Fréttir

28.1.2015

Staða Þjóðkirkjunnar - stofnunin, sóknin og söfnuðurinn

Á 26. fundi starfsársins flutti séra Guðbjörg Jóhannesdóttir,  sóknarprestur í Langholtssókn erindi, sem bar yfirskriftina ,,Staða Þjóðkirkjunnar”.  Í erindinu var sjónum beint að ólíkum hliðum fyrirbærisins Þjóðkirkja í þeirri viðleitni að varpa ljósi á stöðu kirkjunnar í víðu samhengi.  Annars vegar stofnuninni, hins vegar sókninni og í þriðja lagi söfnuðinum.

Vakin var athygli á þeim mun sem virðist á samfélagslegu hlutverki og aðkomu að opinberu rými, þegar litið er til landsbyggðarkirkjunnar annars vegar og borgarkirkjunnar hins vegar. Í borgarkirkjunni má að auki greina flókið samspil milli aðildar og þátttöku. Guðbjörg gerði að umtalsefni á hvern hátt íslensk trúarmenning væri í raun að miklu leyti á forræði einstaklinganna sjálfra fremur en stofnunarinnar. Hún gerði að umtalsefni á hvern hátt þjóðkirkjufólkið í söfnuðunum fer sínar eigin leiðir hvað varðar trúarafstöðu hverju sem kenningum stofnunarinnar líður og tók þar dæmi af spíritismanum og deilunum um hjúskap samkynhneigðra. Gerð var grein fyrir því á hvern hátt kreppti að Þjóðkirkjunni þegar kirkjustofnunin ætlaði sér að ,,leiðrétta” trúarafstöðu meðlimanna með tilheyrandi úrsögnum sem síðan hefðu nær eingöngu áhrif á fjárhag heimasafnaðarins.

Að lokum var fjallað um kirkjuheimsóknir á aðventu, færð voru rök fyrir því á hvern hátt heimsóknirnar samræmdust hlutverki skóla og að engin ástæða væri til þess að heimili annarra trúarbragða eða lífsskoðana færu fram á undanþágu fyrir börn sín fremur en heimsóknir á Þjóðminjasafnið. Að lokum benti Guðbjörg á dóm Mannréttindadómstóls Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu að þjóðkirkjufyrirkomulagið stangist ekki á við trúfrelsisákvæði Mannréttindasáttmálans.

Af erindinu mátti ráða að staða Þjóðkirkjunnar er margbrotin, helstu hætturnar eru líkt og hjá fleiri félögum, þverrandi tekjur á sama tíma og mikil ásókn er í samfélag og þjónustu. En helstu stykleikarnir eru söfnuðirnir sjálfir sem lifa góðu lífi hverju svo sem yfirstjórn eða klerkum líður.

Auk Guðbjargar var annar góður gestur á fundinum, Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari og félagi í Rótarýklúbbi Reykjavík-Austurbær.

Davíð Scheving Thorsteinsson                                                            Matthíasi Jóhannessen

Félagar árnuðu heilla tveimur félögum sem fögnuðu 85 ára afmæli í janúarmánuði.