Fréttir

26.3.2015

Matarsóun er stórmál í nútímanum




34. fundur starfsársins var haldinn 25. mars og þar var flutt afar áhugavert erindi um matarsóun. Það var Dr Rannveig Magnúsdóttir, verkefnisstjóri matarsóunarverkefnis Landverndar  og spendýravistfræðingur var gestur klúbbsins og fyrirlesari dagsins.


Dr Rannveig útskýrði að þegar mat er sóað er ekki bara verið að sóa fjármunum heldur einnig mikilvægum auðlindum jarðar. Auðlindir okkar hafa aldrei verið viðkvæmari en nú þegar fjöldi mannkyns er kominn vel yfir 7,2 milljarða. Til að rækta matvæli þarf m.a. landsvæði, vatn, áburð, olíu og orku og þegar við sóum mat þá erum við að sóa þessum auðlindum í leiðinni.

Matarsóun á sér stað á akrinum, við dreifingu, í matvöruverslunum, á veitingastöðum og hjá okkur neytendum. Pottur er því víða brotinn hvað varðar sóun á mat þó vissulega hagi margir sér til fyrirmyndar. Áætla má að u.m.b. þriðjungi matarframleiðslunnar sé fargað undir ýmsu yfirskyni, svo sem vegna skemmdra umbúða, útlitsgalla vörunnar, t.d. boginna banana og hringlaga agúrku ! Merking vöru af framleiðanda skapar líka ákveðna hegðun neytenda, þ.e. merkingar einsog “best fyrir” og “síðasti neysludagur”.

Rannveig sagði mikilvægt að slíkar merkingar séu staðlaðar, en ekki síður þurfi neytendur sjálfir að vera vakandi og vera í stakk búnir til að meta vörurnar. Það getur verið heilsuspillandi að ganga of langt í að nýta fæðu því örverur nærast á mat eins og við sjálf og sumar þeirra geta verið skaðlegar eftir „síðasta neysludag“. Hræðsla neytenda á „best fyrir“ dagsetningum er hins vegar mjög mikil og er oft ruglað saman við „síðasti neysludagur“. „Best fyrir“ dagsetning þýðir ekki að varan sé ónýt daginn eftir og oft er þetta málamyndadagsetning frá framleiðanda sem endurspeglar ekki gæði vörunnar. Þurrvörur og niðursuðuvörur geymast m.a. í nokkur ár eftir „best fyrir“ dagsetninguna. Það er því um að gera að nota augu, nef og heilbrigða skynsemi í umgengni okkar við mat.

Afar skemmtileg umræða fylgdi í kjölfar erindis Rannveigar, enda málið nýlega komið í almenna umræðu, þrátt fyrir að það snerti grundvallarforsendur nútíma samfélags. Það var Anna Sigríður Guðjónsdóttir sem kynnti ræðumann dagsins.

Forseti gat þess að árlegt spilakvöld hefði verið haldið 18. mars undir öryggri stjórn Benedikts Jóhannessonar fyrrum forseta RR. Spilað var á 6 borðum, afar vel heppnað þar sem stóri vinningurinn var samvera og skemmtilegheit, og mikið verðlaunaflóð. Að vanda fékk Ágústa gistingu við Rangá, í þetta sinn var það Ágústa hans Jónasar Ingimundarsonar, en ekki Ágústa Guðmundsdóttir, sem hreppti reyndar vinninginn s.l. tvö ár !! Eiga þau hjón fyrir höndum skemmtilega dvöl hjá félaga okkar Friðriki Pálssyni á Hótel Rangá.