Fréttir

4.6.2015

Viðtakandi rektor HÍ: Þrátt fyrir þröngan kost hefur háskólinn náð miklum árangri – nú þörf á auknum fjármunum svo hægt verði að styrkja menntunar- og rannsóknarstarf skólans 


Á 44. fundi starfsársins, var nýkjörinn rektor Háskóla Íslands Jón Atli Benediktsson, fyrirlesari dagsins, en erindi hans fjallaði um stöðu skólans og starfsemi hans. Hann rakti þar metnaðarfulla áætlun HÍ sem tók gildi fyrir efnahagshrun og gengið hefur eftir í mörgu tilliti þrátt fyrir afar miklar fjárhagslegar þrengingar.

Jón Atli rakti að tveir þriðju veltu háskólans sé ríkisframlag samkvæmt samningi skólans við ráðuneyti menntamála, þriðjungur eru aðrar tekjur, styrkir og gjafir. Alls eru meira en 14 þúsund nemar við HÍ í 25 deildum á 5 fræðasviðum. Hann sagði að í dag væri lögð áhersla á þverfaglegt nám og rannsóknir, uppbyggingu vísindagarða, sem er samstarf skólans og fyrirtækja, alltaf væri reynt að hlúa að sprotafyrirtækjum, háskóli unga fólksins væri mikilvæg starfsemi til að rækta ungu kynslóðina. Svo þyrfti að halda vel á uppbygginu húsnæðis HÍ, en hafin væri bygging stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og vonast væri til að Hús íslenskra fræða rísi árið 2018. Skólinn á að vera skóli allra landsmanna og til marks um það eru 8 setur skólans víða um land, auk mikils endurmenntunarstarfs, sem margir nýttu sér.

Jón Atli gat þess að í ofangreindri stefnumótun hefði verið stefnt að því að HÍ yrði meðal 100 bestu háskóla heims samkvæmt sérstakri alþjóðlegri mælingu (Times Higher Education University Rank). Með markvissri styrkingu framhaldsnáms og eflingu rannsóknastarfs væri skólinn nú í 271. sæti, en í heiminum væru 17 þúsund skólar á háskólastigi, þannig að HÍ væri meðal þeirra 2% sem skoruðu hæst !  Þetta endurspeglaðist m.a. í miklum fjölda brautskráðra stúdenta eða um 2600 ári 2014, þar sem frá árinu 2009 hefði útskrifuðum doktorum fjölgað úr 32 í 82.  Árangur í birtingu vísindagreina endurspeglaðist í að fjöldi birtinga í “öndvegisritum” fór úr 91 árið 2007 í 432 árið 2013.

Nú væri í gildi áætlun til ársins 2016 þar sem enn væri stefnt að því að skólinn yrði áfram í fremstu röð. Á herðum nýs rektors hvíldi að móta stefnuna næstu árin. Fyrir liggur að fjárskortur hamlar starfseminni í kjölfar langvarandi aðhalds í rekstri, nýliðun starfsmanna hefði ekki verið eðlileg og hér hefði kreppan gert að verkum að við skólann væri einn kennari að baki 18 nemum, helmingi færri en tíðkast í skólum í nágrannalöndunum, sem mælast að svipuðum styrk. Við slíkt væri hægt að una meðan unnið hafi verið að efnahagslegum bráðavanda, en það væri ekki ásættanlegt til framtíðar. Jón Atli Benediktsson mun taka við embætti rektors við hátíðlega athöfn þann 30. júní n.k.

Á fundinum var einn kærkominn gestur, Halldór Þorsteinsson, gestur Ólafs Stefánssonar.

Forseti gat þess að fyrir dyrum stæði golfmót Rótarý á Akranesi þann 25. júní og hvatti hann félaga til að kynna sér fyrirkomulag á heimasíðu Rótarý og taka þátt.