Fréttir

15.4.2015

Nýr þjóðleikhússtjóri kynnti verkefnin framundan



Á 37. fundi starfsársins var gestur fundarins Ari Matthíasson, nýráðinn þjóðleikhússtjóri, sem ræddi hlutverk leikhússins og spennandi verkefni framundan, en þessa dagana er verið að vinna að mótun dagskrár næsta starfsárs. Ari tók við hinu nýja starfi í nóvember s.l.

Ari var framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins frá árinu 2010 og hefur að baki leikaramenntun og háskólamenntun á meistarastigi í rekstrarhagfræði og hagfræði. Hann starfaði sem leikari og leikstjóri frá árinu 1991 og einnig við stefnumótun, markaðsmál og framkvæmdastjórn. Það var Sigurður Pálsson sem kynnti fyrirlesara dagsins.

 Ari rakti skyldur þjóðleikhúss landsmanna, sem ætlað er að færa landsmönnum jöfnum höndum klassísk leikhúsverk, þekkt þjóðleg verk og ný íslensk leikhúsverk. Til marks um þetta væru nú í sýningu leikhússins Fjalla-Eyvindur eftir Jóhann Sigurjónsson og nýtt íslenskt leikverk, Segulsvið eftir Sigurð Pálsson. Þá væri ávallt á dagskrá Þjóðleikhússins leikrit fyrir yngstu kynslóðina. Ari sagði mikilvægt að landsmenn allir litu á Þjóðleikhúsið sem sína sameign og væri hann staðráðinn að uppfylla þær væntingar, m.a. með því að frumsýna leikverk á landsbyggðinni og koma á farandsýningum.

 Margt spennandi nefndi Ari að væri í farvatninu. Fyrsta frumsýningin í Kassanum væri eftir Björn Hlyn Haraldsson um samband móður og samkynhneigðs sonar. Á aðalsviði leikhússins nefndi hann Hjarta Hróa Hattar eftir David Farr í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar, Heimkomuna eftir Harold Pinter í leikstjórn Atla Rafns Sigurðssonar og Sporvagninn Girnd eftir Tennessee Williams, sem væntanlega yrði jólaleikrit ársins. Af dagskránni eftir áramót, er ýmislegt í deiglunni, m.a. leikgerð Djöflaeyjunnar undir stjórn Baltasar Kormáks, sem þó er ekki fastákveðið. Einnig Lúlú í leikgerð eftir David Farr, en leikstjóri verður Gísli Örn Garðarsson.

 Það var á Þjóðleikhússtjóra að skilja, að flest þessara verka gætu höfðað til margra, enda veitti ekki af að ná inn tekjum á þessum síðustu og verstu. Góður rómur var gerður að glaðbeittum leikhússtjóranum, sem fullyrti að landsmenn ættu gott fagfólk og hann gæti því lofað góðu leikhúsi.


Fyrirtækið Zymetech hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í síðustu viku, en Zymetech er leiðandi íslenskt líftæknifyrirtæki á sviði rannsókna, þróunar, framleiðslu og sölu náttúrulegra sjávarensíma til hagnýtingar í húðvörur, lækningatæki og lyf. Það var Ágústa Guðmundsdóttir, rannsóknastjóri Zymetech, sem veitti verðlaununum viðtöku, en Ágústa er viðtakandi forseti RR. Ágústu var fagnað af félögum.