Fréttir

30.4.2015

Starfsgreinaerindi Birnu Einarsdóttur: Bankastarfsemi á Íslandi – uppbyggingarstarf í kjölfar kreppu

Á 39. fundi starfsársins þann 29. apríl hélt Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, starfsgreinaerindi sitt um bankastarfsemi í landinu og starf hennar sem bankastjóri Íslandsbanka. Birna reifaði breytta tíma frá því hún fyrst kom til starfa í viðskiptabankastarfsemi þegar dreifileiðir fjármagns voru aðrar og takmarkaðri en nú er. Viðfangsefnin í dag snérust mikið um hagræðingu bankakerfisins og uppbyggingu trausts á starfsemi banka almennt í kjölfar efnahagskreppu.

Á árum áður voru dreifileiðirnar aðrar og takmarkaðri en nú er, útibúin voru grundvallareiningar ásamt höfuðstöðvum, en í dag eru til komnir hraðbankar, debetreikningar, netbankar, þjónustuver, app með tugum þúsunda notenda og netspjall. Birna benti á að þrátt fyrir þetta breytta form bankastarfseminnar, væri persónuleg þjónusta mikilvæg. Verkefnið síðustu ár hefði verið að auka skilvirkni í þjónustu, styrkja þjónustu útibúa í takt við þarfir og auka traust á bankastarfseminni í kjölfar bankahrunsins. Útibú Íslandsbanka hefðu verið 172 talsins árið 2003, en voru 103 árið 2013. Stöðugildum innan bankans hefði fækkað úr 1155 árið 2010 í 945 árið 2014. Það hefði reynst sársaukafullt að draga saman seglin, en mest hefði fækkunin verið leyst með starfsmannaveltu og eðlilegum starfslokum starfsmanna.

Birna sagði Íslandsbanka hafa tæpan þriðjung markaðshlutdeildar í landinu, svipað og hinir tveir stóru viðskiptabankarnir, en um 60% árstekna væru vaxtatekjur. Ljóst væri að 100 ára saga Íslandsbanka og forvera hans hefði skapað kjarna traustra viðskiptavina. Áfall við bankahrunið dró úr trausti viðskiptavina og samfélagsins í heild á bankakerfinu. Ljóst væri að það tæki lengri tíma en menn áttu von á að byggja upp traust á ný. Aðspurð um umræðu um “bónusa” í bankakerfinu í dag, taldi hún mikilvægt að hlusta vel á raddir í samfélaginu varðandi þennan þátt, sem væri ein af forsendum þess að fullt traust skapaðist.

 Nokkrir góðir gestir komu til fundarins, en það voru Ármann Örn Ármannsson frá 30 meðlima klúbbi í Frakklandi, Rotary Greoux les Bains, Guðrún Wium, gestur Birnu Einarsdóttur, Tómas Kristjánsson, gestur Kristjáns Ragnarssonar og Jón Garðar Guðmundsson gestur Guðmundar G. Þórarinssonar.

Forseti minnti á að fram til 15. maí yrði hægt að festa sér einn þeirra 90 miða sem klúbburinn hefði tekið frá handa félögum og gestum á afmælistónleika Diddúar í Eldborgarsal Hörpu 13. september 2015.