Sinfóníuhljómsveit Íslands á tímamótum
Á 30. fundi starfsársins var gestur fundarins Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem einnig er félagi í Rótáryklúbbi Reykjavíkur-Austurbær. Arna Kristín fræddi fundarmenn um Sinfóníuhljómsveitina og starfsemi hennar.
Sinfóníuhljómsveit Íslands (SÍ) hélt fyrstu tónleika sína árið 1950 og var í upphafi skipuð 40 manns, en telur nú 90 hljóðfæraleikara í fullu starfi. Hljómsveitin heldur 70-80 tónleika árlega og um 20 aðra viðburði, m.a. áskriftartónleika, tónleika með nútímatónlist, kvikmyndatónlist, skólatónleika og margt fleira. Í starfseminni taka þátt um 40 erlendir boðsgestir árlega og nálgæt 30 íslenskir einleikarar. Um fjórðungur starfsemi hljómsveitarinnar snýr að fræðslustarfi ýmiss konar.
Það var afar góður rómur gerður að kynningu Örnu Kristínar, sem greinilega var vel heima í fundarefni dagsins, enda áður og fyrr flautuleikari í SÍ, um tíma tónleikastjóri SÍ og frá 1. sept. 2013 framkvæmdastjóri.
Arna Kristín lagði sérstaka áherslu á hve mikla þýðingu bygging Hörpu hefur haft á ímynd landsins, jafnt fyrir gesti sem landsmenn sjálfa – fyrir utan byltingu í aðstöðu hljómsveitarinnar. Mikil tónlistarvakning hefur orðið meðal landsmanna, en til marks um það voru tónleikagestir 36 þúsund talsins á 88 tónleikum árið 2009-2010, en gestir á síðasta ári voru um 73 þúsund talsins á vel yfir 100 tónlistarviðburðum. Það er líka áhugavert að fylgjast með því hvernig hljómsveitin er farin að finna sig í Eldborgarsalnum og áheyrendur eru farnir að upplifa tónlistina, styrk og mýkt hennar, sem ekki var mögulegt við fyrri aðstæður.
Kjartan Óskarsson kynnti fyrirlesara dagsins.
Á þessum fundi var annar góður gestur, Áslaug Ottesen, sem var gestur Harðar Sigurgestssonar.