Fréttir

12.11.2014

Heimurinn, tölurnar og Guð

Á 16. fundi starfsársins hélt Benedikt Jóhannesson, félagi og fyrrverandi forseti RR erindi dagsins með sínu frábæra lagi. Erindið nefndi Benedikt “Heimurinn, tölurnar og Guð” og velti þar fyrir sér stærðfræðinni, þýðingu hennar og mismunandi talnakerfum fyrir skilning mannsins á heiminum. Það er margt öðruvísi en margur hélt. 

 

Í upphafi kom Benedikt inn á tilraunir til þess að sanna tilvist guðs með stærðfræðireglum. Þær sannanir hafa verið missannfærandi. Pascal sagði að ef guð væri til og maður trúði á hann biði manns eilíf sæla. Þeir sem ekki tryðu á guð færu á mis við himnaríki. Ef guð væri ekki til biði manns ekkert. Vegna þess að vinningurinn væri óendanlega hár ættu menn að trúa á guð.
Jörðin, sem í biblíunni er sköpunarverk guðs, var lengst af talin flöt og þá giltu ákveðnar stærðfræðireglur, til dæmis að samsíða línur skerast ekki, en með meiri þekkingu hefur stærðfræðin lýst henni verið lýst sem kúlu þar sem samsíða línur geta skorist. Hugsið ykkur t.d. að þó svo að lengdarbaugar jarðar séu samsíða línur, sem mæta miðbaug undir 90° horni, þá skerast þeir á pólnum ! Og augað blekkir, þó sólin sýnist álíka stór og tunglið, er það vitanlega ekki svo.  
Benedikt fjallaði á líflegan hátt um talnakerfi, tuga- og tvíundarkerfið, en tölvukerfi nútímans byggja á því síðarnefnda. Hvernig er hægt aða hugsa sér heiminn án “0” eða mínus talna, en áður var það nú raunveruleikinn. Þá var vikið að heilu tölunum, náttúrulegu tölunum og fullkomnu tölunum, þeim sem eru summa talna sem ganga upp í töluna, t.d. 6 (1, 2, og 3 ganga uppí 6 og summan er 6!). Ágústínus kirkjufaðir hélt því fram að guð hefði skapað heiminn á sex dögum vegna þess að sex væri fullkomin talan!
Benedikt spurði hvers vegna svo falleg röð og regla gilti víða í heiminum, t.d. þar sem menn ættu hennar ekki von eins og í tónlist og myndlist. Vissar stærðfræðireglur væru fallegar fyrir eyrað á sama hátt og viss stærðfræðileg hlutföll (gullna sniðið) féllu betur að fegurðarskyni mannsins en aðrar ! 
Loks sagði Benedikt frá tvíundakerfinu sem byggir á tölunum 1 og 0. Sumir telja að það sanni að guð sem er einn, geti skapað heiminn úr engu (sem er núll).
Fyrirlesturinn endaði Benedikt á því að minna á þekkta fullyrðingu: Væri guð ekki til yrðum við að finna hann upp.

Á fundinum var fjöldi gesta, Jón Pétursson frá Rótarýklúbbi Héraðsbúa, og 7 gestir félaga í RR, þau Benóný Torfi Eggertsson (gestur Ólafs Stefánssonar),  Jón Sch. Thorsteinsson (gestur Davíðs Sch. Thorsteinsonar), séra Karl V. Matthíasson (gestur Benedikts Jóhannessonar), Kristján Jónasson (gestur Egils B. Hreinssonar), Margrét Þorvaldsdóttir (gestur Sigmundar Guðbjarnarsonar),  Sigurður Kári Árnason og Valdimar G. Guðmundsson (gestir Guðmundar G. Þórarinssonar). 

Að lokinn skoðanakönnun um utanlandsferð á vori komanda, tilkynnti forseti að stjórn RR hefði ákveðið að vinna að ferð félaga til Berlínar í byrjun maí 2015.