Fréttir

22.4.2015

Páll Einarsson, prófessor ræddi um Holuhraun og eldgosavá: Fyrirboði Heklugosa afar stuttur

Á  fundi RR þann 22. apríl, sem var 38. fundur starfsársins hélt prófessor Páll Einarsson erindi dagsins þar sem hann fjallaði um eldgos á Íslandi og ýmislegt sem snýr að eðli þeirra, tengsl eldvirkra svæða og forsendur fyrir því að spá fyrir um gos á grundvelli upplýsinga um skjálftavirkni og annarra jarðeðlisfræðilegra gagna.

Fram kom í  máli Páls, að eldgosið í Holuhrauni hafi verið afar mikið hraungos og hafi haldið góðum krafti mestan hluta gostímans, en það hófst 31. ágúst 2014 en lauk hálfu ári síðar eða í lok febrúar 2015.  Holuhraunið á rætur að rekja til eldstöðvakerfisins, sem kennt er við Bárðarbungu. Það er þekkt fyrir að hafa áhrif á aðrar eldstöðvar. Sem dæmi nefndi Páll svokallað Landnámsgos árið 871, samvinnuverkefni Bárðarbungu og Torfajökuls. Einnig Gjálpargosið 1996, þegar talið er að gangur hafi hlaupið úr Bárðarbungu til suðurs og hleypt af stað gosi undir jöklinum. Þó Holuhraun sé mesta gos að rúmmáli á Íslandi síðastliðin 200 ár, er það þó ekki stórt miðað við stærstu hraungosin, svo sem hraunið er myndaðist við Skaftárelda.

Páll vék að lokum að gosi í Heklu, sem yfirleitt gerir vart við sig með afar stuttum fyrirvara. Í Heklu getur skjálftavirkni legið niðri þar til rétt áður en gos hefst, jafnvel innan við klukkustund fyrir gos. Þess vegna er varhugavert að ferðast fótgangandi á Heklu því hættuástand getur skapast með afar stuttum fyrirvara. Páll vakti einnig athygli á að alþjóðlegar flugleiðir lægju beint yfir Heklu og væri mikilvægt að flugstjórnaryfirvöld tækju þetta til greina við skipulag flugleiða í framtíðinni því af þessu gæti skapast stórhætta.

Afar góður rómur var gerður að erindi Páls, en það var Ágústa Guðmundsdóttir sem kynnti fyrirlesara dagsins.

Á fundinum voru mættir tveir gestir auk Páls, Garðar Cortes, félagi í Rótarýklúbbi Borgum, Kópavogi og Hilmar B. Baldursson, gestur Þorgeirs Baldurssonar.