Fréttir

14.10.2015

Að hanna framtíð

Erindi Höllu Helgadóttur framkvæmdastjóra Hönnunarmiðstöðvar

Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands hélt erindið ,,Að hanna framtíð“ á 12. fundi starfsársins þann 14. október og nýr félagi, Jón G. Bergs var tekinn í klúbbinn

Halla sagði frá helstu áherslum í starfsemi Hönnunarmiðstöðvar en miðstöðin er rekin af 9 félögum hönnuða með samningi við ríkið. HönnunarMars er stærsta verkefnið sem miðstöðin stendur að, þá kynna íslenskir hönnuðir vörur sínar og eru margar þjóðir farnir að horfa á íslenska HönnunarMarsinn sem áhrifamikla leið til að kynna hönnun líðandi stundar. Á HönnunarMars er að auki fyrirlestrardagur með alþjóðlegum fyrirlesurum. Í erindi sínu lagði Halla mikla áherslu á hlutverk hönnuða í þverfaglegu samhengi. Dæmin sýni að komi hönnuðir snemma að borðinu í ýmsum ólíkum verkefnum sé hægt að ná fram betri niðurstöðu;  betri vöru, byggingu, skipulagi eða öðru því sem verið er að vinna að. Þannig þurfi fyrirtæki og stofnanir og ríki og sveitarfélög að nýta á mun markvissari hátt þekkingu og sköpunarfærni hönnuða innan ólíkra greina.

Á fundinum var nýr félagi tekinn í Rótarýklúbb Reykjavíkur, Jón G. Bergs framkvæmdastjóri og er hann boðinn velkominn. Verðandi forseti, Jón Karl Ólafsson gegndi störfum forseta í forföllum sitjandi forseta.