Fréttir

1.4.2015

Inga Lára Baldvinsdóttir: Fimmföldun ljósmyndasafns á 20 árum kallar á skipulegt og raunhæft verklag við varðveislu ljósmyndaarfsins


Á 35. fundi starfsársins þann 1. apríl s.l. var aðalfundarefni dagsins erindi Ingu Láru Baldvinsdóttur, safnvarðar myndsafns Þjóðminjasafnsins um söfnun og varðveislu ljósmyndaarfsins.

Ljósmyndum hefur verið safnað í á aðra öld í Þjóðminjasafni Íslands. Hlutur ljósmynda í varðveislu menningararfsins hefur farið ört vaxandi hin síðari ár. Inga Lára sýndi hve hröð þróunin hefur verið á þessu sviði á landsvísu. Árið 1996 var fjöldi mynda á alls kyns formi í söfnum áætlaður um 3 milljónir. Nú um 20 árum síðar eru þær taldar vera rúmlega 17 milljónir. Aukningin er meira en fimmföld.

Inga Lára spurði hvenær hefur nógu verið safnað? Hvað þarf að eiga margar myndir frá 20. öldinni? Um 1996 átti Þjóðminjasafn Íslands um helming af varðveittu ljósmyndaefni í söfnum landsins, en hlutur þess hefur dregist saman.  Af þessum 17 milljónum mynda eru tæplega fjórar og hálf í Þjóðminjasafni. Þessi mikla aukning ljósmynda í söfnum er stærra verkefni en svo að það verði auðveldlega leyst miðað við þann mannafla og fjármagn sem er til ráðstöfunar. Eitt af þeim verkefnum er skráning og greining myndanna þannig að þær nýtist sem best þeim sem leita að eldra myndefni. Inga Lára sýndi hver staða skráningar á ljósmyndum er í Þjóðminjasafni, þar sem um 40% af safnkostinum hefur ekki fengið formlega skráningu.

Að lokum greindi Inga Lára frá greiningarsýningunni Hvar? Hver? Hvað? sem nú stendur yfir í Myndasal Þjóðminjasafnsins og nefndi dæmi um greiningar frá gestum safnsins á óþekktum myndum á sýningunni og hvað þær setja myndirnar í nýtt og stærra samhengi. Afar góður rómur var gerður af erindi Ingu Láru og ljóst að í ljósmyndaheimildum liggja mikil menningarverðmæti nú og í framtíð og því mikilvægt að varðveita þær með skipulögðum og skynsamlegum hætti.

Á fundinum voru 5 gestir auk Ingu Láru, þau Lárus Elíasson úr Rkl Rvík-Austurbær, Anna Bryndís Einarsdóttir og Reynir Smári Atlason, gestir Einars Stefánssonar, Þóra Kristjánsdóttir, gestur Sveins Einarssonar og Helga Bragadóttir, gestur Jóhanns Sigurjónssonar. Á fundinum gekk Jón Kristjánsson, áður félagi í Rótarýklúbbi Héraðsbúa, í raðir RR.