Fréttir

15.10.2014

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir: Borgar sig að bíða ? Um síðbúna umbun

Á 12. Fundi starfsársins var gestur klúbbsins Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, dósent í heilsuhagfræði, en hún flutti erindi sem hún nefndi “Borgar sig að bíða ? Um síðbúna umbun”. Í erindinu var fjallað um hugsanleg takmörk skynseminnar við afstöðu til valkosta. Sérstaklega var leitast við að bregða birtu á hugsun og atferli manna við val á milli kosta sem fást á mismunandi tímabilum. Því var velt upp hvort slíkar ákvarðanir væru skynsamlegar eða hvort sjálfsstjórnarvandi gerði það að verkum að einstaklingar ættu erfitt með að sýna þolinmæði og bíða eftir umbun. Það var Sveinn Agnarsson, sem kynnti ræðumann.



Erindið byggði á rannsóknum sem Tinna Laufey stóð að ásamt öðrum þar sem umbunað var með raunverulegum fjármunum og reynt var að einangra þætti svo sem fjáhagsstöðu viðkomandi og starfsöryggi. Nánar má finna upplýsingar um rannsóknina á http://papers.ssrn.com/sol3/papers.cfm?abstract_id=2446602.

Á fundinum fór Sigurð Stefánsson, gjaldkeri síðustu stjórnar, yfir fjárhagsstöðuna við síðustu stjórnarskipti þar sem fram kom að heildar rekstrartekjur voru kr 4.953.647.- og afkoma ársins kr 169.295.- þegar kr 323.647.- tekjur í Byttusjóð voru taldar með. Reikningar síðasta starfsárs voru samþykktir einróma af fundarmönnum. Sveinbjörn Egill Björnsson, gjaldkeri stjórnar kynnti því næst fjárhagsáætlun starfsársins 2014/2015 þar sem gert er ráð fyrir 9,5% hækkun árgjalds, heildarrekstrartekjum kr 6.330.507.- og afkomu ársins kr 124.460.- Gert er ráð fyrir að safna á ný í Byttusjóð og styrkja mæðrastyrksnefnd með söfnunarfé í ár og á síðasta ári, en jafnframt er ráð fyrir gert að framlag í Rótarýsjóð verði kr 624.360.- en ekkert framlag var reitt af hendi á síðasta starfsári. Forseti benti á að árgjaldið í klúbbnum hefði ekki verið hækka um nokkurt skeið og til þess að standa undir framlagi til Rótarýsjóðsins væri nauðsynlegt að hækka árgjaldið. Hækkun árgjaldsins var samþykkt samhljóma.

Á næsta eða þarnæsta fundi verður látinn ganga skoðanakönnun um utanlandsferð í vor, maíbyrjun, þar sem kostirnir verða Berlín, Prag og Washington DC.

Umdæmisþing Rótarý var haldið síðustu helgi í Garðabæ og var afar glæsilegt í alla staði. Þar voru fulltrúar klúbbanna 30 hvattir til að stuðla að fjölgun félaga í landinu og mun umdæmisstjóri stefna að stofnun tveggja klúbba  á árinu. Einnig var hvatt til að auka framlög félaga í Rótarýsjóðinn. Að lokum voru einkunnarorð heimsforseta Rótarý gerð að umtalsefni, en hann leggur sérstaka áherslu á að Rótarý verði gert sýnilegra í samfélaginu og hefur umdæmisráðið ákveðið að þann 28. febrúar n.k. verði sérstakur kynningardagur klúbbanna á landsvísu. Kynningarbæklingi um þetta var dreift á fundinum.