Fréttir

19.11.2014

Geir H. Haarde verðandi sendiherra í Washington DC fjallaði um samskipti Íslands og USA á næstu  árum

Á fundinum í dag flutti félagi í RR, fyrrverandi forsætisráðherra og verðandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum Geir H. Haarde erindi um samskipti Íslands og Bandaríkjanna á komandi árum. Erindi Geirs vakti athygli félaga og gesta, en þar ræddi hann mikilvægi þess að styrkja stjórnmálatengsl Íslands og Bandríkjanna, þar sem öryggis- og varnarmál væru í brennideplinum. Geir sagði æskilegt að varnarsamstarf þjóðanna yrði virkara en síðustu árin vegna breyttra aðstæðna. Þar kæmi m.a. til Úkraínudeilan og ágeng hegðun Rússa, aukinn áhugi Kínverja á okkar heimshluta og almennt talað breyttar aðstæður á Norðurslóðum.

Nýjar aðstæður kalla á nýja hugsun og aðgerðir. Vel mætti hugsa sér björgunarmiðstöð á Íslandi til að svara vá á Norðurslóð með þátttöku m.a. Bandaríkjamanna, en einnig styrking loftrýmisgæslu yfir Íslandi, sem væri nú ónóg. Hvernig er best að tekið sé á alþjóðlegri hryðjuverkaógn og tölvuárásum ? Þetta væru verkefni sem Íslendingar stæðu frammi fyrir og myndu vilja eiga samstarf við Bandaríkin um.

 

Geir fór ennfremur yfir víðtæk tvíhliða viðskipti Íslands og Bandaríkjanna sem væru á öllum sviðum, ekki aðeins hefðbundnum viðskiptum á sviði sjávarútvegs, flug- og skipaflutningum, heldur væri gríðarleg gróska á sviði hátækni og nýsköpunar. Hann ræddi svo eilíft þrætuepli þjóðanna tveggja, réttmæti hvalveiða, sem hann taldi sig þurfa að ræða og útskýra fyrir þarlendum, en svo virtist sem rofað hefði til í afstöðunni um hvort í lagi væri að nýta stofna sem þyldu veiðar. Að lokum kom fram í máli Geirs að af augljósum ástæðum gæti afnám gjaldeyrishafta og samskipti við bandarísk stjórnvöld vegna þessa orðið mikilvægt verkefni fyrir verðandi sendiherra Íslands í Washington DC.

 

Um leið og erindi Geirs var fagnað af félögum í RR, var  þeim hjónum Ingu Jónu og Geir óskað velfarnaðar í mikilvægum störfum í Bandaríkjunum þegar skipan hans í embætti gengur í garð um næstu áramót. Að lokum gat Geir þess að hann teldi eðlilegt að RR skipulegði ferð til Washington DC hið fyrsta og var því tekið með lófataki.

 

Það var alþjóðanefnd klúbbsins sem hefur haft veg og vanda að vali erinda í nóvember mánuði, en hana skipa þau Guðmundur Þóroddsson, Sigríður Anna Guðjónsdóttir og Sveinbjörn E. Björnsson (form.).

 

Á fundinn komu góðir gestir úr öðrum Rótarýklúbbum, en það voru:

Gottfreð Árnason, Rótarýklúbburinn Borgir-Kópavogur

Inga Jóna Þórðardóttir, Rótarýklúbburinn Rvík-Miðborg

Steinar Berg Björnsson, Rótarýklúbburin Rvík-Austurbær

Þorsteinn Gíslason, Rotary Salem, New Hampshire, USA og

Þorgeir Pálsson, Rotaryklúbbur Seltjarnarness.

 

Aðrir gestir voru þau Stefán Einar Stefánsson, gestur Hjálmars Jónssonar, og

Þórunn S. Þorgrímsdóttir, gestur Ragnheiðar Haraldsdóttur.

 

Á fundinum fór fram tilnefning og skrifleg kosning fulltrúa í stjórn RR næsta starfsár.