Fréttir

7.1.2015

Þörf á aga og samhæfingu hins opinbera og almenna vinnumarkaðarins til að auka kaupmátt launa


Á 23. fundi starfsársins og fyrsta fundi ársins flutti Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins erindi sem hann nefndi “Kjarasamningar og hagstjórn”. Þar fjallaði hann um launaþróun síðustu áratugi, þróun kaupmáttar, verðlags, gengis og helstu forsendur kjarasamninga sem fara í hönd á þessu ári.

Í erindi Þorsteins kom m.a. fram að áherslan í kjarasamningum um alllangt skeið hefði leitt til þess að kaupmáttur lægstu launaþrepa hefði hækkað umtalsvert á undanförnum árum umfram almenna launaþróun, 80% frá 1990 miðað við 40% launavísitölu. Ekki væri raunhæft að sú leið yrði nú farin og nauðsynlegt að líta til allra launahópa. Síðustu misserin hefði stöðugt verðlag og gengi krónunnar styrkt kaupmátt, um 5% á árinu 2014, sem einkum skýrðist með hagstæðum vöruinnflutningi. Nú væri verðbólga á svipuðu róli og í nágrannalöndunum. Framleiðni á Íslandi væri hins vegar lág, m.a. vegna óstöðugleika hagkerfisins og mikillar sveiflu gengis á 5-10 ára fresti undanfarna áratugi, þannig að gengishrun 2008 hafi langt í frá verið einsdæmi í sögulegu samhengi.

Þorsteinn sagði að gott samræmi væri í kjaraþróun hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði s.l. 8 ár, en þó ekki á síðasta ári þegar gerðir voru samningar af hálfu hins opinbera. Ef vel ætti til að takast í kjarasamningum framundan þyrfti að draga úr óstöðugleika á vinnumarkaði með rammaskipulagi samningsaðila líkt og á Norðurlöndum, en einnig að ríkisvaldið sé í takt við hinn almenna markað og fylgi þar almennri launaþróun þannig að kjarabætur verði sjálfbærar og stuðli að samkeppnishæfni landsins.

 Það var Margrét Sanders sem kynnti ræðumann, en það er Þjóðmálanefnd skipuð Salvöru Nordal, Margréti og Geir Haarde, sem velja fyrirlesara í janúarmáuði.

Gestur á fundinum auk Þorsteins var Vilhjálmur Bjarnason alþm og félagi í Rótarýklúbbi Görðum.