Fréttir

22.10.2014

Upplýsingavefur um íslenska tónlist og menningu ÍSMÚS

Dr. Bjarki Sveinbjörnsson forstöðumaður Tónlistarsafns Íslands í Kópavogi flutti erindi dagsins á 13. fundi starfsársins og fjallaði um ÍSMÚS gagnagrunninn, sem er upplýsingavefur um íslenska tónlist og menningu. Fram kom að hann og félagi hans Dr. Jón Hrólfur Sigurjónsson hafa unnið frá árinu 2007 að uppbyggingu ÍSMÚS gagnagrunnsins, en markmið verkefnisins er að veita aðgang að sögu íslenskrar tónlistar á Netinu. Íslensk tónlistarhandrit (frá 1100-1800), elstu hljóðritanir gerðar á Íslandi og þjóðfræðiefni stofnunar Árna Magnússonar eru dæmi um verkefni sem þegar eru aðgengileg. Þá er nú unnið að gagnagrunni um íslensk þjóðlög og um tón- og listmenningu Íslendinga er fluttu vestur um haf í lok 19. aldar og í upphafi 20. aldar.


Erindi Bjarka var skemmtilegt og spunnust miklar og góðar umræður um efni þess.