Fréttir

11.3.2015

Norskur sjávarútvegur í nýju ljósi og inntaka tveggja nýrra félaga í RR



Á 32. fundi starfsársins flutti Kristján Davíðsson, sjávarútvegsfræðingur, sem starfað hefur í sjávarútvegi um áratuga skeið, einkum á Íslandi og Noregi, erindi sem hann nefndi “Norskur sjávarútvegur”.

Á fundinum voru tveir nýir félagar boðnir velkomnir í Rótarýklúbb Reykjavíkur, þeir Árni Björn Björnsson, framkvæmdastjóri Verkfræðingafélags Íslands og Tæknifræðingafélags Íslands og Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins.




Í erindi Kristjáns rakti hann helstu einkenni sjávarútvegsins í Noregi, sem Íslendingar telja oft helsta keppninaut þessarar mikilvægustu atvinnugreinar á Íslandi. Norskur sjávarútvegur er afar stór, útflutningsverðmætin voru yfir 60 milljörðum NOK árið 2013, þar af um 2/3 frá laxeldi. Hann sagði að ýmiss misskilnings gætti hjá Íslendingum varðandi rekstur sjávarútvegsins í Noregi og samanburð við aðstæður og rekstur hér á landi.

Sem dæmi nefndi hann að ríkisstyrkir til sjávarútvegs í Noregi heyrðu löngu sögunni til, enda Noregur aðili að EES líkt og Ísland. Sjávarútvegur í Noregi ætti við ýmsan vanda að etja, þar væri vertíðarhugsunin ríkjandi og langmestur hluti þorskafla kæmi á land fyrstu fjóra mánuði ársins, þannig að stærstur hluti aflans færi óunnin úr landi. Þessu væri þveröfugt farið á Íslandi þar sem löndun afla væri jöfn allt árið, kaupendur gengju að vörunni vísri og vinnsla afla færi fram árið um kring. Þá væru Norðmenn ekki samkeppnishæfir við Íslendinga í launalegu tilliti, mun hærri laun í norskum sjávarútvegi eftir hrun hér á landi. Hann sagði athyglisvert hve þjónustustarfsemi, m.a. á sviði tækniþróunar væri öflug á Íslandi m.v. Noreg, íslensk fyrirtæki væru afar framarlega á norska markaðnum á sviði tæknilausna og einnig væri ekki eins mikil gróska í þróun og nýtingu afurða samanborið við Ísland. Kristján gat þess að Norðmenn skattlögðu útflutning sjávarafurða og nálægt 10 milljörðum króna væri varið árlega til markaðssetningar norskra sjávarafurða. Enginn stæði þeim á sporði á þessu sviði.

Afar góður rómur var gerður að erindi Kristjáns Davíðssonar, sem hreyfði við viðhorfum fundarmanna til frænda okkar í Noregi. Það var Sveinbjörn E. Björnsson, sem kynnti ræðumann dagsins og alþjóðanefnd sem sér um að velja fyrirlesara í marsmánuði. Auk Sveinbjörns eru þau Guðmundur Þóroddsson og Sigríður Anna Guðjónsdóttir í nefndinni.

Auk Kristjáns voru 4 aðrir góðir gestir á fundi klúbbsins að þessu sinni, allt félagar úr Rótarýklúbbnum Borgir-Kópavogi, þau Birna  G. Bjarnadóttir, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, Guðmundur Ásgeirsson og Össur Geirsson og bauð forseti þau sérstaklega velkomin.