Jón Ólafsson, prófessor og heimspekingur: Siðareglur gera lítið gagn nema að vilji sé til að gera vel og nýta þær til leiðsagnar
Jón Ólafsson heimspekingur og prófessor við Háskóla Íslands fjallaði um setningu og tilgang siðareglna fyrir ráðherra og starfsmenn stjórnarráðsins á síðasta fundi klúbbsins þann 13. maí.
Jón gerði í erindi sínu greinarmun á siðareglum sem einkum væri ætlað að vera forvirkar og þeim sem væru hugsaðar sem úrskurðarreglur. Þær síðarnefndu hefðu tilhneigingu til að vera ítarlegri og ætlað að “grípa sökudólga“ fremur en að vera til leiðsagnar fyrir ráðherra eða embættismenn áður en í óefni er komið. Jón fjallaði um mótun þeirra reglna sem ríkisstjórnin samþykkti á síðasta kjörtímabili og starfi samhæfingarnefndar sem hann veitir forstöðu. Þá fjallaði hann um þá stöðu sem nú er uppi þar sem tekist er á um hvort siðareglur þær sem þá voru samþykktar séu of ítarlegar eða almennar og tillögur um að leggja samhæfingarnefndina niður og færa hlutverk hennar inní forsætisráðuneytið.
Jón ítrekaði þá skoðun að siðareglur einar og sér gerðu lítið gagn nema að vilji væri fyrir hendi að gera vel og nýta þær til leiðsagnar þegar álitaefni kæmu upp. Góður rómur var gerður að erindi Jóns, en fyrirspurnir og fjörugar umræður fylgdu í kjölfar erindisins.
Á fundinum voru 5 aðrir gestir, Ólafur Egilsson frá Rkl Seltjarnarness og Adrian Crowe frá Surfers Sunrise klúbbnum í Ástralíu, Áslaug Ásgeirsdóttir gestur Egils B. Hreinssonar, Róbert H. Haraldsson gestur Jóns Atla Benediktssonar, og Þóra Kristjánsdóttir gestur Sveins Einarssonar.
Forseti gat þess að ferð til Berlínar hefði verið afar vel heppnuð og þakka þeim sem undirbjuggu hana, einkum Jóni Karli Ólafssyni að ógleymdum Gunnari Snorra Gunnarssyni, félaga og sendiherra í Berlín, fyrir þeirra framlag.
Að lokum óskaði forseti nýjum rektor HÍ Jóni Atla Benediktssyni til hamingju með kjörið, sem fram fór í síðasta mánuði, en gat þess jafnframt að hann vildi líka óska Guðrúnu Nordal til hamingju með mikinn stuðning samstarfsfólks í kjörinu, og þeim báðum velfarnaðar í mikilvægum störfum framundan.