Fréttir

21.1.2015

Innri málefni Rótarýklúbbs Reykjavíkur rædd


Á 25. fundi starfsársins voru innri málefni RR til umfjöllunar, en að venju var þessi árlegi fundur haldinn að kveldi dags ólíkt vikulegum fundum klúbbsins. Jóhann Sigurjónsson forseti RR hafði framsögu, en á eftir voru uppbyggilegar umræður um félagsstarfið.

Jóhann ræddi stöðu klúbbsins í árdaga þegar RR var stofnsettur árið 1934 í samanburði við aðstæður í dag. Ljóst er að enn er til staðar þörf fyrir ábyrga forystuaðila í samfélaginu og RR því mikilvægt bakland leiðandi aðila á Íslandi líkt og áður var. RR væri athvarf og faglegur styrkur fólks í erilsömu starfi þar sem velvilji og uppbyggileg samskipti ráða ríkjum og margþætt fræðsla væri í fyrirúmi í opnum samskiptum. RR væri einnig samfélag fyrrum forystufólks, sem metur mikils að eiga áfram samskipti við félaga í forystu og vilja og geta veitt af reynslubrunni til yngri félaga. 

Jóhann rakti áherslur umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi Guðbjargar Alfreðsdóttur varðandi fjölgun félaga, að stefnt skuli að 100 dala framlagi hvers félaga á Íslandi á ári í Rótarýsjóðinn og að gera þurfi Rótarýstarfið betur sýnilegt en verið hefur, m.a. með Rótarýdeginum 28. febrúar 2015. 

Greint var frá fjölda félaga í RR, en þeir eru nú 126 talsins, þ.a. 29 konur og  7 heiðursfélagar. Fundaskyldir eru 79, 27 konur og 52 karlar. Meðalaldur fundaskyldra félaga er 61 ár, yngsti félaginn er 40 ára, en sá elsti tæplega 90 ára. Meðalmæting var 57% á tímabilinu júlí-okt. 2014, 60% félaga voru með 50% eða meiri mætingu og 9% félaga mættu á alla fundi á tímbilinu.  Forseti greindi frá markmiðum starfsáætlunar, þ.e. að taka inn 4-5 nýja félaga á ári og að gæta þyrfti að dreifingu félaga m.t.t. starfsgreina og kynjahlutfalls. 

Í framhaldi af kynningu Jóhanns tóku við afar góðar umræður um stefnumótun og áherslur í starfi klúbbsins, m.a. varðandi það hvernig klúbbfélagar RR skilgreina sig. Fundarmenn lögðu áherslu á að RR væri tengslaklúbbur aðila í þjóðlífinu, en einnig klúbbur, sem vildi láta gott af sér leiða á mannúðar- og samfélagssviði. Ákveðið var að efla framlög í Rótarýsjóðinn á næstu árum og að huga að verðugum verkefnum til að styrkja í framtíðinni, en um árabil hefur RR m.a. komið að baráttu Rotaryhreyfingarinnar gegn mænuveiki og sérstöku verkefni til þróunaraðstoðar í Malaví. Lýst var eftir hugmyndum félaga að verðugum verkefnum til framtíðar. Að lokum var rætt hvernig RR gæti haldið upp á Rótarýdaginn með samfloti við aðra klúbba, með því að brydda uppá nýjum verkefnum og kynna þau eða með framtaki til framtíðar sem kynna mætti á Rótarýdaginn 28. febrúar 2015.