Fréttir

20.5.2015

Trausti Jónsson spáir í veðrið: Óvenjurisjóttur vetur og kaldur maí – óvíst um sumarið

Á fundinum þann 20. maí  fræddi Trausti Jónsson, veðurfræðingur Rótarýfélaga um veðurfar á Íslandi í sögulegu samhengi og með skírskotun til veðursins hér á landi síðustu misseri. Þar kom fram að veturinn hafi verið afar risjóttur að þessu sinni og vorið óvenju kalt.

Ef skoðaður er meðal vindhraði mánuðina desember-apríl árin 1950-2015, kemur í ljós að veturinn 2015 var óvenju vindasamur, aðeins árið 1993 var viðlíka vindasamt um veturinn.

Trausti gat þess að vorið í ár hefði verið sérlega kalt, það stefndi í að þetta yrði 4. kaldasti maímánuður á tímabilinu frá árinu 1950, sem gæti þó breyst ef hlýnaði skart það sem eftir lifði mánaðarins. Lofthitinn væri tengdur sjávarhitanum, en Trausti sýndi mynd af yfirborðshita sjávar á Norður Atlantshafi um miðjan maí, sem sýndi að sjórinn sunnan við landið væri 1-2 gráðum undir meðallagi sl. 20 ár, en norðan við landið var sj´ór nokkuð hlýrri en í meðalári.

Trausti ræddi veðurspár, sem hann sagði að hefðu tekið miklum framförum síðustu áratugi. Áður fyrr þótti viðundandi þegar stutttíma veðurspár stóðust í 50-60% tilfella, en nú væri ætlast til að spár gengju eftir mun oftar, jafnvel yfir 90% tilfella. Framfarir í veðurspám mætti rekja til meiri og betri mælinga, bættra reiknilíkana og ekki síst gríðarlega mikillar reiknigetu nútíma tölvubúnaðar. Langtíma spár, svo sem spár um veðrið sumarið 2015 væru hins vegar harla ónákvæmar þótt stöðugt væri unnið að slíkum spám. Hann gæti því lítið sagt um þetta atriði, en vissi þó að spáð væri ríkjandi sunnan- og suðvestanáttum, sem gæti verið ávísun á úrkomusumar.

Að lokum ræddi Trausti loftslagshlýnun af völdum gróðurhúsaáhrifa, sem hann sagði flesta vera sammála um að væri staðreynd, jöklar minnkuðu fyrir framan augu okkar meðan önnur einkenni þessa væru ekki eins augljós. Hann gat þess að árið 2014 hafi verið að mati sumra hlýjasta ár síðan mælingar hófust og styrkur koltvísýrings hefði það ár einnig náð nýjum hæðum. Það var Slavör Nordal sem kynnti fyrirlesara dagsins, en í lok erindis svaraði Trausti fyrirspurnum úr sal.

Auk Trausta voru þrír aðrir gestir á fundinum að þessu sinni, Orri Ormarsson, gestur Einars Stefánssonar, og þeir Árni Ingi Stefánsson og Guðmundur Geir Jónsson, gestir Stefáns Friðfinnssonar.

Á fundinum minntust Rótarýfélagar Indriða Pálssonar, sem féll frá 13. maí s.l. Hörður Sigurgestsson flutti minningarorð.

Þá fögnuðu félagar með lófataki 60 ára afmæli Benedikts Jóhannessonar, fv forseta RR, sem fékk í kveðjuskyni að gjöf merkilegt rit Sveins Einarssonar um Guðmund Kamban, skáld.