu margs vísari um verðgildi og vísitölu í heimi frímerkjasafnara og margir hugsuðu sér eflaust gott til glóðarinnar þegar þeir gengu út af fundi, að kíkja aðeins í frímerkjasafnið, ef þar skyldi leynast eitthvert fágæti.
Forseti klúbbsins sagði frá Stórtónleikum Rótarý í Hörpu, þann 3. janúar næstkomandi. Félagi okkar, Jónas Ingimundarson, hefur stýrt þessari árlegu dagskrá frá upphafi.