Fréttir

6.3.2015

Velheppnuð heimsókn RR til líftæknifyrirtækisins Zymetech og kvöldstund í Víkinni-Sjóminjasafni 4.mars

Miðvikudaginn 4. mars þáðu Rótarýfélagar boð líftæknifyrirtækisins Zymetech að kynnast starfsemi íslensks sprotafyrirtækis í sjávarútvegi. Félagar fóru að heimsókn lokinni og skoðuðu Víkina-Sjóminjasafn Reykjavíkur og snæddu þvínæst frábæran málsverð í Víkinni.


Þetta var 31. fundur starfsársins og var augljóst að margir félagar sýndu því mikinn áhuga að heimsækja Líftæknifyrirtækið Zymetech, sem er sprottið uppúr rannsóknum Jóns Braga Bjarnasonar, prófessors og lífefnafræðings, sem lést um aldur fram og eignikonu hans Ágústu Guðmundsdóttur, prófessors, félaga í RR og viðtakandi forseta.

Starfsemi Zymetech snýr að þróun og framleiðslu heilsuvara úr ensímum unnum úr fiskafurðum og eru nú 9 starfsmenn tengdir starfseminni, en fyrir 2 árum var aðeins einn starfsmaður í fullu starfi. Zymetech er nú flutt í afar vistlegt húsnæði við Fiskislóð á Grandagarði, þar sem framleiðslan fer fram á jarðhæð og tilraunir, eftirlit með framleiðslu og annað er staðsett á 2. hæð. Eftir að Ágústa hafði boðið félaga velkomna með veitingum góðum, rakti Dr. Bjarki Stefánsson, lífefnafræðingur eðli framleiðsunnar og Sigurgeir Guðlaugsson, framkvæmdastjóri sagði frá markaðsstöðu Zymetech og árangur á síðustu misserum. Forseti RR Jóhann Sigurjónsson, ásamt öðrum félögum þökkuðu frábæra heimsókn og kynningu á starfseminni, sem án efa mun stuðla ásamt öðru að margföldun verðmæta úr fiskafurðum á komandi árum.

Að heimsókn lokinni, fóru félagar í Víkina-Sjóminjasafn Reykjavíkur, en aflýsa varð fyrirhugaðri heimsókn í varðskipið Óðinn vegna veðurs. Þess í stað skoðuðu félagar vel búið Sjóminjasafn Reykjavíkur, sem sannarlega hefur merka sögu að geyma. Kl 19:00 var borinn fram vel matreiddur þorskhnakki með meiru, sem setti punktinn yfir i-ið á góðum degi. Afar góður rómur var gerður að þessari nýbreytni að heimsækja og kynnast starfsemi fyrirtækja í Reykjavík, heimabyggð RR.