Árni Heimir Ingólfsson: Áhrifin erlendis frá á fyrri alda tónlist hér á landi miklu meiri en menn hugðu
Aðal fundarefni 10. fundar starfsársins var erindi dr Árna Heimis Ingólfssonar, tónlistarfræðings, sem hann nefndi "Heimsmenningin og íslenskt sönglíf á 17. öld”. Árni er nú listrænn ráðgjafi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gestaprófessor við Listaháskóla Íslands. Hann hefur sérhæft sig í sögu íslenska tvísöngsins og fengist við rannsóknir á íslenskri tónlistarsögu.
Það er óhætt að segja að Árni hafi fangað athygli félaga í RR með frásögn sinni af því hvernig frekar rýrt safn handrita af laglínum í íslenskum söfnum var uppspretta hans að rannsóknum á uppruna tónlistar, sem iðkuð var á Íslandi 16. og 17. öld. Tenórröddin í sönglagi við textann “Súsanna, sannan Guðs dóm reyndir þá …”, sem líklega var sungið í Skálholti um 1670 og varðveitt í íslenska nótnahandritinu Melódía, reyndist vera vinsælt lag í Frakklandi frá um 1540. Og þekkt lag á Íslandi (m.a. sungið af Þursaflokknum) “Vera mátt góður … “, reyndist eftir rannsóknir Árna Heimis vera madrígali frá Ítalíu, sem hann fann m.a. heimildir um frá Feneyjum allt frá árinu 1545 ! Einnig gaf Árni Heimir dæmi um þýskan jólasálm frá Wittenberg, frá um 1560, sem var sunginn á Íslandi fyrr á tímum. Niðurstaðan sem sagt að áhrifin erlendis frá voru miklu meiri en menn hugðu.
Ekki var þó heldur svo að íslensk tónlist á þessum tíma hefði verið fátækleg eða sveitaleg. Þess til sönnunar nefndi Árni Heimir kvæðabók Ólafs Jónssonar prests á Söndum (Vestfjörðum) í kringum 1600, með 50 lögum, sem ekki voru rakin til útlanda og teljast standast mál. Þar var nefnt lag og væntanlega ljóð Ólafs “Mikils ætti ég aumur að akta”.
Það sem setti punktinn yfir i-ið í frábæru erindi Árna Heimis voru tóndæmin, sem hann hafði unnið með Kammerkórnum Carmina, frábærum kór undir hans stjórn. Kjartan Óskarsson kynnti fyrirlesara.
Á fundinum var einnig góður gestur frá Kanada, Donald S. Dooley frá St John´s á Nýfundnalandi, sem er tíður gestur hér og Vilborg Ingólfsdóttir, gestur Ragnheiðar Haraldsdóttur.