Fréttir

5.11.2014

Ánægjuleg heimsókn umdæmisstjóra á fund í RR


Á 15. fundi starfsársins kom umdæmisstjóri Rótarý hreyfingarinnar á Íslandi starfsárið 2014-2015 Guðbjörg Alfreðsdóttir  til fundar ásamt eiginmanni sínum Ásmundi Karlssyni. Umdæmisstjóri færði félögum sýn á sóknarfæri og möguleika klúbbanna til að hafa jákvæð og uppbyggileg áhrif á nærsamfélagið sem og styrk hreyfingarinnar á sviði mannúðar og menningarmála á heimsvísu. Þar gegndi Rótarýsjóðurinn lykilhlutverki, en auk baráttunnar gegn lömunarveiki, styrkveitinga til friðarmála og mennta, styrkir sjóðurinn ýmis þörf verkefni í þriðja heiminum.

Guðbjörg gat þess að svo vel skiluðu fjármunir Rótarýsjóðsins sér til þeirra sem til væri ætlast og á þyrftu að halda, að þau frægu hjón Melinda og Bill Gates létu af hendi rakna tvöfalda upphæð sem sem greidd er í polio plus sjóðinn hverju sinni. Eins vakti hún athygli á að framlög í svokallaðan árlegan sjóð, gerði klúbbum kleift að sækja um að þremur árum liðnum a.m.k. helming framlagsins til verkefna á vegum klúbbsins.

Umdæmisstjóri leggur áherslu á þrjú atriði á þessu starfsári, sem eru í anda núverandi heimsforseta Rotary International Gary C.K. Huang frá Formósu. Markmiðið er að auka félagafjölda Rótarý á Íslandi á starfsárinu, stefna að 100 dala framlagi hvers félaga Rótarý á Íslandi á ári og að gera Rótarýstarfið sýnilegra í samfélaginu en verið hefur. Af því tilefni kynnti umdæmisstjóri fyrirhugaðan Rótarýdag 28. febrúar 2015 þar sem klúbbar á landinu munu kynna starfsemi Rótarý á viðeigandi hátt.

Góður rómur var gerður að máli Guðbjargar, en 21. janúar n.k. munu félagar ræða starfsemi klúbbsins á sérstökum fundi þar sem hvatning og ábendingar umdæmisstjóra verða betur ræddar.