Rafvæðing bílaflotans á Íslandi
Gísli Gíslason, lögfræðingur ræddi rafbílavæðingu á Íslandi, í erindi á fjórða reglulega fundi starfsársins 19. ágúst. Að aka til Akureyrar og greiða innan við 1000 kr fyrir raforkuna væri athyglisverð staðreynd í samanburði við tífalt hærra verð jarðeldsneytis.
Gísli kynnti stöðu mála varðandi rafvæðingu bílaflotans á Íslandi. Hann kvað mikla þjóðarhagsmuni liggja í rafvæðingunni vegna lágs raforkuverðs hér á landi, gnægð og hreinleika raforkunnar og vegna þess hve mikill sparnaður á erlendum gjaldeyri af því skapaðist að knýja bílaflotann á innlendum orkugjafa. Hann gat þess að kostir rafbíla væru auk þess fjölmargir aðrir, svo sem lítið viðhald og takmörkuð slit á vélbúnaði. Gallinn er hins vegar sá að mikill verðmunur er á rafbíl og hefðbundinni bifreið af sambærilegri gerð.
Í dag eru innan við 1000 rafbílar á Íslandi, en þeim fjölgar ört. Að mati Gísla þarf til að markmiðum um verulega hlutdeild rafbíla verði náð, að koma til markviss stefnumörkun stjórnvalda, samkeppnishæft verð á rafbílum m.v. hefðbundna bíla, auðvelt aðgengi að rafmagnshleðslu og það þarf meira úrval bifreiða knúna rafmagni. Að síðustu þarf hugarfarsbreytingu almennings og jákvæðni í garð þessa samgöngukosts.
Nú hefur átt sér stað heilmikil hugarfarsbreyting og úrval rafbíla eykst dag frá degi, þannig að ekki er bara um örfáa fólksbíla að ræða heldur eru nú framleiddir sendibílar og almennings samgöngutæki knúin rafmagni. Hleðslustöðvum fjölgar og verið er að finna nýjar tæknilausnir á að hlaða vagninn. Líftími hleðslubúnaðar hefur verið lengdur og skapaður hefur verið endursölumarkaður fyrir notaðan hleðslubúnað, sem tapað hefur bestu eiginleikum sínum. Í Noregi hafa stjórnvöld sett sér stefnu í þessum efnum, sem m.a. leiddi til afar mikillar eftirspurnar eftir rafbílum á skömmum tíma og að slíku þyrftum við að hyggja. Enn væri hins vegar markaður fyrir rafbíla á heimsvísu lítill miðað við hefðbundna bíla, framleiddir væru nokkrir tugir þúsunda eintaka rafbíla, ekki eiginleg fjöldaframleiðsla í hundruð þúsunda tali, sem væri forsenda þess að veruleg verðlækkun næðist.
Miklar og fjörugar umræður og fjöldi fyrirspurna kom fram í kjölfar erindis Gísla, sem forseti varð að ljúka tímans vegna.