Fréttir

8.10.2014

Ketill Berg Magnússon: Samfélagsábyrgð og áhrif hennar á rekstur fyrirtækja


Á 11. Fundi starfsársins hélt Ketill Berg Magnússon, heimspekingur, rekstrarhagfræðingur og framkvæmdastjóri

Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð erindi sem hann nefndi“Samfélagsábyrgð og áhrif hennar á rekstur fyrirtækja“. Samfélagsábyrgð fyrirtækja á rætur að rekja til hugtaksins um sjálfbæra þróun, sem skilgreint var í svokallaðri Brundtlandskýrslu, „Sameiginleg framtíð vor“ frá árinu 1987. Þar er kveðið á um að við skilum auðlindum okkar og móður jörð í jafn góðu eða betra ástandi til komandi kynslóða. Samfélagsábyrgð fyrirtækja felur í sér að axla ábyrgð af afleiðingum ákvarðana og gjörða á samfélagið og umhverfið.

Fram kom að samfélagsleg ábyrgð væri orðinn hluti af raunveruleika fyrirtækja sem áhrif hefði á samkeppnishæfni þeirra og afkomu, líkt og iðnbyltingin gerði á sínum tíma. Hér eru mikilvægir þættir gagnsæi, siðræn hegðun og samstarf við hagsmunaaðila, en einnig í vaxandi mæli þættir eins og orkunýting, meðferð hráefna og aðföng öll. Fyrirtæki þurfa því að aðlaga sig að breyttum aðstæðum en í því felast einnig ný viðskiptatækifæri. Samfélagsábyrgð fyrirtækja felur í sér gagnkvæman ávinning fyrir fyrirtækið og samfélagið. Ekki nægir í dag að fyrirtæki ástundi „grænþvott“, þ.e. segist vera umhverfisvæn, en séu það ekki; breyti t.d. umfjöllun, orðalagi eða auglýsingu um vöru, en ekki vörunni sjálfri.

Athyglisverðar umræður spunnust um erindi Ketils og ljóst er að þessi mál hafa nú þegar og munu í vaxandi mæli snerta allt rekstrarumhverfi fyrirtækja. Friðrik Már Baldursson kynnti fyrirlesara.

Aðrir gestir á fundinum voru Donald E. Dooley frá Rótary Newfoundland, Dagný Leifsdóttir, sem var gestur Leifs Magnússonar og Jóhannes Einarsson, gestur Höskuldar Ólafssonar.

Á fundinum færði forseti Sveini Einarssyni bókargjöf í tilefni 80 ára afmælis hans 18. September s.l., en Sveinn hefur verið félagi í RR frá 14. mars 1973.

Forseti gat þess að 2 metra hár amerískur reyniviður, sem Rótarýumdæmið afhenti klúbbnum í tilefni 80 ára afmælis RR, hefði verið gróðursettur við suðvestur horn Hótel Sögu, rétt við innganginn í Sunnusal.