Fréttir

6.2.2015

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur - alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar - nýbygging rís haustið 2016


Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku og forstöðumaður stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hélt erindi á 27. fundi RR á miðvikudaginn s.l. um stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Sérstakur heiðursgestur fundarins var frú Vigdís Finnbogadóttir.


Auður hóf erindi sitt með því að gera grein fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum sem er rannsóknastofnun innan Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands og var sett á laggirnar í október 2001 í tengslum við 90 ára afmæli Háskóla Íslands og evrópska tungumálaárið. Stofnunin hefur notið þess heiðurs að bera nafn Vigdísar Finnbogadóttur og notið mikilvægrar liðveislu hennar í uppbyggingarstarfi stofnunarinnar. Þetta á ekki síst við um undirbúning byggingar undir stofnunina sem rísa mun við Suðurgötu á næstu misserum, en húsið er að stórum hluta fjármagnað með sjálfsaflafé og til þess verkefnið notið mikils velvilja í garð Vigdísar Finnbogadóttur bæði innanlands og utan.

Auður gerði grein fyrir þeim miklu tækifærum sem fælust í nýju húsi, en þar mun verða alþjóðleg tungumálamiðstöð og öll kennsla og rannsóknir í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands.  Auður lagði mikla áherslu á mikilvægi góðrar tungumálakunnáttu hér á landi og í umræðum í lok erindisins kom fram að hún teldi skorta verulega skilning á mikilvægi tungumálakunnáttu í atvinnulífinu. Tungumálanám ætti að vera hluti af allri menntun í landinu. Eins væri stofnuninni ætlað að gegna hlutverki á alþjóða vettvangi til að auka skilning á mikilvægi tungumála og varðveislu þeirra.

Auk Dr Auðar og frú Vigdísar, sem er félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur-Miðborg, voru gestir Ólafur Egilsson úr Rótarýklúbbi Seltjarnarness og Helga Bragadóttir, gestur Jóhanns Sigurjónssonar.