Fréttir

26.11.2014

Útflutningur á þekkingu og reynslu á sviði orku og jarðvarma

Miðvikudaginn 26. nóvember var 18. fundur starfsársins haldinn og eins og á síðustu tveimur fundum sáu félagar í RR um erindi dagsins. Það sýnir hve ríkt baklandið er í klúbbnum. Guðmundur Þóroddsson, verkfræðingur og jarðhitafrömuður flutti erindi um jarðhitaverkefni og verkefni á sviði orkuöflunar á alþjóða vettvangi. Sjálfbær orkunýting er mikilvægt viðfangsefni á alþjóða vettvangi og útflutningsgrein á Íslandi þar sem þekking og reynsla á sviði virkjunar fallvatna og jarðhita á sér langa sögu.

Guðmundur greindi frá verkefnum sem fyrirtækið Reykjavik Geothermal hefði unnið að á undanförnum árum, en þar væri um að ræða aðkomu að rannsóknum á virkjunarmöguleikum, ráðgjöf við fjármögnun og framkvæmdir. Hann sagði frá verkefnum erlendis, einkum hinu stóra verkefni í Eþíópíu (Corbetti Geothermal Power Project) þar sem unnið er að 1000 megavatta jarðvarmavirkjun, en einnig kemur fyrirtækið að minni verkefnum í St Vincent og Grenadines, í Mexíkó og víðar.

Forseti bauð velkomna á fundinn Michael Hymes félaga í Rotary Club Bronx í New York og Alexander K. Guðmundsson, sem var gestur Kristjáns Ragnarssonar.

Að lokum var lýst kjöri stjórnar RR fyrir næsta starfsár, en forseti verður Ágústa Guðmundsdóttir, viðtakandi forseti verður Jón Karl Ólafsson, ritari Harpa Þórsdóttir, gjaldkeri Kjartan Óskarsson og stallari Ragnheiður Haraldsdóttir.