Fréttir

8.4.2015

Ólafur Davíðsson:  Saga Berlínar í stuttu máli

Á fundi RR þann 8. apríl s.l. flutti Ólafur Davíðsson, fyrrv. sendiherra Íslands í Þýskalandi og félagi í klúbbnum erindi um Berlín, en dagana 7.-10. maí n.k. er fyrirhuguð ferð félaga til Berlínar. Ólafur lét í té texta erindisins til birtingar þeim félögum sem ekki voru til staðar á fundinum og okkur öllum til gagns og ánægju.

B E R L Í N

How do you like Iceland spyrjum við útlendinga sem koma til Íslands og bíðum milli vonar og ótta eftir svarinu. Engum Þjóðverja mundi detta til hugar að spyrja útlending : How do you like Germany. Bæari eða Rínarbúi mundi kannski spyrja hvernig hann kynni við sig í Bæern eða í Rínardalnum. Berlínarbúi mundi kannski spyrja útlendinginn hvað honum fyndist sérstakt við Berlín eða á hvaða borg Berlín minnti hann. Ef útlendingurinn svaraði hikandi , jú hún minnti hann svolítið á New York, yrði Berlínarbúinn afskaplega ánægður. Mörgum þeirra finnst sú hugsun aðlaðandi að Berlín líkist að einhverju leyti New York. Þeir eru hins vegar ekki vissir af hverju það ætti að vera svo. Ekki er það vegna skýjakljúfanna, sem varla eru til í Berlín. Jarðvegurinn, sem borgin stendur á, er svo laus, vegna þess hve grunnvatnið stendur hátt, að hann þolir ekki háar byggingar. Kannski er það bæjarbragurinn. En Berlín er eina stórborg Þýskalands. Borgin telur rúmar 3,5 milljónir íbúa og er því engin stórborg á við London, París , nú eða New York.

En Hamborg og München eru varla hálfdrættingar á við Berlín.

Flestum Berlínarbúum er þó alveg sama hvað útlendingum finnst um þá. Þeir líta ekki endilega á sig sem Berlínarbúa. Enda varð Berlín til úr mörgum smábæjum og tengslin við hverfið, þar sem maður býr, eru mjög sterk. Berlínarbúar eru þekktir fyrir að vera stuttir í spuna, góðlátlega hvefsnir og hafa oft nokkuð góða kímnigáfu sem ekki er algengt í Þýskalandi.

Saga Berlínar nær aftur á 13. öld enda liggur hún í þjóðleið um þvera Evrópu. En við skulum taka stökk til ársins 1920.

Þriðji áratugur síðustu aldar var um margt sérstakur. Keisaradæmið var liðið undir lok og lýðveldi komið á . Afleiðingar fyrri heimsstyrjaldarinnar sögðu fljótt til sín með miklum stríðsskaðabótum. Síðan kom óðaverðbólgan og svo heimskreppan. Pólitísk átök voru mikil og ríkisstjórnir valtar í sessi.

En á sama tíma var menningarlíf í miklum blóma og frjálslyndi í flestum efnum meira en víðast annarsstaðar.

Allt þetta hafði áhrif á það sem síðar gerðist. Nasistar áttu ekki mikinn stuðning í Berlín og nasistaflokkurinn fékk lakari útkomu en að meðaltali i landinu í kosningum í byrjun fjórða áratugarins. Berlín var rauð, þar voru kommar og kratar fjölmennir í stórum verkamannahverfum. En það dugði skammt. Þegar nasistar höfðu náð völdum, réðu þeir lögum og lofum eins og annarsstaðar. Síðar ætluðu þeir að gera Berlín að höfuðborg heimsins og skyldi hún heita Germania.

Gyðingar voru tiltölulega fjölmennir í Berlín . Árið 1933 bjuggu 160 þúsund Gyðingar í Berlín. Var það einn þriðji allra Gyðinga í Þýskalandi og um 4 % borgarbúa.

Berlín varð fyrir gríðarlegri eyðileggingu í stríðinu eins og flestar stærri þýskar borgir.

Er talið að 20 % af allri borginni hafi eyðilagst og um 50 % af miðborginni.

Á ráðstefnunni í Jalta í febrúar 1945 skiptu bandamenn Þýskalandi í fjögur hernámssvæði og Berlín sérstaklega einnig i fjögur svæði. 1948 reyndu Sovétmenn að loka Berlín af en Vesturveldin brugðust við því með loftbrúnni eins og frægt varð.

Í mai 1949 var Sambandslýðveldið Þýskaland stofnað á svæðum vesturveldanna, Vestur-Þýskaland. Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins var Berlín eitt fylkja eða ríkja sambandslýðveldisins. Sama gilti austan meginn , þegar Þýska Alþýðulýðveldið var stofnað. Þetta ákvæði tók þó ekki gildi því bandamenn réðu áfram Vestur-Berlín. En borgin hafði sitt eigið þing og borgarstjóra.

Þótt stjórnvöld í Austur-Berlín reyndu að koma í veg fyrir fólksflótta vestur yfir, hafði það lítið að segja. Straumurinn varð stöðugt stríðari. Þann 13. ágúst 1961 var múrinn reistur.

Lífið í Vestur-Berlín var um margt ólíkt því sem var í Vestur-Þýskalandi. Karlmenn þurftu ekki að gegna herþjónustu og því sóttu þangað margir til þess að komast hjá því að fara í herinn. Frjálslyndi ,t.d. í kynferðismálum, var mun meira eins og verið hafði í Berlín áður. Samkynhneigðir áttu því athvarf í Berlín á þessum árum. Sambandsríkið greiddi mikla styrki til fólks og atvinnulífs í Berlín. Það var stefnan að “efla byggð” í stórborginni Berlín.

Stúdentaóeirðirnar 1968 voru hvergi í Þýskalandi heiftugri en í Berlín og þar átti hinn svonefndi Baader-Meinhoff hópur upptök sín.

Enn skal fara fljótt yfir sögu. Þann 9. nóvember 1989 féll múrinn. Ekki verður hér fjallað um hvað það var í raun sem leiddi til þessa ótrúlega atburðar. En það var í Leipzig sem lokasennan hófst.

Að kvöldi 9. október , sem var mánudagur, var enn efnt til friðsamlegrar mótmælagöngu í borginni eins og gert hafði verið mánudagana á undan. En nú voru yfirvöld staðráðin í því að brjóta þennan mótþróa á bak aftur. Lögregla og herlið fékk skipun um að vígbúast og láta til skarar skríða. Sovétmenn voru þó þarna hvergi nærri. Göngufólkið hafði hugboð um hvað væri í aðsigi. Vikuna áður höfðu um 20 þús. manns verið í göngunni og yfirvöld gerðu ráð fyrir að fjöldinn yrði svipaður þá um kvöldið. En það komu um 70 þús. manns. Yfirvöld gerðu sér grein fyrir því að þau gætu ekki stöðvað slíkan mannfjölda, jafnvel ekki með blóðbaði. Eftir því sem leið á kvöldið áttuðu mótmælendur sig á því að yfirvöld höfðu gefist upp. Þar með voru úrslitin ráðin. Síðan héldu þessir atburðir áfram í Berlín.

Sameining Þýskalands gekk í gildi 3. október 1990 og Berlín var aftur orðin höfuðborg sameinaðs Þýskalands. Bandamenn létu af afskiptum af stjórn Berlínar. En þing og ríkisstjórn sátu enn í Bonn.

Í júní 1991 voru greidd atkvæði á þingi um hvort Bonn eða Berlín yrði höfuðborg Þýskalands. Maður gæti haldið að það hlyti að liggja nokkuð ljóst fyrir. Það yrði að sjálfsögðu Berlín. En kosningin var talin mjög tvísýn og það varð líka raunin. Berlín hlaut 338 atkvæði en Bonn 320. Meiri var munurinn ekki. Þarna réði “hreppapólitík” miklu. Þingmenn fjölmennu héraðanna við Rín og nágrenni voru eindregið á móti Berlín. Ákvörðunin tók ekki gildi fyrr en 1999 og málið var leyst með dæmigerðri þýskri málamiðlun, helmingur starfsmanna stjórnarráðsins varð eftir í Bonn og er þar enn.

Eftir sameiningu ríkti mikil bjartsýni í Berlín og byggingarkranar urðu einkenni borgarinnar. Verkefnið var líka ærið því að gera þurfti eina borg úr tveimur borgum, þar sem önnur, sú vestanmegin,var í þokkalegu standi en hin,austanmegin, var að miklu leyti að hruni komin.

Það er þetta m.a. sem gerir Berlín alveg einstaka. Hún er enn að verða til á hverjum degi. Það auðveldaði ekki verkið að efnahagslegur grundvöllur borgarinnar var veikur. Öll stærri fyrirtæki voru löngu farin og fátt kom í staðinn til að byrja með. Einnig dró mjög úr styrkjum. Fjöldi fólks flutti frá Berlín en álíka fjöldi hefur flutt til borgarinnar. En þá gerðist nokkuð sem við Íslendingar höfum kynnst að undanförnu. Ferðamenn tóku að streyma til borgarinnar. Í fyrra voru þeir nær 12 milljónir, þar af 4,5 milljónir útlendingar

Hverju eru þeir að sækjast eftir? Fyrst og fremst sögu og menningu.

Berlín var borg konunga og keisara, borg iðnvæðingar og atvinnuuppbyggingar, hún var borg Nasista og seinni heimsstyrjaldarinnar, borg kalda stríðsins. Hún er núna höfuðborg sameinaðs Þýskalands.

Það eru ekki alltaf til miklar minjar frá þessum tímum. Það er lítið eftir af múrnum og ekki eru miklar sjáanlegar minjar frá tímum nasista. En þegar maður er kominn á þessar slóðir þarf ekki mikið til þess að maður skynji fortíðina.

En menningin er þeim mun áþreifanlegri og sýnilegri. Þrjár óperur tvö stór tónleikahús, fjöldi leikhúsa , öll söfnin og svo framvegis. Framboðið er næstum óendanlegt.