Magnús Karl Magnússon, prófessor flutti áhugavert erindi á síðasta reglulega fundi starfsársins
“Fjórðungi bregður til fósturs. Af samspili erfða og umhverfis í krabbameinsmyndun.”
Miðvikudaginn 24. júní 2015, á 46. fundi starfsársins og síðasta fundar fyrir stjórnarskipti flutti Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti Læknadeildar við Háskóla Íslands erindið: “Fjórðungi bregður til fósturs. Af samspili erfða og umhverfis í krabbameinsmyndun.” Í erindinu fræddi Magnús Karl félaga Rótarýklúbbs Reykjavíkur um tilurð krabbameina og nýlegar rannsóknir Magnúsar Karls og samstarfsmanna sem þoka okkur nær skilningi og úrlausnum gegn þessum mikla vágesti.
Magnús Karl útskýrði fyrir fundargestum hvernig krabbamein myndast vegna áunnina stökkbreytinga í erfðaefni eðlilegra fruma, oft í þekjuvef ýmissa líffæra. Stofnfrumur líkamans gegna hér mögulega lykilhlutverki. Magnúsi stýrir ásamt Þórarni Guðjónssyni prófessor í líffærafræði, Rannsóknastofu í stofnfrumufræðum sem er hluti af Lífvísindasetri Háskóla Íslands. Rannsóknir Magnúsar beinast m.a. að hlutverki svokallaðra týrósín kínasa gena í stofnfrumum, bæði stofnfrumum í eðlilegum vef og stofnfrumum í krabbameinum. Magnús hefur m.a. beint sjónum sínum að æxlisgenum í hvítblæðum, sérstaklega s.k. týrósín kínasa æxlisgenum. Áhugi manna á þessari fjölskyldu æxlisgena hefur mikið aukist eftir að sýnt var fram á að lyf er geta hindrað þessi æxlisgen hafa veruleg æxlisbælandi áhrif.
Magnús Karl lauk kandidatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1991, námi í almennum lyflækningum árið 1998 frá University of Wisconsin, Madison, og sérnámi í blóðmeinafræði frá NIH í Bethesda, Maryland, árið 2000. Þar starfaði hann síðan við vísindastörf um nokkurra ára skeið.
Fundarmenn fögnuðu vel áhugaverðu erindi Magnúsar Karls, sem var gestur klúbbsins að þessu sinni, en það var Unnur Valdimarsdóttir, sem kynnti fyrirlesara dagsins. Aðrir gestir voru Steinþór Sigurðsson, gestur Sigmundar Guðbjarnarsonar, Hannes Sigurjónsson, gestur Sigurjóns H. Ólafssonar, Laufey Tryggvadóttir, gestur Ragnheiðar Haraldsdóttur, Ragnheiður Helgadóttir, gestur Þórs Vilhjálmssonar, Hólmfríður Einarsdóttir, gestur Birnu Einarsdóttur og Kristín Guðmundsdóttir, gestur Guðmundar Þóroddssonar.