Andri Snær Magnason með erindi
,,Tíminn og leitin að Auðhumlu" var yfirskrift erindis Andra
Andri Snær Magnason rithöfundur var gestur fundarins þann 21. október. Andri flutti erindið ,,Tíminn og leitin að Auðhumlu“. Þar lýsti hann því, þegar hann áttaði sig á því að norræna goðsögnin um Auðhumlu á sér hliðstæðu í indverskri trúarsögu með hinni heilögu kú Kamadhenu í hindúisma. Í erindi sínu fléttaði Andri saman sögu síns fólks og ýmislegs innan samtíðar og fortíðar og lýsti hvernig viska og þekking geta glatast.
Í erindinu færði Andri fram rök sín fyrir því að styrkleiki felist ekki að öllu leyti í sérhæfingu heldur breiðari sýn, aðkomu fleiri, að ákvörðunum sem skipta máli í samfélögum okkar og nánasta umhverfi. Andri lagði áherslu á að óeðlilegt væri að þróun samgöngumannvirkja sem dæmi, snerist um að ,,hlýða“ spám um aukinn fjölda fólks og meiri notkun. Eðlilegra væri í slíkri vinnu, að taka ógnun vegna hlýnunar loftlags með inn í jöfnuna og vinna á þann veg, fyrir komandi kynslóðir.
Forseti klúbbsins skýrði frá dagskrá fyrirhugaðrar Árshátíðar klúbbsins sem haldin verður í Hörpu, laugardaginn 24. október. Hátíðin hefst með borðhaldi í Björtuloftum undir stjórn veislustjóranna Ragnheiðar Haraldsdóttur stallara og verðandi forseta klúbbsins, Jóns Karls Ólafssonar. Sveinn Einarsson félagi okkar mun leiða okkur í allan sannleika um uppfærslu óperunnar ,,Rakarinn frá Sevilla" eftir Rossini því 2. sýning Íslensku óperunnar á þessu verki er hluti dagskrár árshátíðar klúbbsins í ár.
Nýr félagi var tekinn inn í Rótarýklúbb Reykjavíkur. Forseti klúbbsins, Ágústa Guðmundsdóttur bauð velkomna Fríðu Björk Ingvarsdóttur, rektor Listaháskóla Íslands.
Forseti skýrði frá andláti klúbbfélaga okkar, Þórs Vilhjálmssonar dómara, en hans verður hans minnst á næsta fundi.