Fundur Rótarýklúbbs Reykjavíkur 18. febrúar 2015 tileinkaður tjáningafrelsi
Á 29. fundi starfsársins flutti Róbert Haraldsson, prófessor í heimspeki við Hugvísindasvið Háskóla Íslands erindi um tjáningafrelsi við góðar undirtektir Rótarýfélaga og gesta.
Róbert fjallaði m.a. um hefðbundin málfrelsisrök og hvernig þau snúa að deilunni um dönsku múhameðsteikningarnar. Róbert er fæddur í Reykjavík árið 1959. Hann lauk doktorsprófi í heimspeki frá Háskólanum í Pittsburg í Bandaríkjunum árið 1997 og hefur sinnt kennslu í sagnfræði- og heimspeki- og lagadeildum Háskóla Íslands.
Auk Róberts var annar góður gestur á fundinum, Magnús Lyngdal Magnússon, en hann var gestur Jóns Atla Benediktssonar.
Viðtakandi forseti afhenti Gunnari Scheving Thorsteinsson gjöf í tilefni af 70 ára afmælis hans 18. febrúar. Gunnar þakkaði gjöfina og sagði að þátttaka í klúbbnum hefði alltaf verið skemmtileg og yrði bara ennþá betri með árunum. Með þessum orðum vildi hann sérstaklega hvetja yngri félaga til þátttöku í starfi klúbbsins. Gunnar er verkfræðingur að mennt og hefur verið félagi í RR frá því 29. júní 1988 fyrir starfsgreinina ráðgjafarverkfræði.