Paul Harris útnefning Eiðs Guðnasonar félaga í RR
Á fyrsta reglulega fundi nýrrar stjórnar þann 5. ágúst s.l. var Eiður Guðnason útnefndur Paul Harris félagi. Viðurkenningin ber nafn stofnanda Rótarý Paul Harris. Með útnefningunni vill stjórn klúbbsins heiðra viðkomandi aðila fyrir mikil og góð störf í þágu félagsstarfsins. Eiður Guðnason varð félagi í RR árið 1998, en hafði áður verið félagi í Rótarýklúbbi Gimle í Osló. Hann var forseti klúbbsins starfsárið 2011-2012.
Það var nýr forseti klúbbsins Ágústa Guðmundsdóttir sem afhenti Eiði viðurkenningaskjal þessu til staðfestingar, en því segir að Paul Harris viðurkenningin sé veitt í þakklætisskyni fyrir mikinn og afgerandi stuðning við að bæta skilning og vingjarnleg samskipti á milli fólks í heiminum. Eiður ávarpaði fundarmenn og þakkaði þann hlýhug klúbbfélaga sem viðurkenningin táknaði.
Útnefningin var tilkynnt til Rotary International, sem útbjó viðurkenningarskjal og sendi barmmerki þessu til staðfestingar. Klúbburinn lætur af þessu tilefni alls 1000 bandaríkjadali renna til Rótarýsjóðsins, sem varið er til námsstyrkja á vegum Rotary Interrnational, Pólíóplús verkefnisins og fleiri góðra mála, eins og tíðkast hefur allt frá árinu 1957.