Fréttir

6.5.2015

Helga Árnadóttir sagði frá viðfangsefnum ört vaxandi ferðaþjónustu og auknu vægi hennar í efnahagslífinu

Á 40. fundi starfsársins var gestur

klúbbsins Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og hélt hún erindi  um samtökin, helstu málefni tengd og almennt um stöðu þessarar ört vaxandi atvinnugreinar.


Helga sagði frá mikilli fjölgun ferðamanna og niðurstöðu könnunar um hvers vegna þeir heimsækja Ísland.  Flestir ferðamenn (um 80%) nefndu náttúruna sem megin ástæðu og hversu ósnortin hún er, eftirsóknarverð víðernin, kyrrð og ró.  Þá norðurljósin augljóslega aðdráttarafl, eldfjöllin, jöklar, goshverir, fossar, jarðhiti/hverir og jarðfræði. Þá nefna ferðamenn gestrisni landsmanna, en 95% ferðamann eru ánægðir og munu mæla með Íslandi við aðra. 

 Hefðbundnar árstíðasveiflur hafa haft verulega takmarkandi áhrif á vöxt ferðaþjónustunnar. Helga rakti hversu árstíðarsveiflan hafi farið minnkandi, sérstaklega á stór Reykjavíkursvæðinu, en um 50% ferðamanna komu lengst af um sumarið, en það hlutfall er nú um 42%.  Hótelgisting, flest herbergi og besta nýting gistirýma er á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir það hefur fjölgað mjög óskráðum eignum sem leigðar eru út til ferðamanna án leyfis og greiða þar af leiðandi ekki skatta né uppfylla þá öryggisstaðla sem þarf að uppfylla sem gististaður og hefur SAF lagt mikla áherslu á að þetta verði upprætt eins og kostur er, hafa unnið með stjórnvöldum að því.

 Vöxtur í ferðaþjónustu hefur verið gríðarlegur og skilar nú 28% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar.  Arðsemi greinarinnar hefur aukist, m.a. vegna betri nýtingar fjárfestinga.  Atvinnusköpun í ferðaþjónustu kom fram þegar vandinn var mestur árin  2008–2014 og  hefur starfsfólki í greininni fjölgað um 6 þúsund manns á þessum tíma.  Helga gat þess að menntun í ferðaþjónustu er nú svipuð og í flestum atvinnugreinum og hefur háskólamenntuðum fjölgað mikið síðustu ár enda orðið mikil fjölbreytni á framboði afþreyingar til ferðamanna.  Ferðaþjónustan er miklu meira en gisting og veitingahús. 

 Í lokin sagði Helga frá því að ríkið væri að leggja fé í lagfæringar á viðkvæmustu ferðasvæðunum og markmið með gjaldtöku ætti að vera virðisaukandi þjónusta. Aðspurð um hvort ekki væri eðlilegt að atvinnugreinin greiddi auðlindagjald vegna afnota af auðlindinni og mætti öðrum álögum líkt og aðrar atvinnugreinar, kvað hún það eðlilega spurningu. Hins væri greinin ung og því eðlilegt að hún nyti nokkurrar verndar stjórnvalda um sinn.