Vígslubiskupinn í Skálholti gestur Rótarýklúbbs Reykjavíkur
Það var vígslubiskupinn í Skálholti, Kristján Valur Ingólfsson, sem flutti erindi um “Skálholt í nútímanum” í Rótarýklúbbi Reykjavíkur á 45. fundi klúbbsins á starfsárinu þann 10. júní s.l.
Kristján Valur sagði að stærsta verkefni Þjóðkirkjunnar framundan væri að standa vörð um kristna trú og trúariðkun í samræmi við hina kristnu kenningu. Þjóðkirkjan þyrfti einnig að bregðast við kröfum og áherslum samtímans, bæði um samfellt uppbyggjandi starf safnaðanna þrátt fyrir fjárhagslegar þrengingar, og um traust og trúverðugleika gagnvart samfélaginu öllu. Þá væri mikilvægt að Þjóðkirkjan lagfærði regluverk sitt til bóta fyrir stjórnsýsluna og tæki mið af ábendingum Ríkisendurskoðunar. Einnig þyrfti þjóðkirkjan að leggja sig enn frekar fram um menntun starfsfólks síns, bæði presta og djákna í samvinnu við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, organista og kórstjóra, með því að styrkja sérmenntun þeirra á hinu kirkjulega og trúarlega sviði. Og ekki síst mætti bæta fræðslu og menntun allra þeirra sem starfa fyrir kirkjuna.
Hafa þyrfti í huga, að fólkið sem um ræðir væri að mestu í sjálfboðinni þjónustu, eins og sóknarnefndarfólk, meðhjálparar, kirkjuverðir, kórsöngvarar og hringjarar. Síðast en ekki síst þyrfti þjóðkirkjan að endurheimta rétta krónutölu sóknargjaldanna miðað við verðlagsþróun svo hún geti sinnt starfi sínu sem þjóðkirkja í öllum söfnuðum smáum og stórum.
Það var viðtakandi forseti, Ágústa Guðmundsdóttir, sem stýrði fundi að þessu sinni.